Skylduáhorf: Fuglarnir á Midway.

Orðin "lengi tekur sjórinn við" eru löngu úrelt og veruleikinn verður æ grimmari. Rusl og úrgangur magnast í hafinu með hverju árinu, risastórar plasteyjar myndast í Kyrrahafi og á fjörum Íslands og í hafinu við landið vex þessi óhroði jafnt og þétt.

Aðvörunarbjöllur ætti að hringja hátt og hvellt við það að fara inn á Youtube og sjá myndbönd af ástandi fuglalífsins á Midway í miðju Kyrrahafi. Ætti það að verða skylduáhorf fyrir alla.  

Það var vel til fundið og tímabært að veita Tómasi Knútssyni verðlaun Sigríðar í Brattholti á Degi íslenskrar náttúru í síðustu viku fyrir áralangt starf hans við að vekja fólk til umhugsunar um versnandi ástand í þessum efnum, sem kallar á vitundarvakningu og aðgerðir í stað sinnuleysis og ábyrgðarleysis þannig að við förum að líta öll í eigin barm.

Fyrsta skrefið væri að leggja sem mest af notkun einnota plastpoka og fá sér í staðinn vistvæna taupoka, sem hægt er að nota aftur og aftur.   


mbl.is Hvað verður um ruslið sem fer í hafið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg sérstaða hvarf.

Til að vörur seljist vel verða þær ekki aðeins að vera betri en vörur keppinautanna heldur er ekki síður nauðsynlegt að sérstaðan byggist á fleiri atriðum en verðinu og að þannig sé hægt að hörfa til traustra og stórra markhópa. 

Sænsku bílaverksmiðjurnar Volvo og Saab hösluðu sér völl á ólíkum forsendum og bættu hvor aðra upp að því leyti að skörun markhópanna var litiil.

Volvo höfðaði meira til yfirvegaðra kaupenda með því að bjóða vel smiðaða, vandaða og trausta en næsta venjulega bíla með vél frammi í og drif á afturhjólum, þar sem gæði og öryggi voru sett ofar nýjungum í hönnun og útliti.

Eina atriðið sem minnisstætt er að væri öðruvísi en venja var á þessum tíma, var gormafjöðrunin að aftan. Og Volvo bauð um 1960 uppá kraftmiklar vélar sem valkost til að þjóna þeim sem vildu meira afl og hraða.

Útlitið speglaði íhaldssemi og tregðu tll að stunda ævintýramennsku.  

Saab fór gerólíka leið þótt vöruvöndun og traust smíð væri líka í hávegum höfð. Saab 92 / 96 var framhjóladrifinn og með meira straumlínulagi og minni loftmótstöðu en aðrir smábílar á þeim tíma.

Útlitið var framúrstefnulegt en skapaði þó furðu mikið innanrými.

Svo vel var hönnunin heppnuð að hún entist að mestu óbreytt í 33 ár. Helstu breytingar voru fólgnar í því að skipta úr tvígengisvél yfir í fjörgengisvél. 

Akstureiginleikarnir voru mjög góðir og skópu sigurgöngu Saab í bílaíþróttum.

Arftakinn, Saab 99 / 9000, var einstaklega vel heppnaður bíll, með hagkvæma og fallega hönnun sem skóp mikið rými og þægindi miðað við stærð og þyngd. 

Bíllinn var með sérstæðan svip og auðþekkjanlegur. Þessi arftaki og afbrigði af honum entust í meira en tvo áratugi, allt fram á níuunda áratug síðustu aldar.  

Á þeim tíma hefði verið lífsnauðsynlegt fyrir Saab að bjóða upp á nýja kynslóð bíla sem hefði sömu sérstöðu og Saab bílar höfðu haft  fram að því.

En nú voru komin til sögunnar erfiðari skilyrði til nýsköpunar en áður höfðu verið. Framleiðendur neyttust til að einfalda framleiðsluna með því að smíða sameiginlega undirvagna, vélar og driflínur.

Saab hafði að vísu strax á sjöunda áratugnum leitað samvinnu við erlendar bílaverksmiðjur varðandi bílvélar, samvinnu við Ford í Þýskalandi með vélar í Saab 96 og í fyrstu var Saab 35 með vél frá Triumph.

En samvinnan 20 árum síðar við Fiat um sameiginlega undirvagna og meginlínur í yfirbyggingu í nýjum Saab, Fiat Chroma og Lancia Thema eyðilagði sérstöðu Saab.

Af þessum þremur bílum var Lancia Thema best heppnaður og allt í einu virtist Saab ekki lengur verið Saab.

Einhvern veginn heppnaðist samvinna Volvo við stórar erlendar bílaverksmiðjur betur en hjá Saab þegar kom að því verða óhjákvæmlega að beygja sig fyrir grimmum kröfum um samhæfingu og samvinnu í bílaframleiðslunni.

Nú var Volvo orðinn framhjóladrifinn eins og Saab og flestir aðrir bílar, þar með var sérstaða Saab að því leyti úr sögunni.

Og raunar blasir við að jafn fámennt land og Svíþjóð ber ekki tvær bílaverksmiðjur á okkar tímum, og raunar kraftaverk að ein bílaverksmiðja af nægilegri stærð þrífist þar.

Önnur hvor verksmiðjan að minnsta kosti, Volvo eða Saab, hlaut að lúta í gras, og hins sérstæða Saab fortíðarinnar er sárt saknað.  

Þetta er gömul saga og ný. Sem dæmi má nefna þegar AMC naut mikillar velgengni í kringum 1960 í Bandaríkjunum í krafti yfirburða stöðu á markaði fyrir minnstu amerísku bílana, þá gerði AMC þau mistök að ætla að sækja fram á öllum markaðnum, allt frá minnstu til stærstu bílanna.

Það dreifði kröftunum, risarnir þrír svöruðu á öllum vígstöðvum og sérstaða AMC var eyðilögð.  

 

 

Saab höfðaði  


mbl.is Saab segir upp þriðjungi starfsfólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílík bylting og ævintýri á einum mannsaldri !

Sumarið 1957 fórum við bræðurinir, Edvard og ég, til Öræfa til að heimsækja bróður okkar, Jón, sem var í sveit á Hofsnesi. 

Flogið var á DC-3 til Fagurhólsmýrar. Þar með var maður kominn í afskekktustu sveit landins þar sem engin af fjölmörgum ám í sveitinni hafði verið brúuð, aðeins lágu slóðar um sveitina og allt var svipað og hafði verið í þúsund ár.

Og þó. Nítíminn var að banka á dyrnar. Ungu bræðurnir á Hofsnesi höfðu fengið rússneskan blæjujeppa í hendur og fóru með okkur i ógleymanlega ferð vestur til Skaftafellls og austur í Kvísker. 

Sýna þurfti mikla lagni við að komast yfir allar árnar sem voru á leið okkar.

Nú liggur hringvegurinn um sveitina og lúxushótel rísa. Fram yfir 1974 var Freysnes aðeins örnefni forns eyðibýlis. 

Ég lenti FRÚnni þar 1972 á afar erfiðum óskráðum lendingarstað. Þar er nú flugvöllur með tveimur flugbrautum, flugrekstri, og í næsta nágrenni eru hótelbyggingarnar í Freysnesi og ferðamannamiðstóði Skaftafellsþjóðgarðar, sem nú er orðinn hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Hvílík bylting og ævintýri á einum mannsaldri !  


mbl.is Milljarðar í hágæðahótel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband