Vandræðin aftur að byrja varðandi ferðaþjónustuna?

Lánið er valt hjá vinum,

vandræðin aftur að byrja, 

og hvor ætti að aka hinum 

held ég að verði að spyrja. 


mbl.is Skilinn eftir á röngum stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jökulsá á Brú var afkastameiri.

Þegar Jack D´Ives sérfræðingur í fjallalandslagi, sem verið hefur einn af ráðgjöfum vegna Heimsminjaskrár UNESCO, kvað skýrt upp úr með það fyrir 16 árum, að á landssvæðinu norðan Vatnajökuls væru efni til skráningar á Heimsminjaskrána, lögðu Íslendingar kollhúfur.

Enda var það aðaláhugaefni stjórnvalda og ráðandi afla að virkja allar ár á svæðinu, taka afl af fossum og sökkva helstu dölum og gróðurvinjum.

Þótt æ betur sé að koma í ljós hve sköpunarkraftur Jökulsár á Fljöllum hefur verið magnaður, var hinn stanslausi mótunarkraftur Jöklu (Jökulsár á Brú eða Jökulsár á Dal) jafnvel enn meiri.

Það verður víst að skrifa um Jöklu í þátíð, því að með því að sökkva innsta hluta hennar í Hjalladal, voru endanlega eyðilögð þau náttúrudjásn sem hún var í óða önn að móta í dalnum, tekið fyrir mátt hennar til að viðhalda Hafrahvammagljúfrum og ströndinni við Héraðsflóa.

Sköpunarmáttur Jöklu var frábrugðinn getu nöfnu hennar vestar á hálendinu hvað það varðar, að framburður Jöklu var og er miklu jafnari og afkastameiri til þess að sverfa berg eða fylla upp lægðir og meðan áin var í farvegi til þess að sverfa berg, voru þessi afköst miklu meiri en menn gerðu sér grein fyrir fyrr en um það leyti sem henni var sökkt í Hálslón.

Þannig var hún í miðjum klíðum við að búa til nýtt litfagurt gljúfur á botni Hjalladals, og hafði skapað svonefnda Stapa, Rauðuflúð og Rauðagólf á aðeins rúmri hálfri öld.

Og Hafrahvammagljúfur hafði hún að mestu skapað á aðeins um 700 árum.Kringilsá, vor 10

Nú verður aðeins hægt að tala um þessi afrek hennar í þátíð, en hins vegar að horfa upp á það að hún muni fylla Hjalladal af auri á næstu öldum.

Spurningin er hvort kynslóðir framtíðarinnar muni dást að hinum flötu sandleirum árinnar þegar þar að kemur, vitandi um þau sköpunarverk hennar sem verða þá á 150 metra dýpi í sandi og auri.  

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig þverá Jöklu, Kringilsá, ekki síður öflugur liðsmaður sköpunarinnar á svæðinu, hafði árið 2010 fyllt upp gljúfrið Stuðlagátt af sandi á aðeins þremur árum og drekkt tveimur fossum og fallegu stuðlabergi.  

     


mbl.is Ýtti Dettifossi upp ána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Margt er á huldu..." eða hvað?

Stundum verða einföld atriði, sem engin sérstök hugsun um hrekk var á bakvið, óvart að hrekk. 

Þannig varð lítil staka, sem hrökk upp á óþægilegum tíma, óvart að hrekk sem truflaði upphaf fréttatíma á Stöð 2 fyrir um 25 árum.

Fréttastjórinn hafði fengið sérstakan litgreiningarsérfræðing til þess að taka alla fréttaþulina í litgreiningu og breyta útliti þeirra stórum ef honum sýndist það verða nauðsynlegt. 

Útlit margra fréttaþula breyttist talsvert við þetta og vakti athygli. 

Kvöld eitt þegar við Hulda Styrmisdóttir vorum þulir, tók sérfræðingurinn heldur betur til hendinni hvað hana snerti. 

Sérfræðingurinn lét mig að mestu vera, enda hafði ég fyrir á litanámskeið mikið þegar Sjónvarpið skipti algerlega yfir í litasjónvarp árið 1977. 

Þar voru svonefndir "komplimenter-færger" hafðir í hávegum, svipað og Rembrandt og fleiri málararar notuðu á sinni tíð, þar sem blátt og ljósrautt spiluðu saman. 

Ég var rauðhærður og bláeygur og jakki, skyrta og bindi voru í þessum elskuðu litum. 

En sérfræðingurinn sneri Huldu Styrmisdóttur nánast á hvolf með gerbreyttri hárgreiðslu, förðun og fatnaði. 

Þetta voru það tímafrekar breytingar að hún kom í settið á síðustu stundu. 

Mér fannst svo mikið til breytinganna koma, að í þann mund, sem hún átti að hefja lestur fréttatímans, hvíslaði ég að henni eftirfarandi vísu, og nýtti mér í vísunni að eitt orðið í henni breytti alveg um merkingu við það hvort það var skrifað með stórum staf eða litlum. 

Þess vegna fer það eftir hugarfari hvers og eins, sem heyrir vísuna, hvernig hann skilur hana og hvort hann hneykslast á henni, hlær eða lætur sér fátt um finnast. 

En svona er vísan skrifuð, þótt það heyrist alls ekki við flutning hennar: 

 

Litbrigðin fallegu ljúft er að sjá. 

Löngum það hugann vill erta. 

Margt er á huldu sem mér líst vel á

en má bara alls ekki snerta. 

 

Skemmst er frá því að segja að Hulda átti í mestu erfiðleikum með að lesa fréttina sem dundi yfir beint á eftir vísunni og var hvað eftir annað við það að skella upp úr. Skal engan undra.


mbl.is Logi Bergmann tekinn í bakaríið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband