Hávaði veldur lúmsku tjóni.

Mengun lofts og umhverfis af efnafræðilegum orsökum er ekki það eina sem steðjar að nútímafólki.

Hávaði virðist vera fíkn hjá mörgu fólki, sem veldur streitu, þreytu og andlegu álagi.

Gott dæmi um þetta er sú árátta á skemmtistöðum og veitingastöðum að demba yfir alla svo háværri tónlist að engin leið sé fyrir fólk að tala saman nema garga upp í eyrun hvert á öðru.

Aðeins nokkrir dagar eru síðan hávaði fór langt yfir mörk í heilu hverfi í nágrenni við tónleika í Laugardalnum.

Nú er nær ólíft á leikskóla vegna ærandi skarkala stórvirkra vinnuvéla alveg upp við skólalóðina.  

Á laugardagskvöld tók einhver í hverfinu, sem ég bý í, upp á því að fara að skjóta upp flugeldum og sprengja sprengjur í gríð og ergi eftir miðnætti.

Það vill þannig til að ég á góðar heyrnarhlífar og ég setti þær bara á mig svo að svefnsamt væri.

En aðrir hafa vart búið svo vel.

Stundum er hávaði svo mikill í bílum, sem ekið er um götur, að þungur slátturinn berst út úr bílnum, jafnvel þótt dyr og gluggar bílsins séu lokaðir.

Engu er líkara en margt nútímafólk sé jafn hrætt við þögnina og dauðann sjálfan.

Það verður jafnvel fyrir sjokki þegar það kemur út á land og getur ekki sofnað vegna hinnar ærandi þagnar, sem þar kann að vera.

Frummaðurinn var ekki skapaður til að lifa í stanslausum hávaða. Kannanir á mörgu sýna, að þegar við göngum gegn því umhverfi og lífi, sem okkur er áskapað að lifa og hrærast í í gegnum arf fyrri kynslóða, er það óhollt og til hins verra.

Margt bendir til þess að hávaðinn sé einn lúmskasti heilsuspillir andlega og líkamlega á okkur dögum.

Manneskja sem verður fyrir áfalli við að lenda í algerri þögn eða finnst hún ekki notið lífsins nema í sem mestum stanslausum hávaða e greinilega sködduð á sálinni og heilbrigð sál og hraustur líkami verða að fara saman.   

Á morgun stefni ég að því að fara í ferðalag til Egilsstaða til að lýsa háværri torfærukeppni þar. Þar verður auðvitað heilmikið stuð og hávær átök í brekkunum.

En jafnframt stefni ég að því í þessari sömu ferð að fara inn á Brúaröræfi og una um stund á Sauðárflugvelli þar sem þögnin og öræfakyrrðin eru alger, - upplifa það, sem ég hef reynt að túlka í þessum ljóðlínum lagsins "Flökkusál"

 

"...Inni´í þvargi borgarlífsins finn ég ekki frið, -

fer því upp til heiða þar sem þögnin gefur grið, -

sameinast þar náttúrunni og heyri hjartsláttinn

hreinsa sálina og lífsanda minn..." 


mbl.is Ærandi hávaði á leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ekki sprengja sig eins og Rússarnir gerðu.

HM í knattspyrnu er langhlaup með röð af sprettum. Eftir að Messi var búinn að gera sitt með því að skora tvö mörk í gær, var hann tekinn út af snemma í síðari hálfleiknum. Það var hárrétt ákvörðun.

Hann á enn eftir að spila fjóra leiki, þar sem hver einasti leikur er úrslitaviðureign að því leyti, að þátttöku liðsins er lokið ef það tapar.

Margt þarf að ganga upp til þess að leikmaður verði markahæstur á HM, ekki aðeins að hann sé í fullu formi allan tímann, heldur þurfa þessi tvö síðustu orð, "allan tímann" að gilda, þ.e. að liðið komist alla leið.

Hér um árið sendu Rússar sérlega skemmtilegt lið á stórmót, sem vann hvern sigurinn af fætur öðrum með meiri hraða á leikmönnum fram og aftur á vellinum en áður hafði sést.

Liðið sprengdi sig áður en það kæmist alla leið. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á mannslíkamann.

Þegar Messi tekur langa, hraða sprettinn í gegnum allan mótherjahópinn, eins og afi hans vill sjá, verður hann að vera í fullu snerpuformi en ekki þreyttur eftir langvarandi álag stórleikja.

Oft var sagt að Hemmi Gunn væri latur. En hann gerði það sama og Messi, að skora mörkin.

Baldvin Baldvinsson var hugsanlega fljótasti íslenski knattsyrpumaður "í skrefinu" sem við höfum átt.

Boltameðferðin var léleg og ekki hljóp hann mikið í hverjum leik, heldur valdi sér tækifæri til að geysast af stað, stundum með því að senda sjálfum sér boltann inn fyrir vörnina og skora.

Í leiknum fræga um úrslitin í Íslandsmeistaramótinu milli ÍA og KR þegar Ríkharður hryggbrotnaði, lá KR í vörn langtímunum saman, spilaði fast og þreytti og ergði Skagamenn og braut þá niður, en á meðan hafði Baldvin hægt um sig.

Síðan kom tækfærið, eins langsending fram, Baldvin hljóp Skagavörnina af sér og skoraði markið, þetta eina mark sem réði úrslitum þegar upp var staðið. Nokkrar sekúndur sem voru jafn dýrmætar og allar 90 mínúturnar sem spilað var.

Messi þarf að treysta á tvennt til þess að verða maður HM að þessu sinni: Að Argentína komist áfram sem allra lengst til þess að hann fái sem lengstan spilatíma til þess að skora, en samt ekki að keyra sig svo mikið áfram allan tímann að hann verði ekki í sínu alla besta og ferskasta formi þegar mest ríður á í lokin.   


mbl.is Afa Messi finnst hann latur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hröð þróun og margvísleg verkefni.

2010 fylgdist ég með Dana nokkrum, sem kom til landsins þegar Eyjafjallajökull gaus og tók myndir í gríð og erg með því að nota litla mannleysuþyrlu. Annar Dani flaug með mér og tók myndir með litlum myndatökuvélum sem hann festi á flugvélina og eru kallaðar go-pro.

Gæði myndanna voru ótrúlega mikil. Síðan hefur þróunin í þessum efnum verið ævintýraleg.

Ég kynntist henni enn betur þegar þýsk-franska sjónvarpsstöðin Arte gerði tvær heimildamyndir sumarið 2012 þar sem franskur flugmaður fór í tveggja stunda flugferð með mér frá Hvolsvelli og með Arngrími Jóhannssyni frá Akureyri og útkoman birtist í tveimur aðskildum hálftíma sjónvarpsþáttum.

Í þáttunum Ferðastiklum gegna go-pro vélarnar mikilvægu hlutverki, en þar eru þær settar inn og utan á bíla.  

Ljóst er að mikil fjölgun og fjölbreytni þessara flygilda mun kalla á miklar vangaveltur og þróun í reglum og umfangi notkunar þeirra, því að eins og hendir um öll mannanna verk mun ýmislegt geta komið upp á varðandi flug á mannleysum þessum.  


mbl.is Banna dróna í atvinnustarfsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband