Hliðstæður frá síðustu áratugum.

Það þarf ekki að fara öld aftur í tímann til að sjá hið gamalkunna dæmi um leiðtoga þjóða, sem bregðast þannig við innanlandsvanda að efna til átaka við önnur lönd til að þjappa þjóð sinni að baki sér. Nefna má tvö dæmi um þetta.

Þegar Argentínumenn réðust á Falklandseyjar vorið 1982 og tóku þær af Bretum, snerist argentínska þjóðin þannig á punktinum, að í stað óvinsælda Leopolds Galtieris og stjórnar hans innanlands, var hann hylltur af múg og margmenni á götum höfuðborgarinnar þegar hernám Falklandseyja hafði heppnast og sjálft breska ljónið niðurlægt.

Honum og Argentínumönnum tókst að afla sér ákveðinnar samúðar umheimsins, þegar fólk um allan heim leit á landakortið og sá, að Falklandseyjar voru skammt undan ströndum Argentínu næstum 10 þúsund kílómetra frá Bretlandi.

Galtieri hafði aðeins verið við völd í fjóra mánuði, þegar hann ákvað að efla vinsældir sínar með innrásinni í Falklandseyjar.

Hann taldi sig njóta mikillar velvildar Ronalds Reagans, sem hafði hælt honum á hvert reipi sem afburða hershöfðingja og útvarðar hins "frjálsa heims" í suðri.  

Í umfjöllun umheimsins um stríðið gleymdist í bili, að íbúar eyjanna voru breskir, töluðu ensku og vildu vera breskir þegnar áfram.

En eftir að Bretar höfðu farið í stríð við Argentínu snerist dæmið hratt við. Nú blasti við að Galtieri hafði misreiknað sig herfilega á margan hátt.

Margareth Thatcher naut nefnilega enn frekari hylli hjá Reagan en Galtieri, ef eitthvað var, og hún sá tækifæri til að stimpla sig inn sem sterkasti þjóðarleiðtogi Breta síðan Winston Churchill leið.  

Argentínski herinn átti enga möguleika til að standast breska hernum snúning þegar Thatcher fyrirskipaði honum að fara í stríð við Argentínu og taka 'Falklandseyjar af þeim.

Fyrir þetta reis "járnfrúin" Margareth Thatcer til mikilla vinsælda í Bretlandi fyrir staðfestu sína, enda var hún lagin við að vekja upp gamlar minningar um hina staðföstu stríðshetju og raunar þjóðhetju Winston Churchill, sem einnig hafði verið formaður Íhaldsflokksins.

Ekki var það síður sætt fyrir hana að góður árangur Breta í stríðinu minnti á forna frægð hins breska heimsveldis og hers Breta.  

Thatcher tókst að þjappa þjóðinni að baki sér með því að nýta sér það að vera fært upp í hendurnar gamalkunnri aðferð við að finna sameiginlegan utanaðkomandi óvin.

Galtieri varð hins vegar að gjalda grimmilega fyrir dýpkeyptar afleiðingar af misheppnuðu áhættuspili og hrökklaðist frá völdum eftir aðeins hálft ár í starfi.  

Georg W. Bush lék svipaðan leik í kjölfar árasarinnar á Bandaríkin 11. september 2001, og það fleytti honum áfram um hríð að geta þjappað bandarísku þjóðinni að baki sér í "styrjöldinni við hryðjuverkamenn. 

En  2008 var svo komið að stefna hans varðandi það að gefa gróðaöflum í þjóðfélaginu sem lausastan taum og minnka eftirlit með þeim sem mest leiddi til þess að flokkur hans tapaði forsetakosningunum það ár.

Enda ekki hægt fyrir flokkinn að finna lengur neinn utanaðkomandi óvin, sem hægt væri að efna til átaka við og þjappa þannig þjóðinni að baki sér.    


mbl.is Á baki þjóðrembudýrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jibbíi jei! Það er kominn tuttugasti og fyrsti júní!" ?

Enn blossar upp umræðan um að færa nokkra árlega frídaga til svo að þeir liggi við helgar og lengi þær á hagkvæman hátt, til dæmis með því að færast á mánudaga eða föstudaga. 

Það má svo sem vel athuga það að færa nokkra helgidaga í átt að vikulokum eða vikubyrjun. En dagar eins og 1. maí og 17. júní hljóta að hafa nokkra sérstöðu, því að þeir hlaupa ekki á milli mánaðardaga á milli ára eins og hinir dagarnir.

Einkum væri það skrýtið ef við, einir þjóða, tækjum upp á því að halda upp ekki upp á 1. maí 1. maí, heldur 2., 3., 4. eða 5. maí.  

Einu sinni sagði ræðumaður í ræðu þann dag: "Í dag er 1. maí haldinn hátíðlegur um allt land."

Þá kallaði einhver úr áheyrendahópnum:

"Nei, ekki á Hornafirði!"

En ræðumaður svaraði jafnharðan:

"Jú, líka á Hornafirði".

Ef Ísland skæri sig úr meðal þjóða og færði frídaginn til, gæti komið til þess að ræðumaður í einhverju nágrannalandi okkar 1. maí segði:

"Í dag er 1. maí haldinn hátíðlegur um allan heim".

En einn áheyrenda myndi leiðrétta hann og kalla:

"Nei, ekki á Íslandi!"

Og ræðumaður ætti þá ekki annars kost en að svara:

"Það er rétt hjá þér. Ekki á Íslandi!"

Ef þjóðhátíðardagurinn ætti líka að færast til myndi þurfa að endurskoða ýmislegt, til dæmis lagið um þann dag og syngja, eftir atvikum:

"Hæ, hó, jibbí jei og jibbíi jei!  Það er kominn 18. júní !"

Eða:

"...Það er kominn 19. júní !"

Eða:

"...Það er kominn 20. júní !"

Eða:

"Hæ, hó, jibbí jei og jibbíi jei! Það er kominn tuttugasti og fyrsti júní!"  


mbl.is Er fært að færa fríið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti kannski athuga möguleikann á "öfugum potti" ?

Mér hefur stundum dottið það í hug þegar lottótölur eru lesnar og enginn er með allar tölu réttar viku eftir viku, hvort hafa megi í gangi "öfugan" pott, jafnframt þessum venjulega.

Það yrði fólgið í því að sá eða þeir, sem eiga miða með lágmarki 5 röðum, eða segjum 10 röðum, og lendir í því að ekki ein einasta tala komi upp,sem kemur upp við útdráttinn, fá einhver smá verðlaun, kannski 500 þúsund eða eitthvað í þá áttina.

Þegar potturinn er kominn yfir 70 milljónir myndi ekki muna svon mikið um þetta en gleðja þátttakendur eitthvað að vita af þessum möguleika til að gera leikinn ögn fjölbreyttari.  


mbl.is Sjöfaldur lottópottur næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég hugsa, þess vegna er ég, - enn og aftur."

Gott er að hafa ofangreinda speki í huga þegar gert er lítið úr því sem ekki er hægt að vigta á vog eða þreifa á með berum höndum eða þegar skoðuð er útskriftarsýning nemenda í Listaháskólanum í Hafnarhúsinu.

Dæmin um það hvernig hugmyndaflugið getur skapað áþreifanleg verðmæti sem jafnvel eru mikilla fjármuna virði er sú staðreynd, að eftir að sagan "Mýrin" eftir Arnald Indriðason varð vinsæl og mikið lesin erlendis, fóru að flykkjast hingað til lands erlendir ferðamenn, sem vildu fá að ganga um söguslóðir bókarinnar í og við Norðurmýri.

Sögur af landvættum, álfum, tröllum og kynjaverum og persónur, atburðir og staðir í skálfsögum og þjóðsögum geta orðið svo lifandi og skapað svo mikil listaverk, að þau verða jafngild raunverulegum fyrirbærum.

Eitt stærsta útflutningsfyrirtæki landsins, CCP, snýst um tölvuleiki, ekki satt? Og útrás íslenskrar tónlistar verður seint mældur í tonnum.  

"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið, en engin orð verða til án hugsunar, þótt mönnum sýnist stundum annað hjá fljótfæru fólki, en meina þá að ekki hafi verið íhugað nægilega vel, hvað segja skyldi frekar en að engin hugsun hafi kveikt orðin.  


mbl.is Þjóðsagnaverur lifna við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband