Svipað hjá BHM núna og 1990 ?

Heildarsamkomulag á vinnumarkaði núna er af svipuðum toga og Þjóðarsáttin 1990 og ætlað að hafa sömu áhrif; að stöðva svokallað "höfrungahlaup" í launakröfum og koma í veg fyrir víxlhækkanir launa og verðlags sem valdi óviðráðanlegri verðbólgu og gengislækkun krónunnar.

Bæði nú og 1990 er svo að sjá að starfsmenn háskólamenntaðs launafólks hafi sérstöðu að því leyti að una illa stöðu sinni.

Ekki man ég hvað það var 1990 sem olli því að það munaði hársbreidd að Þjóðarsáttin færi í vaskinn vegna ágreinings við BHMR, eins og samtökin hétu þá.

Núna eru það lífeyrisréttindin, sem valda því að BHM og KÍ skrifa ekki undir, en BHM er ekki sátt við það hvernig tengingu þeirra við önnur atriði er háttað.

Vonandi verður hægt að leysa þessi ágreiningsmál þannig að á endanum náist svipaður árangur og 1990.  


mbl.is Markar vatnaskil á vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál sem hægt er að leysa.

Vel er hægt að leysa það mál sem risið hefur vegna bygginga á Hlíðarendasvæðinu ef vilji er til þess.

Stærsta og hæsta íbúðablokkin þarf ekki endilega að vera klesst niður þar sem hún trufli sem allra mest aðflug að braut 06-24.

Ég hef heyrt að innan Valsmanna sjálfra sé því ekki hafnað alfarið að lækka þessa byggingu, færa hana til, eða skipta henni þannig að lægri bygging standi þar sem byrjað er að grafa, en á móti verði reist önnur bygging annars staðar á reitnum, nógu stór til að byggingarmagnið verði hið sama.

Samkvæmt því er ekki rétt að vonlaust sé að Valsmenn vilji leysa málið, heldur strandar málið einungis á borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík.


mbl.is Fyrstu íbúarnir gætu komið 2017
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú eða aldrei?

80 ára reynsla af launadeilum, verkföllum, dýrtíð, gengisfellingum og verðbólgu sýnir, að aðeins einu sinni á þessum langa tíma tókst að vinna eitthvert mesta stjórnmálaafrek Íslandssögunnar með Þjóðarsáttinni 1990.

Hún sló á víxlhækkanir kaupgjalda og verðlags og verðbólguna að mestu næstu tólf á, en upp úr aldamótum 2000 fór smám saman af stað sú svikamylla uppblásinnar þenslu sem leiddi til efnahagshruns 2008.

Á sama árabili höfðu nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum þokast inn í ástand samráðs og samheldni á vinnumarkaðnum sem þar hefur ríkt síðan og ríkir enn og er alger andstæða þess gamalkunna óróa og upplausnar sem íslenski vinnumarkaðurinn er nú í.

Salek-hópurinn er vonarljós sem ekki má slokkna.

Undanfarin misseri hefur verið að myndast sefjun á ýmsum stöðum í þjóðfélaginu í anda þeirrar sefjunar sem ríkti á árunum 2002 til 2008.

Aðvörunarljós blikka, meðal annars þess efnis að við séum að sigla inn í svipað ástand og ríkti á langvarandi verðbólgutímum þar sem krónan varð smám saman að örmynt í öllum skilningi.

Ef ekki næst fram svipað hugarfar og svipaðar aðgerðir og í Þjóðarsáttinni 1990 getur hvað sem er gerst í atburðarás sem gæti fært okkur annað efnahagshrun.

Það má ekki verða.

Það er nú eða aldrei.


mbl.is Salek fundar á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meginatriðin hljóta að gilda.

Kristindómurinn tekur nafn sitt af Jesú Kristi, sem boðaði jafnrétti, að allir séu Guðs börn.Elliðavogur. Tunglið

Hann boðaði umburðarlyndi og náungakærleika, talaði gegn dómhörku og bjargaði bersyndugu konunni frá því að verða grýtt.

Boðun hans var friðarboðskapur, "sælir eru friðflytjendur", og hann boðaði leit að sannleikanum, "sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu."  

Kristur boðaði ekki að konur ættu ekki að hafa málfrelsi á samkomum, heldur kom það síðar til.

Kristur var Gyðingur en Gyðingar áttu og eiga enn sem trúarrit þann hluta Biblíunnar, sem kristnir menn nefna Gamla testamentið.Elliðaogur, brú, tunglið

En hann var uppreisnarmaður hvað snerti skilning á ýmsu því, sem finna mátti í Gamla testamentinu og rímaði ekki við meginhugsun boðunar hans.

Og hann gagnrýndi harðlega elítu landsins í trúarefnum, faríseana og fræðimennina.

Mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar eiga sér rót að stórum hluta í boðun Krists og meginatriði þeirra eru ekki aðeins landslög, heldur einnig meginatriði Kristinnar trúar.

Þegar þannig háttar til ber því prestum landsins ekki aðeins að fara að landslögum, heldur einnig að hafa í huga meginatriði boðunar Krists um kærleika, jafnrétti, umburðarlyndi og skilningsríka hugsun.

Fegurð er ágætt lýsingarorð um kristna kærleiksboðun og því eru tvær myndir, sem ég tók á leið yfir Elliðavog í kvöld á rafhjólinu Náttfara, til yndisauka, en á annarri þeirra er eins og að tunglið hangi á einum vírnum í annarri hjólabrúnni yfir Geirsnefið.     


mbl.is Prestar vilja afnema samviskufrelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband