Svona er boltinn: Tap í einum besta leiknum.

Það var allt annað að sjá til íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í leiknum gegn Tyrkjum í kvöld en var í leiknum gegn Lettum.

Tyrkir hafa leikið andstæðinga sína býsna grátt í síðustu leikjum, varist vel, spilað vel og skapað sér mörg færi og skorað mörk, en íslenska liðið lét þá ekki komast upp með neitt og sá við öllum tilraunum þeirra.

Síðan kom óverðskulduð aukaspyrna sem Tyrkir fengu í blálok leiksins og stórglæsilegt skot sem þó munaði hársbreidd að Ögmundur markvörður næði að slá út fyrir.

Markatala Íslands, 17:6, var sú langbesta í riðlinum. Aldrei fyrr höfum við getað verið eins stoltir af landsliðinu okkar.  


mbl.is Tyrkir með Íslendingum á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus meðvirkni varðandi skussana í landbúnaði.

Síðan Alþingi ákvað á Þingvallafundi sínum 1974 að gefin skyldi "þjóðargjöf" til landgræðslu og uppbyggingar gróðurlendis á Íslandi svo að bætt yrði fyrir rányrkju og illa meðferð landsmanna á því, hafa farið fram ellefu Alþingiskosningar á Íslandi.

Þjóðargjöfin varð skammlíf og hafði étist upp á örfáum árum um 1980. Alla tíð síðan hefur verið haldið áfram að beita fé á ýmsa óbeitarhæfa afrétti.

Enn má sjá, meira en aldarfjórðungi eftir að sýndar voru myndir af hroðalega ofbitnum bújörðum, að sama ofbeitin og rányrkjan er við líði og ekkert hefur breyst.

Þegar komið var böndum á rányrkju á fiskistofnum með því að setja lög sem fólu í sér bæði hart eftirlit og heimildir til viðurlaga og framkvæmdar þeirra, var þvi alveg sleppt að Landgræðslan fengi heimildir til hliðstæðra aðgerða á landi.

Nú hefur komið fram að mikill meirihluti svínabænda fer ekki eftir lögum varðandi aðbúnað dýranna. En í stað þess að taka til hendi flytur landbúnaðarráðherra lofræðu um þessa bændur og er ekki hrifinn af því sjálfsagða framtaki Matvælastofnunar á upplýsingaöld að lofa vinnuveitendum sínum, þjóðinni, að sjá myndir af illum aðbúnaði dýranna.

Síðan Þjóðargjöfin var gefin 1974 hafa farið fram ellefu Alþingiskosningar án þess að neitt hafi gerst varðandi það að setja lög um það að hægt sé að beita viðurlögum varðandi rányrkju á landi og illa meðferð gróðurlendis.

Það bendir til þess að Jónas Kristjánsson hafi nokkuð til síns máls, að þjóðin sjálf beri ábyrgð á þessu eftir að hafa ellefu sinnum átt kost á því að kjósa Alþingi sem gripi til aðgerða en hafi í ekkert skiptið kosið aðra þingmenn en þá sem sýna endalausa meðvirkni hvað varðar það sem aflaga fer í landbúnaðinum.

Er það ekki bara slæmt hvað varðar það að skussarnir fái endalaust að halda áfram framferði sínu, heldur ekki síður gagnvart þeim mikla meirihluta bænda sem sýna ábyrgð og stunda sinn búskap með sóma.  

 

 


mbl.is „Birtum lista yfir skussana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Létu ekki lífið til einskis?

Það er oft erfitt að sætta sig við fráfall fólks og spurningar vakna þá um það hvort dauði þess hafi verið svartnættið eitt.

Viðbrögð fjölskyldna tveggja ungra manna, sem tóku aðdraganda dauða síns upp á myndband sýna þó, að einhverja glætu finna þær í því hvernig fór.

Þær hugsa sem svo að þrátt fyrir allt sé hugsanlegt að þeir hafi ekki að öllu leyti farist til einskis, heldur geti dauði þeirra orðið til þess að bjarga lífi einhverra síðar meir vegna þess lærdóms, sem af honum megi draga.

Þegar farið er yfir sögu slysa á ýmsum sviðum má glögglega sjá, að vegna þess að menn drógu gagnlega lærdóma af rannsókn á orsökum þeirra, hafa umbætur í kjölfar slysanna bjargað margfalt fleiri mannslífum en slysin kröfðust.

Þótt mörg slysi virðist þess eðlis, að erfitt sé að sætta sig við þau, liggur til dæmis fyrir að stórkostlegar framfarir í öryggismálum nútíma farþegaflugs er mest hægt að þakka því hve miklum fjármunum og fyrirhöfn var eytt í að kryfja orsakir flugslysa til mergjar.

Að því leyti má segja, að allt það fólk, sem fórst í þessum slysum, hafi ekki látið lífið til einskis.

Fyrsta barnabarn mitt, Ari Óskarsson, fæddist með klofinn hrygg og lifði aðeins í þrjá daga. 

En fæðing hans og dauði mörkuðu þáttaskil í erfðafræðirannsóknum, því að við það að hann kom í heiminn blasti það við, að bæklun hans var arfgeng, þótt það hefði ekki verið svona augljóst fram að því.

Í kjölfar dauða hans var hafin í Bretlandi gagnger rannsókn á þeim erfðaþáttum, sem valda klofnum hrygg, og nokkrum árum síðar var nánustu aðstandendum Ara heitins boðið að vera viðstaddir athöfn sem Sara Ferguson leiddi vegna upphafs starfrækslu sérstakrar erfðafræðirannsóknarstofnunar í Bretlandi sem reist hafði verið.

Síðar kom Kári Stefánsson frá Bandaríkjunum of stofnaði Íslenska erfðagreiningu með glæsibrag sem markaði margfalt stærri þáttaskil á þessu sviði.

Það er því huggun harmi gegn að Ari Óskarsson fæddist ekki og dó til einskis.


mbl.is Banaslysið séð úr síma farþegans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband