"Forsetafrúin, - afsakið, forsetafáninn dreginn að húni.."

John Travolta er fráleitt sá fyrsti sem mismælir sig illa í beinni útsendingu. Í frásögnum fjölmiðla af heimsókn Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands og Dóru Þórhallsdóttur á Snæfellsnes fyrir 60 árum tókst þeim að gera tvær villur.

Sagt var frá móttökuathöfn og útvarpsþulurinn sagði: "Því næst var forsetafrúin, - afsakið, - forsetafáninn dregin að húni."

Og í frásögn eins dagblaðsins stóð: "Þá flutti Ingibjörg Guðmundsdóni ávarp."

Það var öllu verri villa, því að ekki var hægt að leiðrétta hana.

Ég geymi í huga mér nokkrar aðrar meinlegar villur af þessu tagi hjá mér sjálfum og fleirum þar til ég segi frá þeim ef Guð lofar í framhaldinu af byrjun ævisögunnar, sem ég segi í Gaflarleikhúsinu á sunnudagskvöldum.


mbl.is John Travolta biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunandi taktik stórveldanna eftir aðstæðum.

Það er útaf fyrir sig rétt hjá Hillary Clinton að uppgefin ástæða fyrir hernaðaríhlutun Rússa í austanverðri Úkraínu er keimlík réttlætingu Adolfs Hitles á hernaðaríhlutun hans í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu 1938.

Forystumenn Súdetaþjóðverja grátbáðu Hitler um að verja sig "gegn yfirgangi Tékka".

1979 bað þáverandi forsætisráðherra Afganistan Sovétríkin um hernaðaraðstoð vegna uppreisnar Muhjaheddin, fyrirrennara Talibína gegn hinni sósíalísku ríkisstjórn í Kabúl, sem naut velvilja og stuðnings Sovétmanna.

Ef mögulegt var reyndu ráðamenn Sovétríkjanna að finna leppa sína innanlands í þeim ríkjum, sem þeir réðust á, sem báðu þá um "vernd".

Uppreisnarmenn í Afganistan fengu stuðning frá Bandaríkjamönnum sem "góðu strákarnir", en 20 árum síðar urðu Talibanar að "vondu strákunum" fyrir það að ögra Bandaríkjamönnum í stað Rússa.

Og Bandaríkjamenn sjálfir hafa ekki verið barnanna bestir varðandi beitingu hervalds í fjarlægum löndum, þótt það hafi ekki verið réttlætt á sama hátt og Rússar gera núna.

Ráðist var inn í Írak 2003 á þeim forsendum að nauðsynlegt væri að uppræta "gereyðingarvopn Saddams Husseins sem ógnuðu nágrannaþjóðunum og heimsfriðnum."

Enginn fótur var fyrir þessum fullyrðingum George W. Bush og engin gereyðingarvopn fundust.

En olíuhagsmunir Bandaríkjanna voru tryggðir og í raun láta önnur stórveldi heimsins eins og Kínverjar sér það vel líka að Bandaríkjamenn standi straum að því að tryggja flæði olíu til hinna orkusjúku þjóða heims með því að halda uppi rándýrum her öflugasta herveldis heimsins.

Bandaríkjamenn hikuðu ekki við að gera innrás í Grenada og hikuðu heldur ekki við að veita þeim stuðning sem steyptu Salvador Allende í Chile og drápu hann.

Og glæpamaðurinn Pinochet var í náðinni hjá framherjum lýðræðis og frelsis í heiminum.

Listinn er langur.

Bandaríkjamenn stóðu að því að Mossadech var steypt af stóri í Íran eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og pólitík þeirra um allan heim fólst í því að styðja þá sem mökkuðu rétt gagnvart Bandaríkjunum, sama hve spilltir og grimmir margir þessara vina Kananna voru. 

Stórveldin nota ólíkar aðferðir til að skipta sér af innanríkismálum annarra ríkja og ævinlega þá taktík sem gefur skástu myndina af ofríkinu.

Og enda þótt hægt sé að finna líkingu við aðferðir Hitlers í hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu er eðli annarra hernaðarafskipta stórveldanna ævinlega hið sama, að neyta allra tiltækra ráða til að verja stórveldishagsmuni.     


mbl.is Líkti aðgerðum Pútíns við árásir Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf sterk bein til að þola góða daga.

Ofangreint máltæki má orða á ýmsa vegu. Eitt afbrigðið er að allt vald spilli og mikið vald gerspilli.

Sama meirihlutavaldið hefur verið við lýði í Garðabæ frá upphafi bæjarfélagsins og hvað varanleika snertir er langlífi þess Íslandsmet.

Langt fram eftir síðustu öld gilti svipað um meirihlutana í Reykjavík, á Ólafsfirði og í Neskaupstað, en síðan varð sú saga öll.

En Garðabæjarmeirihlutinn hefur átt einstakan feril og því yrðu það mikil tíðindi ef hann félli í kosningunum í vor.

Ein hættan, sem vofir yfir svo langvarandi völdum, er sú að jafnvel þótt valdhafarnir leggi sig fram um að fara vel með vald sitt myndist smám saman í áratuganna rás sú staða, að valdið fer að fá á sig guðlegan blæ, það er, að aftur og aftur komi í ljós að ekkert virðist geta haggað því að valdhafarnir fari sínu fram að geðþótta.

Þegar ég fór að kafa ofan í vinnubrögðin varðandi lagningu Álftanesvegar varð ég fyrir ákveðnu áfalli.

Mér, eins og öllum öðrum, hafði verið talin trú um að núverandi Álftanesvegur væri hættulegasti vegarkafli á höfuðborgarsvæðinu og að umferðin um hann væri meiri en vegurinn þyldi.

Greinilega hefur þetta haft áhrif á þá ákvörðun fjárveitingavaldsins að veita fé til gerðar nýs Álftanesvegar á sama tíma og ákveðið var að veita ekki krónu til neinna vegabóta í Reykjavík í næstu 10 ár.

Þegar farið var ofan í staðreyndir og tölur kom allt annað í ljós. Innan borgarmarka Reykjavíkur voru margir sambærilegir vegarkaflar með miklu hærri slysatíðni og margfalt meiri umferð en Álftanesvegur.

21 sambærilegur vegarkafli á höfuðborgarsvæðinu var með meiri slysatíðni á hverja ekna milljón kílómetra síðustu fimm ár, sem tölur liggja fyrir um, en Álftanesvegur, - og rúmlega 6000 bíla umferð á dag var langt fyrir neðan þau viðmiðunarmörk, sem sett eru um breikkun hliðstæðra vega, en þau hljóða upp á það að þegar umferðin fari yfir 15000 bíla þurfi að breikka viðkomandi veg upp í 2+1 veg.

Þegar hugsað er um það að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ skyldi komast upp með það að villa svona mikið um fyrir svona mörgum fer mann að gruna að slíkt gerist aðeins þegar menn eru orðnir því vanir um áratuga skeið að fá því framgengt sem þeir vilja.

Þeir töldu sig til dæmis greinilega geta ráðið því að vild hvort haldið yrði prófkjör innan meirihlutaflokkskins eða ekki og höfðu greinilega litlar áhyggjur af því hvaða aðferði yrði notuð til að raða á framboðslistann.

Nú virðist annað vera að koma í ljós.

Ég þekki svosem ekki til innviða bæjarstjórnmála og málefna og manna í hinum ýmsu framboðum í Garðabæ.

En aðeins það að í skoðankönnun skuli grónasti og langlífasti bæjarstjórnarmeirihluti í sögu Íslands vera fallinn segir manni að "there is something rotten in the city of Garðabær."

Að minnsta kosti bendir það til þess að máltækið að það þurfi sterk bein til að þola góða daga sé í fullu gildi, jafnt í Garðabæ sem annars staðar.

 


mbl.is „Meirihlutinn í Garðabæ fallinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband