Hvar endar þetta fáránlega "jeppa"tal?

Notkun orðhlutans "jepp" er orðin beinlínis hlægileg hér á landi um bíla, sem eiga nær ekkert sameiginlegt lengur með jeppum, og í engu öðru tungumáli sést hliðstæða svona orðavals.

Fyrstu jepplingarnir hér á landi sem nota hefði mátt þetta orð um, voru fjórhjóladrifnir Subaru, Toyota Tercel, Fiat Panda 4x4 og Toyota RAV4, en nýyrðið jepplingur varð ekki til í íslensku fyrr en sá síðasnefndi kom til sögunnar og fleiri fóru að bætast við, svo sem Honda CRV, Landrover Freelander og Renault Scenic 4x4.

Um svona bíla var síðan farið að nota tvö nýyrði erlendis, SUV (Sport Utility Vehicle) og Crossover, þ. e. bíla með heilsteyptri sjálfberandi hárri byggingu, drif á öllum hjólum og örlítið meiri veghæð.

Ekkert íslenskt nýyrði hefur verið kynnt um þessa bíla, en orðið umskiptingur lýsir því kannski að hluta.

Smám saman komust bílaframleiðendur að því að fjórhjóladrif og veghæð skipti kaupendur miklu minna máli en útlitið sjálft og fóru því að lækka veghæðina og bjóða "jepplingana" án fjórhjóladrifs.

Ástæðan var sú að útlitið var orðið að stöðutákni þótt auðvitað væri aðeins meira rými inni í hábyggðum bílum en lágbyggðum. Renault_Captur_Luxe_ENERGY_TCe_90_Start_&_Stop_eco²_–_Frontansicht,_10._Juli_2013,_Münster_(3)[1]

Nú er svo komið að langflestir "jepplingarnir" eða "borgarjepparnir" eru ekki fjórhjóladrifnir og flestir með svo litla veghæð, að hlaðnir komast þeir hvorki lönd né strönd á slæmum vegum.

Og nú eru að koma á markað "borgarjeppar" sem eru ekki einu sinni seldir með fjórhjóladrifi eins og til dæmis Renault Captur.

Þar með er notkun orðshlutans "jepp" komin út í tóma vitleysu og komið mál til að hætta að nota það í bílum sem hafa engu betri eiginleika á erfiðum og torfærum vegum en venjulegir fólksbílar, en veita falska öryggistilfinningu.

Veghæð þeirra óhlaðinna er minni en var til dæmis á Volkswagenbjöllunni og flestum öðrum fólksbílum hér í gamla daga.

Flestir þessara bíla er með framenda sem skagar langt fram alveg niðri við jörð og er því hætt við að rekast niður á ójöfnum vegum, til dæmis þar sem hvörf eru í þeim eða þeir liggja yfir ár og læki.

Ef bílarnir væru með fjórhjóladrifi gæti framendinn að vísu nýst sem ágætis snjóýtutönn, en er auðvitað ekki hannaður með slíkt í huga heldur sem tískufyrirbrigði og í besta falli hentugt lag til að lækka loftmótstöðu.

Í ofanálag er nú í gangi tilhneiging til að lækka yfirbyggingu þessara bíla og hefur hún að meðaltali lækkað um 5-10 sentimetra á síðustu misserum og orðin svipuð og var á venjulegum fólksbílum fram undir 1960. Á sama tíma hafa venjulegir fólskbílar hækkað, svo að hæðarmunurinn á þeim og þessum "borgarjeppum" er orðinn minni en 10 sentimetrar !    

Eina sérstæða þessara umræddu bíla er að þeir hafa sðeins hærra þak en venjulegir fólksbílar og orðin "háþekja", "háþekjubíll" eða "fjölnotabíll" ættu kannski best við, en með sama áframhaldi er hætt við að einnig sá munur sé að þurrrkast út!     


mbl.is Með notagildið á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sportin tvö" hjá 007.

Svo virðist sem ýmsar tröllasögur af leyniþjónustumönnum svo sem James Bond, villi um fyrir sumum.

Að minnsta kosti virðist það hafa hent leyniþjónustumanninn, sem átti að gæta sjálfs Bandaríkjaforseta en fannst meðvitundarlaus í áfengisdauða.

 

Er það furða að menn stígi

óvarlega í sportin tvö?

Í kvennafari´og fylleríi

var fremstur allra núll-núll-sjö.


mbl.is Leyniþjónustumaður drapst áfengisdauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlar framfarir í tæpa öld.

Í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru haldnar almennar atkvæðagreiðslur í Slésvík-Holtsetalandi og í Saar´-héraðinu 1935 í samræmi við hugmyndir Wilsons Bandaríkjaforseta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðabrota.

Íslendingar greiddu líka atkvæði um samning við Dani um frelsi og fullveldi Íslands, en það var eingöngu vegna þess að Danir kröfðust atkvæðagreiðslu og sjálfsákvörðunarréttar íbúa  í Slésvík-Holtsetalandi og urðu að vera samkvæmir sjálfum sér varðandi Ísland.

Raunar kom hugmynd Wilsons úr sérkennilegri átt, því að borgarastríðið í Bandaríkjunum hálfri öld fyrr snerist um það að meina Suðurríkjunum að skilja sig frá Norðurríkjum Bandaríkjanna.

Tviskinnungurinn var mikill. Það þótti allt í lagi að íbúarnir í nyrstu héruðum Þýskalands fengju að ráða sjálfir ríkisfangi sínu, af því að það fól í sér minnkun þýska ríkisins.

Hins vegar þótti ótækt að halda atkvæðagreiðslu í Súdetahéruðunum við suðurjaðar ríkisins af því að sigurvegarar stríðsins gátu ekki sætt við þá niðurstöðu að nein hinna sigruðu þjóða færði út landamæri sín, jafnvel þótt viðkomandi íbúar vildu það.

Og allar götur síðan hefur ríkt mikill tvískinnungur um þetta og oftast verið harðneitað að láta íbúa svæða ráða sjálfa um stöðu sína og framtíð og gjarnan því borið við að slíkt sé ólöglegt samkvæmt stjórnarskrá viðkomandi lands.

Í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari var mikil harðneskja ríkjandi varðandi svona mál og 14 milljónir manna voru fluttir nauðugir frá heimkynnum sínum í Evrópu til að þjóna vilja sigurvegaranna.

Þá var tíðarandinn andsnúinn sjálfsákvörðunarrétti á þessu sviði og Danir beittu brögðum til að koma í veg fyrir að Færeyingar fengju sjálfstæði.

Hvorki er að sjá að skynsamlegt sé né réttlátt að þvinga Rússa til að láta Krímskagann af hendi til Úkraínumanna gegn vilja Krímverja. Enda ómögulegt, bæði hernaðarlega og pólitískt.    


mbl.is Þjóðaratkvæðið ólögmætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kona sem þarf að hlusta á.

Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor vakti fyrst athygli mína á Degi íslenskrar náttúru 2011 þegar hún hélt stórmerkan fyrirlestur í Öskju um sjálfbærni eða öllu heldur ósjálfbærni helstu auðlinda heims. Kristín Vala.

Sá fyrirlestur opnaði "stóru myndina" sem hún hefur lagt áherslu á að reyna að sjá, greina og dreifa upplýsingum um og var sem opinberun fyrir mig.

Raunar ætti efni þessa fyrirlestrar Kristínar Völu að vera skyldulesning núlifandi jarðarbúa í stað þess að voldug valdaöfl gera allt sem þau geta til þess að fela staðreyndirnar um það hvert mannkynið stefnir á þessari öld.

Ég man að ég reyndi að vekja athygli á þessum fyrirlestri á sínum tíma en talaði fyrir daufum eyrum.

Hef reyndar oft vitnað síðan í einstök atriði hans, en það er eins og að stökkva vatni á gæs.  

Nú hefur Kristín Vala fengið verðskuldaða viðurkenningu erlendis með kjöri í norsku vísindaakademíuna.

Vonandi verður farið að hlusta eitthvað á hana hér heima þegar svo er komið.   


mbl.is Horfir á stóru myndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband