Eins og að fylgjast með vígstöðvum

Eftir þriggja vikna hlé gafst færi að nýju síðdegis að líta yfir eldstöðvar úr Holuhrauni.

Í umhleypingum að undanförnu hefur verið erfitt að finna færi á að komast í tæri við gosið úr lofti.  Þetta nýja hraun minnir á rauðan her sem sækir fram á allri víglínunni misjafnlega hratt þó. 

Þetta var stórbrotið svið að líta yfir í ljósakiptunum í kvöld.  Sólin var að setjast og sló ásamt móðunni stórbrotnum blæ á vígstöðvarnar sem blöstu við. 

Þótt hraunið hafi á tveimur stöðum komist yfir Gæsavatnaleið þar sem hún liggur yfir sandflæmið ætti að vera hægt að færa slóðina til undan hrauninu. 

Vonandi gefst færi á morgun að birta myndir af því sem blasti við í kvöld en á þeim ætti að sjást hvernig hraunið er að komast að ármótum Svartár og  Jölulsár á fjöllum.  Þar fer hraunið hins vegar afar hægt vegna þess hve það er orðið langt og finnur sér frekar framrás til hliðanna, einkum í norður. 

Að öðru leyti er tíðindalaust á austurvígstöðvunum. 


mbl.is 40 skjálftar við Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðarinnar.

Það ætti ekki að þurfa að vera eins og spáný frétt að Bárðarbunga sitji mitt á heita reitnum undir Íslandi. Það er og hefur verið höfuðatriði varðandi eðli hins eldvirka hluta Íslands að undir honum er annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar og að þessi yfireldstöð landsins, Bárðarbunga, situr beint ofan á miðju hans.

Í því felast afl og áhrif hennar í formi hraunstrauma, stórgosa og hamfaraflóða í fimm vatnasvið, áhrif og sköpunarverk sem ná frá suðurströndinni i Flóanum og á Skeiðarársandi yfir þvert landið norður í Öxarfjörð. 

Hinn eldvirki hluti Íslands er eitt af 40 helstu náttúruundrum veraldar. Bara á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum einnar er að finna lang magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims.

Hinn heimsfrægi eldfjallaþjóðgarður Yellowstone í Bandaríkjunum, elsti þjóðgarður heims, kemst ekki á blað sem eitt af helsu náttúruundrum veraldar og jafnoki hins eldvirka hluta Íslands. Samt er Yellowstone, mesta orkubúnt Bandaríkjanna varðandi jarðvarma og vatnsafl "heilög og ósnertanleg jörð" í hugum Bandaríkjamanna.

Hvenær ætlum við Íslendingar að láta okkur skiljast þetta?


mbl.is Undir er heitur reitur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekning á minknum og erlendu fjárpestunum?

Þrisvar sinnum á síðustu öldum bárust erlendir sjúkdómar í íslenskt sauðfé og ollu stórtjóni. Minkurinn var fluttur inn með þekktum afleiðingum. 

Í öll skiptin var fullyrt að engin hætta væri á ferðum. Engir sjúkdómar bærust hingað og engir minkar myndu sleppa út.

Undanfarin ár hefur ítrekað verið fullyrt að engin hætta sé á ferðum þótt eldi á erlendum laxi sé margfaldað á metttíma í fjörðum landins. Enginn lax muni sleppa út.

Í öllum fyrrnefndum tilfellum hefur tilvist lögmáls Murphys verið mönnum hulin eða "áunnin fáfræði" látin ríkja. Miðað við hina löngu áfallasögu virðist líklegt að þannig verði það áfram á Íslandi um aldir alda.   


mbl.is Norskur eldislax veiðist í Patreksfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, stóriðjan var hófsemi og skynsemi, "eitthvað annað" brjálæði.

Árum og áratugum saman var það talin skynsemi og hófsemi að reisa eins mörg álver á íslandi og unnt væri, selja orkuna á "lægsta verði í heimi" með "sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum" eins og það var auglýst af íslenskum stjórnvöldum í leynilegum betlibæklingi, sem sendur var helstu stóriðjufyrirtækjum heims. 

Talið var skynsamlegt og hófsemdarlegt að framleiða 20 sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf til eigin nota og virkja alla virkjanlega orku í þessu skyni og umturna eða eyðileggja öll helstu náttúruverðmæti í þessu skyni.

Þeir sem andæfðu þessu voru kallaðir "ofgamenn" sem væru "á móti atvinnuuppbyggingu, á móti rafmagni og vilja fara aftur inn í torfkofana."

Ekkert annað en stóriðja kæmi til greina "til að bjarga þjóðinni".  "Eitthvað annað" væri fánýtt og fjallagrasatínsla gjarnan nefnd sem dæmi.

Vilhjálmur í Möðrudal á Fjðllum var "talinn brjálaður" að láta sér detta "eitthvað annað" í hug.  

Fyrir kosningarnar 2007 reyndi Íslandshreyfingin að benda á aðeins eina staðreynd, sem styngi í augun:

Að jafnvel þótt sex risaálver yrðu reist og allri orku og náttúru landsins fórnað fyrif þau, myndu aðeins um 2% vinnuaflsins fá vinnu í álverunum og svonefnd "afleidd störf" yrðu aldrei fleiri en um 5% vinnuaflsins.

Eftir sem áður yrðu langt yfir 90% af vinnuaflinu "eitthvað annað." 

En þetta fór þá og fer enn inn um annað eyrað og út um hitt hjá ráðandi öflum í þjóðfélaginu. Að minnsta kosti hefur það verið "einróma" stefna núverandi ríkisstjórnar að reisa risaálver í Helguvík og fórna fyrir það helstu náttúruverðmætum landsins allt frá Reykjanestá austur í Skaftárhrepp og upp á hálendið.

Og enn eru þeir sem andæfa þessu taldir brjálaðir.  


mbl.is Vilhjálmur var talinn brjálaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband