Þegar trúarbrögð snúast upp í andhverfu sína.

Glöggir menn spáðu því fyrir síðustu aldamót að 21. öldin yrði öld aukinnar hörku í samskiptum trúarhópa og trúarbragða og að ákafir fylgjendur þeirra myndu verða meðal þeirra sem standa myndu að mestum ófriði og illindum á öldinni.

Flestum held ég að hafi þótt ólíklegt að þetta færi svona, því að það yrði afturhvarf til þeirra alda mannkynssögunnar þar sem böl trúarbragðastyrjalda varð mest.

Enda auðvelt að benda á meginatriði flestra helstu trúarbragða heims varðandi kærleika, friðsemd, frelsi, fögnuð, farsæld og umburðarlyndi. Í kristninni er Fjallræða Krists gott dæmi um þetta.  

En þvi miður er það svo að inni í trúarsetningum flestra trúarbragða má finna einstakar setningar og orð sem stangast á við nútíma hugsun um mannréttindi, frelsi og frið.

Á tímum rannsóknarréttar, galdrabrenna og ofstækis fyrr á tíð, voru kristnir menn komnir ansi langt frá kenningum Krists, en síðan þá hefur þetta snúist til betri vegar.

Hins vegar finnast enn bæði sértrúarsöfnuðir og einstakir áhrifamenn í röðum kristinna sem boða mjög heiftúgar kenningar, sem þeir byggja á ofstopafullum skilningi sínum á einstökum setningum úr Biblíunni.

Í stað þess að háleitt takmark sé fólgið í boðun Krists, "farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum", virðast sumir geta lagt þann skilning í þessi orð, að þau feli í sér afdráttarlega skipun um að beita ofbeldi í þessum efnum ef annað dugar ekki.

Trúarsetningin úr Kóraninum um "heilagt stríð", Jíhad, byggist á svipuðum skilningi varðandi það að hvaða tegund ofbeldis og manndrápa sé Allah þóknanlegt, ef því er beitt við útbreiðslu múslimskrar trúar eða í vörn fyrir stöðu hennar.

Og því miður er fylgi við þessa ofbeldisfullu túlkun enn alltof algeng eins og Íslamska ríkið í Miðausturlöndum ber glöggt vitni um.

Yfirgnæfandi meirihluti iðkenda og játenda trúarbragða er friðsamt og góðgjarnt fólk, en það er því miður þögull meirihluti.

Þetta er dapurlegt, því að ef vaxandi ófriður og ofbeldi hljótast af ofbeldisfullri túlkun trúarbragða, hafa þau snúist upp í andhverfu sína.   


mbl.is Vildi hætta í trúarsöfnuðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðar breytingar, meðal annars vegna léttingar jökulsins?

Um síðustu aldamót spáðu íslenskir jarðfræðingar því að eldvirkni myndi aukast mjög undir Vatnajökli og nágrenni hans ef hann léttist hratt vegna hlýnunar loftslags.

Þeir byggja þessar spár meðal annars á því, að áætlað er að þegar stóri ísaldarjökullinn hvarf að mestu fyrir 11 þúsund árum, varð eldvirkni á svæðinu norðan jökulsins 30 sinnum meiri en vitað er um að hún hafi verið á undan og eftir.  Súkka á Bárðarbungu

Spáin hefur gengið eftir. Eldgos hafa orðið undir jöklinum eða við jaðar hans árin 1996, 1998, 2004, 2011 og 2014, alls fimm á 19 árum.

Auk þess virðist virkni vera að aukast í Skaftárkötlum og annar þeirra að stækka.

Ég man hvað Skaftárhlaupið 1970 þótti fréttnæmt og flaug Rúnar Gunnarsson, kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins sérstaklega austur til að taka myndir af því úr lofti og af jörðu.

Síðan hafa hlaupin komið jafnt og þétt. Hlaupið 1995 var sérlega stórt og hlaupið nú næstum tvöfalt stærra.

Engin leið er að segja til um það hvort breytingarnar við Eystri Skaftárketil eru í samræmi við spár jarðfræðinga um aukna eldvirkni.

Ekki hefur orðið eldgos í kötlunum, sem fært hefur verið til bókar, en hver veit nema að þarna sé konin undir litla systir Grímsvatna.

En meðgöngutíminn fyrir fæðingu eldfjalls gæti orðið allt frá nokkrum árum upp í hundruð þúsunda ára.

Myndin að ofan er tekin í árlegum vorleiðangri Jöklarannsóknarfélagsins á Bárðarbungu 2009, en í hverjum leiðangri er hugað að Skaftárkötlum sem liggja á milli höfuðeldstöðvanna Grímsvatna og Bárðarbungu.

Horft er til norðvesturs yfir Vonarskarð í átt til Tungnafellsjökuls.   


mbl.is Ketillinn hefur stækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikur að tölum.

Grænlandsjökull er í kringum 200 sinnum stærri að flatarmáli en Vatnajökull. Eftir að hafa farið þvert yfir Grænlandsjökul 1999 gerði ég það að gamni mínu að kalla Vatnajökul "skaflinn".

Að bera saman Vatnajökul og Grænlandsjökul er álíka og að bera saman Vatnajökul og Eyjafjallajökul.

Það breytir því ekki að vegna einstæðs samspils elds og íss er Vatnajökull að mínum dómi miklu merkilegri en Grænlandsjökull.

Og Vatnajökull er nógu stór til þess að búa til eigið veðurkerfi, bæði yfir sjálfum sér og í kringum sig.

Og það er út af fyrir sig sláandi um þær stærðir, sem gilda um Grænlandsjökul og þróun hans, að yfirfæra þær á jafn stórt og merkilegt jökulhvel og Vatnajökull er, einkum vegna þess að við Íslendingar þekkjum okkar stóra jökul nokkuð vel.

En það getur verið villandi að segja "ef Vatnajökull bráðnaði jafn hratt" og Grænlandsjökull.

Stærðarmunurinn er svo gríðarlegur að réttara væri að nota hlutfallstölur og gæta verður varúðar að veifa beinum magntölum.

Tregðan, sem ríkir varðandi mörg hundruð metra þykkan ís, er svo mikil, að vitanlega væri óhugsandi að Vatnajökull gæti horfið á tíu árum.


mbl.is Vatnajökull hyrfi á tíu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband