Margföld tíðni byssuglæpa bara eðlilegur "gangur lífsins."

Sú staðreynd blasir við að í Bandaríkjunum er margfalt meiri tíðni byssuglæpa og margfalt fleiri í fangelsum miðað við fólksfjölda en í sambærilegum löndum.

Kanar, sem verja þetta, telja að þetta sé "eðlilegur gangur lífsins" og benda á að landið sé landnemaríki, "frontier coyntry."

En það eru Ástralía og Kanada líka, og glæpatíðnin miklu minni en í Guðs eigin landi.

Annar munur er á þessum ríkjum og Bandaríkjunum,  en það er byssueignin, sem er langmest í Bandaríkjunum.

Auk þess sést á nýjasta byssumorðingjanum að menn geta eignast heilu vopnabúrin eins og ekkert sé. Gaurinn átti þrettán byssur og allar löglegar.

Það er bara "gangur lífsins" þar vestra segja Donald Trump og skoðabræður hans, og þetta er réttlætt með því að hver maður eigi rétt á að vopnbúast til að verja sig.

En hvernig getur einn maður skotið af þrettán byssum í einu?  Er það eðlilegur gangur lífsins ? 

Donald Trump fær enn gríðarlegan stuðning fjölda manna við sín villtu viðhorf. Meðal þeirra, sem dýrka hann, eru sumir kunningjar mínir og vinir sem eru eins vel menntaðir og vel að sér um erlend málefni og hugsast getur.

Það er umhugsunarefni.


mbl.is Byssulöggjöf skiptir ekki máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur varðandi úrskurð Hæstaréttar.

Hæstiréttur hefur komist að þeirri umdeilanlegu niðurstöðu að miðað við stöðu mál hælisleitenda gagnvart innanríkisráðuneytinu og það, sem ráðuneytið hefur fram að þessu gert í máli eigi þeir ekki sjálfkrafa kröfu á því að vera áfram hér á landi.

Sumir telja að með þessu verði innanríkisráðherra óheimilt að leyfa þessu fólki að fá hér landvist og að þar með beri að vísa því úr landi.

Sé svo gildir það sem blátt bann réttarins við því að ráðuneytið vinni endanlega úr málum þessa fólks og hugsanlega margra annarra sem svipað er ástatt um.

Samkvæmt því mátti alls ekki veita Bobby Fisher landsvistarleyfi hér á sínum tíma.

En það er ekki rétt. Samkvæmt landslögum hefur innanríkisráðuneytið áfram vald til að meta stöðu einstakra hælisleitenda og vinna úr umsóknum þeirra, að svo miklu leyti sem það stenst lög og reglur þar um.  


mbl.is Vilja fund með innanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eilífur höfuðverkur.

Það er og verður eilífur höfuðverkur að gefa einkunnir á ýmsum sviðum. Ekki einasta eru deilur um kröfur og viðvið, sem koma fram þegar verið er að breyta um kerfi, heldur er það líka einkunnastiginn sjálfur sem verður álitamál.

Sem dæmi má nefna þegar verið er að gefa stjörnur fyrir gæði bæði andlegra og efnilegra atriða.

Sums staðar gefa menn fimm stjörnur sem hámark, annars staðar fjórar og á einstaka sviði sex.

Síðan kemur í ljós hjá sumum, sem eru til dæmis í fimm stjörnu kerfinu, að þeir fara að gefa hálfar stjörnur, til dæmis tvær og hálfa, þrjár og hálfa eða fjórar og hálfa, til þess að gera einkunnagjöfina nákvæmari.

En þar með hafa þeir í raun farið í tugakerfi í einkunnagjöfinni, vegna þess að hann er í raun með tíu þrep.

Svipað vill henda þegar gefið er í bókstafakerfi.

Það er eðlilegt að sumir sjái eftir hundrað þrepa kerfinu, þ.e. frá 0,0 upp í 10,0.

Það býður upp á mun meiri nákvæmni en önnur kerfi en niðurstððurnar er líka fyrir bragðið auðvelt að gagnrýna, af því að í raun getur svona nákvæmt kerfi verið illframkvæmanlegt af því að það er oft illmögulegt að komast að jafn smásmugulegri niðurstöðu og til dæmis hvort gefa eigi 8,9 eða 9,0.

En í skalanum ágætiseinkunn-2.einkunn- 3ja einkunn - falleinkun er í raun verið að gefa A, B, C D eða í kerfi með fjórum stjörnum.      


mbl.is Hvaða þýða bókstafseinkunnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom hennar tími þá eftir allt að öllu leyti?

"Minn tími mun koma!" voru fleyg orð Jóhönnu Sigurðardóttur eftir ósigur fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni í Alþýðuflokknum sáluga árið 1994.

Eftir að Jóhanna varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 þóttu þessi orð hafa ræst, en sumir töldu þó ekki að það væri að fullu, því að spurningin væri hvernig henni myndi farast þessi vegtylla úr hendi eins svakaleg og viðfangsefnin voru í kjölfar Hrunsins.

Þau voru raunar þess eðlis að útilokað var að komast í gegnum allt sem gera þurfti án þess að gera mistök og berja í gegn óvinsælar aðgerðir.

Hvort tveggja hlaut að auka líkurnar á því að forsætisráðherratíð Jóhönnu yrði ekki talin hafa verið henni til vegsemdar.

Ekki hefur áður farið fram skoðankönnun um þetta og það lá jafnvel í loftinu að hlutur Jóhönnu yrði rýr, til dæmis vegna þess að ekki tókst að klára nokkur stærstu málin sem hún hafði lagt áherslu á að ljúka fyrir lok kjörtímabils stjórnar hennar.

Beindist gagnrýnin meðal annars að því að hún hefði sett markið of hátt með því að ætla sér að koma svona mörgu stóru í gegn.

Nú er rykið að byrja að setjast og í ljós kemur, að störf hennar njóta meira álits en margur hefði ætlað.

Íslendingar komust þrátt fyrir allt skár í gegnum Hrunið en flestar aðrar þjóðir með sambærileg viðfangsefni og hagvöxtur var hafinn ári áður en stjórnin fór frá.

P.S. Tímabilið, sem þessir sex forsætisráðherrar voru í embætti, spannar nú 27 ár. Af þeim árum var Davíð við völd í tæpan helming þessara ára. Ég held nú reyndar að hann hafi verið afar öflugur fyrstu sex árin, og ef hann hefði hætt 1999, eftir átta ár eins og Bandaríkjaforsetar, hefði útkoman orðið önnur og margfalt betri fyrir hann þegar litið er á heildina. .


mbl.is Telja Jóhönnu hafa staðið sig best
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband