Hálf sviðsmyndin?

Íslendingar tóku á sig að jafna út 200 milljarða króna halla á ríkissjóði við Hrunið. Það kostaði svo harðar aðhaldsaðgerðir að enn í dag sjáum við það blasa við á mörgum sviðum þjóðlífsins, svo sem í heilbrigðiskerfinu og ástandi vegakerfisins.

Ef þetta var ekki og er ekki aðhald, þá hvað?

Íslenskir skuldarar tóku á sig gríðarlegar byrðar og stórfellda kjaraskerðingu vegna falls þeirrar sömu íslensku krónu og færð eru rök að að hafi bjargað okkur.

Ef það var ekki "aðhald", þá hvað? Stutt er síðan farið var í tæplega 100 milljarða skuldaleiðréttingu út af falli krónunnar. 

Í þessu tvennu, sem nefnt er hér að ofan, felst helmingurinn af sviðsmyndinni, svo notað sé vinsælt nýyrði.

Hinn helmingurinn af sviðsmyndinni snýst um Icesave þar sem í fyrri samningunum í því máli átti að láta hvern íslenskan skattgreiðanda borga 25 sinnum meira en hvern breskan eða hollenskan.

Það var svo fáránlega ósanngjarnt að ekki var hægt að láta það mál enda svona.

Margir virðast hins vegar vera búnir að gleyma því í hve óskaplega erfiðri stöðu og undir hvílíkri pressu við vorum gagnvart öllum þjóðum í Evrópu nema Færeyingum.  

Það eina sem gat bjargað okkur var að vinna okkur tíma og þar vorum við svo heppin að hafa 26. grein stjórnarskrárinnar sem gaf forseta Íslands færi á málskoti og því að taka málið upp að nýju, auk þess sem forsetinn var afar öflugur og nauðsynlegur talsmaður okkar erlendis. 

Íslendingar höfnuðu þeirri tegund "aðhalds" sem fólst í einstaklega ósanngjarnri skiptingu á byrðum Icesave, sem átti að þvinga okkur til að gangast undir.

Það sýnist vera sá helmingur "aðhaldsaðgerðanna" sem forsetinn á við.  

 


mbl.is „Íslendingar höfnuðu aðhaldi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á leið til Suðurríkja síðustu aldar?

Sú var tíð að blökkumönnum var meinaður aðgangur að ákveðnum stöðum og ákveðnum sætum í strætisvögnum og víðar í Suðurríkjum Bandaríkjanna. 

Þegar ég fór í fyrstu ferðir mínar til Bandaríkjanna kom það mér á óvart hve margir landar mínir, sem þar höfðu sest að, mæltu með þeim aðferðum sem notaðar voru gegn blökkumönnum. 

"Þú þekkir þetta ekki og veist ekki hvað þú ert að tala um", sögðu þeir við mig. "Þeir lykta illa og öðruvísi en hvítir menn, eru bæði heimskari og latari en hvítir, þjófar og afbrotamenn."

Svipað var sagt um blökkumenn í Suður-Afríku þar sem var í gildi hörð aðskilnaðarstefna.

Nú virðist þeim fara fjölgandi í nágrannalöndum okkar og hugsanlega einnig hér, sem er illa við aðra en "hreina Íslendinga" og vilja þá í burtu úr landinu.

Á breska myndbandinu í tengdri frétt á mbl.is er verið að hrekja mann af erlendu bergi brotnum úr lest. Eru nágrannaþjóðir okkar og jafnvel við sjálf á leið til Suðurríkja síðustu aldar? 


mbl.is „Hvað gat ég sagt börnunum mínum?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama mælir lög.

Barack Obama Bandaríkjaforseti mælir lög þegar hann bendir á hvernig ofbeldishneigðir og ofstopafullir glæpamenn þykjast vera að berjast fyrir trú og trúarbrögð þegar þeir fremja morð og glæpi og ógna öllum samfélögum heims, líka þeim trúarsamfélögum, þar sem viðkomandi trú ríkir. 

Þannig hafa þjóðir eins og Egyptar, Tyrkir og Jórdaníumenn staðið fyrir hernaðaraðgerðum til þess að ráðast gegn þessum friðarspillum, sem hafa fyrst og fremst drepið, pyntað, limlest og kúgað múslimatrúað fólk.

Í stórum trúarritum múslima og kristinna manna er hægt að finna orð og setningar sem eru börn síns tíma, og með því að beita öfgafullri bókstafstrú er hægt að "snúa Faðirvorinu upp á andskotann" eins og það var stundum orðað hér á landi.

Nú ógnar glæpahyski í nafni múslima friði með hryðjuverkum, en á sínum tíma voru líka farnar krossferðir og stundaðar galdrabrennur í nafni Kristninnar.   


mbl.is Samfélög verði að axla ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestrænt kerfi með svipaðri hættu og austrænt?

Flugslysið mikla á Tenerife og flugslys hjá Suður-Kóreumönnum á tímabili leiddu í ljós nauðsyn samvinnu, samráðs og jafnvægis á milli flugmanna í flugstjórnarklefanum þar sem aðstoðarflugmenn þyrðu að benda flugstjóranum á það ef hann væri að gera mistök. 

Flugstjórinn sem átti megin þáttinn í Tenerife flugslysinu var einn þekktasti flugstjóri í Evrópu, yfirflugstjóri hjá KLM, og honum var meira segja telft fram í auglýsingu félagsins, nefndur sem dæmi um afburða örugga og færa flugstjóra félagsins og kröfur til þeirra. 

Aðstoðarflugstjórinn, sem virtist ljóst að í óefni stefndi, hafði ekki nægt sjálfstraust gagnvart svo virtum flugstjóra til að taka af skarið til að afstýra slysinu, nefndi feiminn og óöruggur með sjálfan sig möguleikann á mistökunum en lyppaðist síðan niður fyrir valdi flugstjórans .

Hjá Suður-Kóreska flugfélaginu var svipað ástand um borð hvað varðaði aldagamla og inngróna geirneglingu virðingarstiga í samfélaginu, þar sem yfirmenn voru nánast eins og guðir í augum undirmanna sinna.

Þegar slys fóru ítrekað að gerast af þessum sökum; að aðstoðarflugmenn þorðu ekki að andmæla eða leiðrétta flugstjórana, sáu flugyfirvöld og flugfélög þar í landi, að í stjórn flugvéla gengur slíkt ekki upp, heldur verður að ríkja sú samvinna og samráð sem eðli stjórnar flókinnar flugvélar krefst. 

Vestrænt kerfi, sem býður upp á eins konar stéttaskiptingu sem hlýst af gerviverktöku, getur falið í sér svipaða hættu og hið Suður-Kóreska þjóðfélagskerfi gerði, meðan það var látið afskiptalaust. 


mbl.is Tengja gerviverktöku við flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband