Í fararbroddi, en skemmum það með þöggun.

Ástæða er til að fagna því að íslenskir vísindamenn eru í fararbroddi í heiminum varðandi nýtingu jarðvarmaorku og eru að uppskera í samræmi við það. Heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi 2020 er gleðilegt merki um það. 

En betur má ef duga skal. Yfir "íslenska jarðvarmasamfélaginu" og íslenskum ráðamönnum og þjóðinni hvílir skuggi þöggunar yfir þeirri staðreynd, að eins og er, felur nýting meginhluta íslenska jarðvarmans hvorki í sér endurnýjanlega né hreina orku, og því síður viðunandi nýtingarhlutfall.

Þetta eru þrjú meginatriði, og falleinkun blasir við í þeim öllum.  

Dæmi um þöggunina og blekkinguna er myndin, sem fylgir frétt um þetta á mbl.is og er af gufumekkinum við Hellisheiðarvirkjun. Verra dæmi var ekki hægt að velja. 

Skoðun atriðin þrjú varðandi nýtinguna, sem myndin sýnir:

1. Endurnýjanleg orka?  

Svar: Nei.  Orkan er þegar byrjuð að dvína enda var í forsendum virkjunarinnar ekki gert ráð fyrir meira en 50 ára endingartíma hennar. Það er langt frá því að standast lágmarkskröfur um sjálfbæra þróun. 

2. Hrein orka?

Svar: Nei. Hellisheiðarvirkjun er mest mengandi fyrirtæki landsins og allar fullyrðingar og loforð um að það vandamál væri fljótleyst og auðleyst hafa reynst blekkingar í meira en áratug.

3. Góð orkunýting?  

Svar: Fjarri því. Aðeins 10-15% orkunnar nýtist en 85-90% fara óbeisluð út í loftið.

Vegna þöggunarinnar og blekkinganna vanrækjum við að takast á við það að gera heildarúttekt á íslenskri jarðvarmaorku og skipuleggja nýtingu hennar þannig að hún standist kröfur um sjálfbæra þróun í svipuðum anda og Guðmundur Pálmason velti upp í byrjun og þeir Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson hafa síðar gert.   


mbl.is „Þetta verður mjög metnaðarfullt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komnir langt frá hugsjónunum fyrir öld.

Samvinnuhreyfingin var stofnuð fyrir meira en öld til að berjast gegn markaðsmisnotkun og einokun kaupamanna og forréttindum peningavaldsins. 

Hún stofnuð gegn misrétti og kúgun og til að efla lýðræði, jafnrétti og lýðréttindi í krafti lýðræðislegra samtaka fólksins sjálfs.

Stjórnmálaarmur þessarar alþýðuhreyfingar var Framsóknarflokkurinn.  

Því miður fóru fljótlega að myndast skörð í hugsjónirnar. Þegar í ljós kom að Framsóknarflokkurinn gat nýtt sér stórfellt misvægi atkvæða til að ná völdum langt umfram fylgi sitt, gerðist hann hatrammur verjandi þessa ólýðræðislega misvægis um áratuga skeið.

Samvinnuhreyfingin fór smám saman að breytast úr fjöldahreyfingu með opnu lýðræði í lokaðan og þröngsýnan auðhringsklúbb nýrrar valdastéttar innan hennar.

Frá fullveldinu fyrir 96 árum hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn setið í 40 ár saman í ríkisstjórn og á þeim árum varð til helmingaskiptafyrirkomulag, sem færði Samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn æ meira frá hinum upprunalegu hugsjónum.´

Hámarki náði þetta ástand í öllu stjórnkerfinu og efnahagskerfinu milli 1947 og 1956 og síðan upp úr aldamótunum 2000.  

Undanþágur mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og markaðsmisnotkun og siðlaus lögbrot á kostnað neytenda og almennings eru dæmi um það að spillingin lifir enn góðu lífi hjá þeim, sem eru komnir óravegu frá hugsjónum umbótafólksins fyrir einni öld.    

 

 


mbl.is Segir tjónið nema 200 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraunrennslið áfram, - góðar fréttir?

Hugsanlega eru það góðar fréttir að hraunrennslinu í Holuhrauni linni ekki. Þótt þetta rennsli tappi aðeins örfáum prósentum af öllum kvikuflutningunum, sem eru á Bárðarbungusvæðinu, holar "hraundropinn" steininn svo tekið sé líkingamál. 

Meðan enn er gliðnun með skjálftum yfir 5 stig og sig í öskju yfireldstöðvar Íslands, sem liggur beint ofan á öðrum af tveimur stærstu möttulstrókum heims, eru það góðar fréttir að tiltölulega saklaust hraungos sé í fullum gangi og lini á þrýstingnum.

Því að það hljóta að vera takmörk fyrir því hve lengi gos undir jöklinum ná aðeins að bræða sigkatla í jökulinn í stað þess að sprengja sig upp í gegnum hann með öskugosi.    


mbl.is Skjálfti upp á 5,2 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband