Ögmundur er ekki tímaskekkja, ástandið hér á landi er það.

Spurt er í athugasemd við fréttina um fyrirætlan Ögmundar Jónassonar að fara inn á Geysissvæðið á morgun án þess að borga landeigendum fyrir það, hvort Ögmundur sé tímaskekkja.

Skoðum málið og berum ástandið hér á landi saman við ástandið í Bandaríkjunum, en þar í landi telja menn sig forystuþjóð fyrir frelsi, einkaframtaki og markaðshyggju.

Flest helstu náttúruverðmæti Bandaríkjanna eru í þjóðareigu og hafa verið það allt frá stofnun Yellowstone-þjóðgarðsins fyrir 140 árum.

Rukkaður er aðgangseyrir inn í þjóðgarðana, en það er meðvituð stefna að aðgangseyririnn nægir hvergi nærri til að borga fyrir kostnaðinn við viðhald og þjónustu í þeim, vegna þess að annars yrði aðgangseyririnn svo hár, að það yrði ekki fyrir hina tekjulægri að borga fyrir hann.

Þetta er í samræmi við einkunnarorð, sem standa letruð stóru letri yfir inngangshliðinu: "Til yndisauka og ánægju fyrir fólkið/þjóðina".  

Hér rekum við okkur strax á algera andstæðu við gróðahyggjuna og sérhagsmunaákafann, sem ríkir hér á landi og er hreint ótrúleg tímaskekkja og hneisa.

Þar að auki fær hver þjóðgarðsgestur í Bandaríkjunum strax í hendur við innganginn vandaðan leiðbeininga- og upplýsingabækling og sér um leið og hann kemur inn í garðinn fyrir hvað hann er að borga, - og hann sér meira en það, -  hann sér að það sem gert er í garðinum er miklu dýrara en hann hefur borgað fyrir, - þetta eru reyfarakaup.

Þetta er alger andstæða þess, sem nú er að gerast hér á landi.

Bandaríkjamenn skoða þetta út frá miklu víðara sjónarhorni en við. Þeir telja að um heiður, sóma, stolt og þar með viðskiptavild þjóðarinnar sé að ræða en ekki um þröng einkasjónarmið eða staðbundin sjónarmið. Þeir telja sig ekki eiga náttúruverðmætin, heldur hafa þau að láni frá afkomendum sínum og vera vörslumenn gersema fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt.

Þeir vita að óbeinar tekjur af þjóðgörðunum streyma inn þjóðfélagið um allt landið. Þeir vita til dæmis, að þær 1,5 milljónir ferðamanna á ári, sem koma til Yellowstone, þurfa að fara langa leið til þess og að mest af þeim tekjum fellur til víða um Bandaríkin.  

Hvergi í þeim 28 þjóðgörðum sem ég hef komið í víða um lönd hef ég séð neitt í líkingu við ruglið og óreiðuna sem hefur viðgengist á Geysissvæðinu og víðar í áratugi með ástandi, sem er fyrir löngu orðið þjóðarskömm.

Þess vegna verður för Ögmundar og vonandi sem flestra fleiri inn á svæðið á morgun ekki tímaskekkja, heldur er fyrir langalöngu orðið tímabært að hreinsa þessi mál upp og það sem fyrst.


mbl.is Líkir gjaldtökunni við þjófnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að gera úttektir víða um land.

Þegar Öræfajökull gaus 1262 lagðist hin blómlega byggð, Litla-Hérað, í auðn. Bæir grófust í þykkt öskulag og hamfaraflóð geystust niður frá fjallinu.

Mjög líklegt er að margir hafi farist. Fjallið er hugsanlega hættulegasta eldfjall á Íslandi, bæði vegna þess að það er býsna virkt, getur búið yfir mannskæðum ógnum og er nálægt byggð.

Hvergi nærri hefur verið veitt nógu miklu fé til rannsókna á vá vegna eldvirkni á landinu og viðbrögðum við slíku.

Til dæmis var hætt við að útfæra áfram áhættumat vegna eldsumbrota á norðaustanverðun Reykjanesskaga fyrir 20 árum, en frumathuganir leiddu skuggalegar staðreyndir í ljós.Kollóttadyngj Herðubr.-Tögl.Snæfell  

Gera verður betur í því efni bæði í byggð og óbyggð, þótt ekki væri nema bara vegna stóraukinnar umferðar ferðamanna.

Má þar nefna svæðið norðan Vatnajökuls sem er fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims og stór hluti þess afar afskekktur.

Á myndinni eru dyngja, (Kollóttadyngja) móbergsstapi (Herðubreið)  móbergshryggur, gígaröð mynduð undir jökli (Herðubreiðartögl) , og stórt eldfjall (Snæfell). BISA til sv

Gerð og viðhald Sauðárflugvallar á Brúaröræfum (eldstöðin Kverkfjöll í baksýn)  hefur að minni hálfu verið hugsað sem öryggisatriði ef mikið eldgos kæmi úr eldstöðvunum í nágrenni hans, Kverkfjöllum, Öskju, svæðinu við Upptyppinga eða Álftadalsbungu, svo að dæmi séu tekin af ótal eldstöðvum á þessu svæði.  

En engin viðbragðsáætlun er til fyrir þetta svæði, þar sem tilvist flugvallar, sem nothæfur kynni að vera fyrir flugvélar á borð við Fokker F50, Dash 8, Lockheed Hercules eða Boeing C-17 Globemaster gæti skipt sköpum fyrir björgunaraðgerðir og annað viðbúnað vegna stórs eldgoss.

Og einnig ef stórslys eða vandræði bæri að höndum.

Þetta er eini flugvöllurinn á öllu hálendinu sem er nothæfur fyrir svo stórar flugvélar.   


mbl.is Flóð myndi geysast niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílikar framfarir !

Á þeim tíma sem ég var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu hér um árið hefði ég látið segja mér það margsinnis án þess að trúa því að íslenskar fimleikakonur yrðu jafn snjallar og árangur og raun ber vitni. Lengi vel sást munurinn á bestu erlendu fimleikakonunum og þeim íslensku langar leiðir.

En það er liðin tíð.

Svipað má segja um skyldar íþróttir eins samkvæmisdansa og margar aðrar íþróttir sem halda hefði mátt að fámennið og fjarlægðin frá öðrum löndum myndi koma í veg fyrir að þróuðust jafn glæsilega og blasir við.

Þetta er gleðilegt, einkum vegna þess, að í mörgum afreksíþróttum líður margt afreksfólkið fyrir það að fjárráðin eru hvergi nærri þau sömu og margfalt fjölmennari þjóðir hafa ráð á að veita sér.

Útlendingar dást til dæmis að þvi, hvernig íslensku handboltalandsliðsmennirnir sætta sig miklu lakari kjör en erlendir, við miðað við það hve miklu er dælt í erlenda atvinnumenn, sem gefa kost á sér í landslið sinna þjóða.

Á móti kemur, að íslenska liðið vinnur hug og hjörtu áhorfenda á stórmótum fyrir það hvernig það leikur með hjartanu og af hugsjón.

Það er mikils virði fyrir alla.  


mbl.is Fáránlega flottar fimleikastelpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi meira að marka loforð Pútíns en Hitlers.

Byrjum á þessu: Adolf Hitler var fádæma illmenni og fyrirætlanir hans um að útrýma heilum kynþætti 10,5 milljóna manna voru einstæðar í veraldarsögunni sem og fyrirætlanir hans um heimsveldi þar sem "Aríar" væru æðri öðrum og aðrar þjóðir undirokaðir þrælar "ofurmennanna.

Burtséð frá þessu voru kröfur Þjóðverja 1938 um að þýskumælandi fólk í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu við landamæri þess ríkis og Þýskalands að mörgu leyti hliðstæðar við kröfur Rússa um að rússneskumælandi Krímverjar fái að sameinast Rússlandi.

Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta veifaði samningsblaði þegar hann sté út úr flugvélinni sem kom með hann heim frá Munchen 1. október 1938 eftir hina illræmdu samninga sem hann og Daladier forsætisráðherra Frakka höfðu gert við Adolf Hitler um að Súdetahéruð Tékkóslóvakíu yrðu innlimuð í Þýskaland.

"Friður á okkar tímum," sagði Chamberlain. "Herra Hitler er sannur séntilmaður og hefur lofað að gera ekki frekari landakröfur"  sagði hann líka, enda bar flestum saman um það að á svona fundum væri Hitler afar kurteis og aðlaðandi maður.

Kröfur Þjóðverja voru sanngjarnar í augum margra, af því að þegar þjóðir og þjóðarbrot fengu sum hver að kjósa um framtíð sína eftir lok Heimsstyrjaldarinnar höfðu sigurvegararnir neitað þýskumælandi íbúum Súdetahéraðanna um slíkt vegna þess að þeir gátu ekki afborið það að Þjóðverjar græddu neitt á styrjöldinni sem þeim var kennt um að hafði byrjað.

Nú voru liðin tæp 20 ár og því hægt að slaka aðeins á í þágu friðar og lausn deilumála með samningum.

"Það er fráleitt að við förum að setja á okkur gasgrímur og fara í hernað vegna fólks í fjarlægu landi, sem við þekkjum ekki neitt" sagði Chamberlain.

Loforð Hitlers um engar frekari landakröfur reyndust ekki pappírsins virði því að hann þurrkaði Tékkóslóvakíu út af landakortinu með hervaldi aðeins fimm og hálfum mánuði síðar og hóf þá landakröfur á hendur Pólverjum, sem leiddu til nýrrar heimsstyrjaldar.

Vonandi verður meira að marka loforð Pútíns en Hitlers. En miklu veldur líka hvernig allir aðilar að spennunni í Úkraínu halda á sínum málum.  

   

 

  


mbl.is Hyggst ekki beita frekara hervaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband