Græna gangan og Vikivaki, - hríslandi gleði.

Vorsólin skín. Í útvarpinu hljómar Vikivaki Jóns Múla Árnasonar í flutningi Þóris Baldurssonar og Rúnars Georgssonar. Það hríslast um mann straumur gleði og hamingju og þakklæti til þessara snillinga að heyra þetta og njóta þess.

Rétt á undan laginu var flutt spá um gott veður á morgun, 1. maí, og aftur hríslast straumur um taugar, tilhlökkun og þakklæti fyrir að fá að taka þátt í jafn gefandi viðburði og Græna gangan getur orðið í krafti mun víðtækari samstöðu enn fleiri félaga en fyrr og auk þess samstarfs og samráðs við samtök launafólksins, sem Græna gangan fer í kjölfarið á.

Í fyrra fór gangan fram úr öllum vonum með alls um 5 þúsund þátttakendur. Slíkt gerist ekki nema með samstilltu átaki þar sem allir leggja sig fram.  

 


Hvað segðu menn um 700 fanga á Íslandi?

Enn dragnast Bandaríkin með fornaldar kerfi refsinga og ójafnaðar sem setur blett á hlutverk þeirra sem framvarðar í baráttu fyrir mannréttindum og frelsi í heiminum.

40 mínúta pyntingar til að murka líftóruna úr sakamanni í gær er ekki hægt að afsaka með mistökum við drápið, heldur er hugsunin röng á bak við það að hátt í milljón manna sé í fangelsum ríkisins, sem svarar 700 föngum í íslenskum fangelsum, og að þúsundir hafi verið drepnir síðustu áratugina.

Mér er enn í minni þegar maður byrjaði að lesa mannkynssöguna í grunnskóla og las um réttarfar og ástand dómsmála í fornöld, sem byggðist á reglunni "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" og fannst það grimmdarlegt og framandi.

Það hlýtur að vera eitthvað mikið bogið við það ástand að hvergi í lýðræðisríkjum skuli vera fleiri fangar miðað við mannfjölda en í Bandaríkjunum.

Og glæpatíðni og dráp með skotvopnum er margfalt hærri en í sambærilegum ríkum þannig að dauðarefsingar og fangelsanir hafa greinilega ekki þau fælingaráhrif sem ætlunin er að kalla fram.   

 


mbl.is Aftakan mistókst en fanginn lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum óhugnanleg tækni, sem eykur öryggi.

Það er næstum því óhugnanlega fullkomin tækni, sem manni er kynnt nú orðið þegar nýjar gerðir bíla koma á markaðinn. Einkum á þetta að sjálfsögðu við um dýrari bílana sem boðnir eru fyrir tíu milljóniir eða meira.

Meira og meira af þessir sjálfvirkni ratar sem staðalbúnaður í bílana, en síðan er listinn yfir aukabúnað, sem kaupa má, alltaf að lengjast.

Ég renndi við sem snöggvast hjá gömlum vini mínum, Benna í Bílabúð Benna, í fyrradag til að kíkja á nýjustu Porsche-bílana, og það sem átti að verða aðeins fimm mínútna stans, varð að samtals meira en klukkutíma pælingu, fyrst hjá Benna og síðan þegar komið var heim.

Það er skemmtileg mótsögn að ein helsta ástæða þess hvað Porsche hefur náð langt á þessu sviði er þá næstum óviðráðanlega verkefni sem verksmiðjurnar stóðu frammi fyrir þegar viðskiptavinir þeirra neituðu að hætta að kaupa hinn "úrelta" Porsche 911.

Sá bíll er með stóra sex strokka vél talsvert fyrir aftan afturhjól, og var þar að auki afar stuttur á milli fram- og afturhjóla og átti samkvæmt öllum eðlsfræðilegum lögmálum að vera óökuhæfur fyrir það hve hættulega eiginleika hann hefði.

Síðan þá hefur tæknin í kringum þennan bíl þróast svo ævintýralega að hið "ómögulega" hefur tekist, að gera aksturseiginleika hans öruggan. Það byggist á "óhugnalega lygilegum" atriðum ef svo má að orði komast.

Sjálfvirk viðbögð bílsins bókstaflega "hjálpa" bílstjóranum við að aka þessum bíl örugglega en þó hratt í gegnum beygjur og króka. Svo langt gengur þetta að bíllinn beitir sjálfur mismunandi hemlun á afturhjólin og meira að segja beygir lítillega með þeim til að hjálpa ökumanninum !  

Hinn nýi Macan er magnaður aldrifs sportbíll, talsvert lægri en Cayenne en jafn rosalega breiður og þvþi sennilega með enn betri aksturseiginleika, sem miðast meira við sport en akstur á ófullkomnum vegum og slóðum.

Hann er þó þannig byggður til endanna að hann komist meira en venjulegur fólksbíll án þess að reka sig niður, og hægter  að hækka bílinn upp á ferð um nokkra sentimetra, einmitt nógu marga til þess að komast megi um frumstæða malarvegi og vegaslóðir.    

Sjálfvirkni hefur rutt sér æ meira til rúms í flugi flugvéla á undanförnum áratugum, en þrátt fyrir ómetanlegan þátt hennar í að gera flugið öruggara og hagkvæmara, koma alltaf við og við upp atvik, sem sýna ákveðna galla, sem geta jafnvel valdið stórslysum.

Af þeim atvikum hafa hins vegar dregist lærdómar sem hafa á endanum reynst einna drýgstir í að auka öryggið enn meira.

Ein hættan er sú að menn verði of háðir sjálfvirkninni og minna viðbúnir því að þurfa sjálfir að bregðast við ýmsum uppákomum.

Önnur hættan er sú að hin tölvustýrða sjálfvirkni bregðist ekki rétt við aðstæðum eða komist að röngum niðurstöðum.

Þriðja hættan er sú samspil manns og tölvutækni leiði menn út í ógöngur.

Sem dæmi má nefna flugslys, þar sem óvæntar uppákomur urðu til þess að gera flugmenn ringlaða, vegna þess að hið tölvustýrða aðvörunarkerfi var orðið svo altækt og fullkomið, að ótal blikkandi aðvörunarljós og hávær aðvörunarhljóð urðu yfirþyrmandi mikil og flókin og komu þannig jafnvel í veg fyrir að flugmenn gætu áttað sig og gripið til rettra viðbragða.

Nú er hægt að fá flókna og margháttaða sjálfvirkni í akstri bíla, svo sem að bíllinn "skynji" sjálfur umhverfi sitt, allt frá næstu bílum til þess að "lesa" merkingar á vegum og grípi ævinlega til réttra aðgerða.

Manni verður hugsað til þess í því sambandi hve margar merkingar á vegum og bílastæðum eru orðnar máðar eftir veturinn og að það sé spurning hvort bíllinn geti lesið rétt úr þeim og brugðist rétt við.

Ég man þegar ég fyrst reynsluók BMW 5 í stuttum skrepp, og ætlaði að komast að því hvernig aksturseiginleikar hans væru í krókóttum malarvegi með miklum malarhryggjum.

Hlakkaði mikið til að láta kvikindið njóta sín, en í staðnn eyðilagði bíllinn sjálfur þessa tilraun með því að hemla svo rækilega og næstum drepa á sér í hvert skipti sem leið hann fór að skrika á mölinni, að tilaunaaksturinn varð að hægfara kvöl.

Ég vissi þá ekki að hægt væri að taka þessa sjálfvirkni úr sambandi og kom til baka hundsvekktur.

Það fylgir með útskýringum á henni að ökumaður eigi auðvelt með að taka ráðin af bílnum, en þá leynist enn ein hættan; - sem olli fyrrum og getur enn valdið flugslysum, að að ökumaðurinn/flugmaðurinn taki ekki eftir því að sjálstýringin hefur hætt að virka.  

 

 


mbl.is Hvað sjá sjálfkeyrandi bílar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband