Leikir - en brauðið vantar.

Rómversku keisararnir höfðu að leiðarljósi aðferðina "brauð og leikir" til að viðhalda stöðugleika og völdum.

Herferðir þeirra, svo sem til Egyptalands, voru farnar til að tryggja að nægilega mikið af korni væri til í Róm.

Colosseum og stórbrotnar sýningar þar voru til þess að lýðurinn gæti drepið tímann og gleymt sér við að horfa á spennu og trylling í blóðugum bardagasenum, sem jafngiltu knattspyrnleikjum og bíósýningum nútímans.

Knattspyrnan er dæmi um íþrótt sem virkar eins og segull á fólk af öllum stigum, allt frá götubörnum stórborga þriðja heimsins til ríkustu þjóðfélagshópanna í öflugustu ríkjum heims.

Hún er dæmigerð fyrir "leiki" rómversku keisaranna og sameinar oft ólíka þjóðfélagshópa í löndum, þar sem ríkir mikil óánægja með sárt misrétti, örbirgð og sult.

En rómversku keisararnir stóðu að því leyti framar ýmsum valdhöfum nútímans að hinum síðarnefndu hefur allt of oft mistekist að tryggja öllum þegnunum ígildi brauðsins hjá Rómverjum.

Og í nútíma þjóðfélagi er það fleira en fæða, sem telst nauðsyn fyrir alla. Heilbrigðisþjónusta, mannsæmandi húsnæði og lágmarks menntun eru líka hluti af því sem svo sárlega vantar í mörgum löndum eins og Brasilíu.

Þegar við bætist að í krafti auðlinda, stærðar og mannfjölda ætti Brasilía að geta staðið mun betur að vígi en raun ber vitni er skiljanlegt að ólga ríki í landinu, jafnvel þótt stærstu leikar ársins fari þar fram.  

Einmitt núna voru Hollendingar að komast yfir á móti Spánverjum og þá gleymist margt á meðan. En enginn svangur fátæklingur verður saddur af því.  


mbl.is Myndin sem segir allt sem segja þarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt enn óskýrt um vitneskju og hugarfar víkinga.

Eldgosið í Eldgjá 934 var stærsta eldgos á sögulegum tíma en ekki Skaftáreldarnir 1783. Þess vegna hefur mér lengi fundist einkennilegt að það skyldi ekki rata á síður sagnabókmennta okkar.

Og þegar eldarnir á Hellisheiði árið 1000 eða 999 eru skoðaðir er óvíst að þeirra hefði verið getið nema vegna þess að þeir voru uppi kristnitökuárið og komu því óbeint við sögu varðandi ummæli Snorra goða á Alþingi.

Ég er ekki viss um að landnámsmenn hafi ekkert vitað um eldgos. Margt af því sem var á seyði á þeim tíma í veröldinni hefur verið sýnt fram á að hafi átt uppruna allt austur til Indlands, þ. e. svonefnd minni, atriði í sögum sem ganga aftur og birtast að nýju í sögum síðari tíma.

Má þar nefna Njálsbrennu sem dæmi, en dæmin eru mun fleiri.

Ljóslega kemur fram í Landnámu og Íslendingasögunum að fornmenn voru uppteknir af sjálfum sér og sínum búksorgum en að mikilleikur landsins var algert aukaatriði.

Besta dæmið eru ummæli Gunnars á Hlíðarenda um fegurð Fljótshlíðar, sem hann útskýrir með lýsingu á  bleikum ökrum og slegnum túnum.

Og fylgdarmenn Ingólfs Arnarsonar eru látnir harma það að til lítils hafi verið riðið um blómleg héruð áður en hann settist að í Reykjavík. Allt metið á mælikvarða jarðargróða.  

Raunar má færa skýr rök að því að Ingólfur hafi ekki riðið um hin blómlegu héruð fyrr en eftir að hann hafði valið sér Reykjavík á fyrsta staðnum á ströndinni þar sem voru góð hafnarskilyrði og aðstæður allar sem  líkastar því sem er í Dalsfirði í Noregi.

Við flæðarmál í Reykjavík varpaði hann öndvegissúlum sínum, heimilisvættum, fyrir borð og lét þær reka upp í fjöruna þar sem haldin var landnámsathöfn til sátta við landvætti.

Hefur séra Þórir Stephensein fært að þessu góð rök. Vegna hafstrauma gat súlurnar alls ekki hafa rekið fyrir Reykjanes inn til Reykjavíkur.  

Kögunarhóll við Ingólfsfjall hefur líkast til heitið Inghóll í öndverðu og fjallið dregið nafn af því, Inghólsfjall, sem síðar breyttist í Ingólfsfjall. Hóllinn sá gerir fjallið ólíkt öllum öðrum á Suðurlandi.  

Hafi svipað fyrirbæri verið við Ingólfshöfða, sem sjór hefur síðan eytt, gæti hann hafa heitið Inghólshöfði í öndverðu.  


mbl.is Voru víkingar hræddir við eldgos?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

23 leikmenn á vellinum.

Japanski dómarinn, sem dæmdi opnunarleik HM, var mannlegur þegar hann lét bugast gagnvart einstæðri stemmingu á troðfullum heimavelli þjóðar, sem lítur á úrslitaleik HM 1950 sem þjóðarharmleik sinn.

En þótt viðbrögð hans væru mannleg voru þau ekki stórmannleg.

Vissulega var axlarsnerting leikmannana tveggja í vítateignum staðreynd, en þó ekkert umfram það sem eðlilegt má teljast, og alls ekki var um ólöglegt peysutog að ræða.

En leikaraskapurinn, sem menn fá að komast upp með, að láta sig detta hvenær sem þeim sýnist það geta haft áhrif á leikinn, er hvimleiður.

Fílhraustur og þrautþjálfaður afreksmaður hrynur ekki niður við litla og skammvinna snertingu.

Ef eitthvað var átti dómarinn frekar að gefa honum gult spjald en að verðlauna hann með vítaspyrnu á mótherjann.

Dómarinn reyndi að gera sitt besta og tókst það yfirleitt, en maður hafði það samt allan tímann á tilfinningunni að hann væri það sem kallað er heimadómari, 23. maðurinn á vellinum.

Það bjargaði leiknum að Oscar, besti maður leiksins, skoraði 3ja mark Brassanna, en það mark og fyrra mark Neymars voru dæmi um muninn á knattspyrnusnillingum og góðum knattspyrnumönnum.

Þegar lið hefur slíka menn innanborðs er erfitt að deila um leikslok.  


mbl.is Japanski dómarinn fær að heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband