Klárað það sem eldinum tókst ekki 1947.

Amtmannsstígsbruninn 1947 er mér enn í fersku minni, en þá mátti ekki miklu muna að hús KFUM og K yrði eldinum að bráð.

Urðu menn því fegnir að þetta merka hús skyldi fá að halda áfram að fóstra einhvert merkasta og mikilvægasta menningarstarf síðustu alda hér á landi.

Ég er í hópi þeirra tugþúsunda sem eignuðust góðar og jafnvel magnaðar minningar úr þessu húsi, bæði frá KFUM-fundunum á æskuárunum og menntaskólaárunum, því að rúmum áratug eftir brunann mikla flutti M.R. hluta af kennslu sinni yfir í húsið og hefur þetta góða hús þjónað menntagyðjunni síðan og fengið heitið Casa Christi.

Vonandi hefur það verið íhugað vel áður en lagt var í það að ljúka því sem eldinum tókst ekki 1947, að það sé ómögulrgt að nota húsið í þágu menntagyðjunnar.


mbl.is „Afar ánægjulegur áfangi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að vanda vel reglur um höfuðhögg.

130 ára saga nútíma hnefaleika hefur gefið gnægð tíma til rannsókna á afleiðingum þeirra meiðsla sem íþróttin hefur í för með sér.

Þar er stór munur á atvinnumanna hnefaleikum, sem eru ekki leyfðir hér á landi, og ólympískum hnefaleikum, sem eru leyfðir á þeim forsendum að neikvæð líkamleg áhrif séu ekki meiri en í flestum öðrum íþróttagreinum.

Til dæmis er uppi umræða um það að banna börnum innan ákveðins aldurs að skalla í knattspyrnu.

Það fer mikið eftir persónulegum líkamseiginleikum og heppni eða óheppni hve vel eða illa atvinnuhnefalekarar fara út úr iðkun sinni.

Margir af bestu hnefaleikurunum hafa náð hárri elli við góða líkamlega og andlega heilsu eins og til dæmis Max Schmeling, sem var oft barinn illa á löngum ferli sem stóð fram að fimmtugu. 

Hann varð 99 ára gamall þrátt fyrir öll höfuðhöggin.

Öðru máli gegndi um Floyd Patterson sem á efri árum glímdi við heilabilun sem mátti rekja til of margra og óheppilegra hðfuðhögga á löngum og sviptingasömum ferli.

Þegar sagt er "óheppilegra" högga er einkum átt við þau dómaramistök að stöðva ekki fyrsta bardaga hans við Ingemar Johansson strax þegar Floyd hafði verið sleginn í gólfið og skjögraði svo meðvitundarlítill á fætur, að hann hafði greinilega ekki hugmynd um hvar hann var og sneri bakinu í Ingo þegar hann staulaðist í áttina frá honum.

Ingo sló hann sex sinnum niður eftir þetta. 

Í atvinnuhnefaleikum eru sum högg bönnuð, svo sem hnakkahögg og högg með olnboga, en ekki hefur verið mikið fjallað um hvort og þá hvaða högg eru bönnuð í MMA. 

Fjöldinn einn segir ekki alla söguna.

Þegar Max Schmeling rotaði Joe Louis 1936 sló hann Louis 51 beint hægri handar högg þangað til hann hafði að lokum lagt Louis.

Í venjulegum atvinnumannabardaga geta höfuðhögg á báða bóga orðið mun fleiri samtals en Gunnar fékk á sig í bardaganum í fyrrinótt.

Talið er að óvejulega mörg hörð höfuðhögg, sem Muhammad Ali stóð af sér í síðustu bardögunum á ferli sínum hafi getað átt þátt í heilabilun sem skóp jarðveginn fyrir Parkinson sjúkdóminn, sem hann fékk.

Þetta verður þó aldrei sannað til fulls.    


mbl.is Heilabilun afleiðing höfuðhögga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar "þjóðarhagsmunir" brengla rannsóknir.

Slæmt er þegar raunverulegir eða ímyndaðir hagsmunir þjóða brengla eða skemma fyrir rannsóknum á flugslysum, því að aukið öryggi í flugi grundvallast á því að upplýsa um orsakir flugslysa.

Það eru miklir hagsmunir í veði fyrir Egypta að ekki falli blettur á öryggisgæslu í flugi þar í landi, því að ferðaþjónustan er snar þáttur í þjóðarbúskap þeirra.

Það var því áfall fyrir þá þegar Rússar bönnuðu flug rússneskra véla til Egyptalands fyrst eftir hrap rússnesku farþegaþotunnar 31. október sl. 

Það hentar hins vegar hagsmunum Rússa og Breta ef sannast að Ríki íslams hafi grandað þotunni.

Það er ekki nýtt að utanaðkomandi þrýstingur brengli flugslysarannsóknir, svo sem þegar malasísk farþegaþota var skotin niður yfir Úkraínu í fyrra og þegar þota fórst á dularfullan hátt yfir Miðjarðarhafi á sama tíma og þar stóðu yfir heræfingar vegna ógnar sem talin var getað stafað af brölti Gaddafis á þeim tíms.


mbl.is Ekki hryðjuverkaárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál eru list hins mögulega. "Svona gera menn ekki."

Stjórnmál eru list hins mögulega. Nú er svo að sjá að lög, lögfesting barnaverndarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, hafi skyldað íslensk stjórnvöld til að veita tveimur veikum börnum aðstoð hér á landi frekar en að fara með þau og nánustu ástvini þeirra í lögreglufylgd eins sakamenn úr landi.

Í staðinn fyrir að lög um réttindi barna séu látin ráða, eru önnur lög og reglugerðir, fjandsamleg þessu fólki, látin ráða för.

Málið lyktar af mistökum í stjórnsýslu í andrúmslofti andúðar á útlendingum, sem viðkomandi ráðherra átti að vísu ekki beina sök á, en verður að vonast til að hún beiti sér fyrir að verði breytt eftir þeim leiðum sem hljóta að vera færar og hægt að fara, miðað við lög um réttindi barna.

Fræg urðu ummæli Davíðs Oddssonar forsætisráherra, þegar þáverandi fjármálaráðherra vildi láta ríkissjóð seilast í tekjur barna af útburði dagblaða.

"Svona gera menn ekki" sagði Davíð og málið var dautt. 


mbl.is „Ég stend ekki þegjandi hjá“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bumban (jumbo) er í raun 3ja hæða.

Flugvélarnar, sem við fjúgum í, eru yfirleitt tveggja hæða vegna þess að þversnið skrokksins er hringlaga af loftfræðilegum og burðarþolsfræðilegum ástæðum.

Í flestum tilfellum er gólf farþegarýmisins, sem verður, eðli máls vegna, að vera slétt og lárétt, svo að hægt sé að ganga á því, haft aðeins fyrir neðan miðju skrokksins, svo að setbreiddin verði eins mikil og mögulrgt er.

Þessvegna finna farþegar ystu sætum í Fokker 50 fyrir smá þrengingu úti við hlið vélarinnar.

Framleiddar hafa verið flugvélar með kassalaga skrokkum, svo sem Short Skyvan, Dornier 228 og Britten-Norman Islander, og voru tvær þær síðastnefndu notaðar hér á landium árabil.

Í þessum flugvélum var nýting rýmis innan í skrokknum afar góð, litið fór til spillis og Skyvan hentaði afar vel til vöruflutninga.

Talsvert rými fer til spillis í nær öllum flugvélum vegna hringlaga þversniðs skrokksins, einkum undir gólfi farþegarýmisins.

Þegar komið er yfir ákveðna stærð verður óhagkvæmni hringlaga skrokksins of mikil ef farþegarýmið er á aðeins einni hæð.

Þetta var leyst að hluta með því að koma fyrir viðbótar hæð á Boeing 747 og síðar á Airbus 380.

En báðar þessar "bumbur" (jumbo)eru í raun 3ja hæða með afar vannýtt farangursrými undir megin farþegarýminu.

Og í öllum flugvélum er, vegna takmarkana á möguleikum á þungadreifingu, mikið ónýtt rými aftast.

Langhagkvæmast og öruggast er að hafa sem mest af burðarþunga vélanna sem næst miðju þeirra og/eða í vængjunum.

Þess vegna eru eldsneytisgeymar yfrleitt í vængjum þeirra.

Í kringum 1930 framleddu Þjóðverjar flugvélar með svo stórum og þykkum vængjum, að hægt var að koma farþegum þar fyrir sem gátu horft beint fram út um bogadregna glugga!  

Nú er komin tækni til að hafa flugvélar gluggalausar og það á kannski eftir að gera enn betri rýmisnýtingu mögulega en hingað til.

 


mbl.is Einkaleyfi á nýrri 2 hæða flugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband