Áminning um aldir alda.

Það sem við blasti þegar bandamenn komu í fangabúðir nasista fyrir 70 árum á að vera eilíf áminning til mannkynsins um það sem á ekki að vera til á jarðríki, - en er það samt. 

Það er fyrst hin allra síðustu ár sem það seytlar inn í huga mér hve nálægt ég var á æskuárum hér lengst norður í höfum og raunar síðar á ævinni mestu og kaldrifjuðustu villimennsku, sem mannkynssagan kann frá að greina. 

Það kann að vera að hægt sé að skrifa fleiri mannslíf á reikning Gengis Khans, Stalíns, Maós eða japönsku hershöfðingjanna á árunum 1937-45 heldur en Hitlers og meðreiðarsveina hans. 

Það sem skilur útrýmingarherferðina á hendur Gyðingum frá er tvennt:

Annars vegar að markmið hennar var aðeins eitt: Að drepa fólk af ákveðnum kynþætti, helst alla þá 10,5 milljónir manna, sem skilgreindir voru á þann veg. 

Dráp hinna, sem nefndir voru, voru að vísu óréttlætanleg, en samt réttlætt hjá Stalín með því að iðnvæða Rússland og stofna til ríkisrekins landbúnaðar, sama hvað það kostaði og hjá Maó að koma á kínverskum kommúnisma, sama hve miklar mannfórnir það kostaði.

En Helförin hafði aðeins eitt markmið: Manndráp.

Og hitt atriðið sem gerði þessa villimennsku sérstaka var  og hin djöfullega tæknilega, úthugsaða og skipulega framkvæmd hennar.

Milljónir trúgjarnra ánetjuðust þessum samviskulausu mönnum, sem að ofan voru nefndir, um lengri eða skemmri tíma.

Besti og ljúfandi heimilisvinur foreldra minna á æskuheimili mínu, Baldur Ásgeirsson, var kostaður af sjálfum Heinrich Himmler til þess að nema mótasmíði og allt sem viðkæmi höggmyndalist í eitt ár við sjálfar Dachau fangabúðirn nasista, þar sem Gyðingarnir hjuggu hlekkjaðir efnið handa honum hinum megin við múrvegginn. 

Allir vissu að vísu um Gyðingaandúð Hitlers en ennþá var Kristalnóttinn ekki komin og enginn vildi trúa því hve skefjalaus hinn eindregni brotavilji og drápsþorsti nasistanna voru. 

Það var skiljanlegt að ungur maður á Íslandi með áhuga á því að nema þessi fræði hafnaði því ekki ekki að þiggja boð jafn valdamikils manns og Himmlers á tímum atvinnuleysis og kreppu á Íslandi.  

Himmler hafði jú ástríðufullan áhuga á þessari list og dáðist að framherjum germanskrar menningar í vestasta landi Evrópu. 

Agnar Koefoed-Hansen lærði kornungur flug og flaug fyrir Lufthansa í Þýskalandi á mestu uppgangstímum Þjóðverja og hlaut þar einstæða menntun af Íslendingi að vera, svo mikla, að hann var gerður að flugmálaráðunaut íslensku ríkisstjórnarinnar. 

Í gegnum feril sinn í Þýskalandi komst hann að sjálfsögðu í kynni við ráðamenn flugmála þar í landi og þar með æðstu menn þýska ríkisins, þótt ekki hitti hann Hitler sjálfan. 

Agnar æfði ýmsar íþróttir kappsamalega, svo sem skotfimi, og til stóð í samkvæmi með innstu koppum í búri nasista, að hann atti kappi við sjálfan Reinhardt Heydrich, sem Hitler fól upphaflega að stjórna Helförinni.

Fyrir tilviljun fórst þetta einvígi fyrir.

Agnar lærði síðan til þess að verða lögreglustjóri með því að fara á námskeið í þeim efnum hjá SS-sveitum Himmlers í Þýskalandi sumarið 1939!

Hann stóð sig hins vegar þannig sem lögreglustjóri í Reykjavík og sem flugmálaráðunauturinn, sem lagði til að ósk Hitlers um aðstöðu fyrir Lufthansa á Íslandi 1939 yrði hafnað, - sem vakti undrun víða á þeim tíma sem enginn þorði annað en að semja við Hitler, - að þegar Bretar eftir hernámið vildu taka hann höndum og setja í Tower of London, tókst íslenskum ráðamönnum að telja Breta ofan af því. En litlu munaði. 

Ég kynntist Agnari vel og hafði og hef miklar mætur á minningu þess manns sem og minningu Baldurs Ásgeirssonar. En nálægð þeirra og mín við hið illa vald er áminning um að halda vöku sinni.

Á okkar tímum blasir við skefjalaus villimennska morðóðra öfgamanna sem ofsækja alla aðra en þá sem játast hinum trylltu trúaröfgum þeirra.

En jafnframt blasir við, að frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar hafa öflugustu herveldi heims varið milljónum milljarða króna í hátæknivæddustu uppbyggingu allra tíma, kjarnorkuvopnabúr sem geta eytt öllu lífi á jörðinni í krafti þeirrar nauðsynlegu forsendu, að kjarnorkuveldin séu reiðubúin að beita þeim.

En það er einmitt inntak MAD-kenningarinnar (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra)

Hvernig getur okkur verið sama um að ítrustu vitsmunum og tækni mannsins sé beitt til að fullkomna getuna til svo stórkostlegra drápa, að villimennska nasistanna er eins og smámunir í samanburðinum?   


mbl.is Þýskalandsforseti þakklátur Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Turninn sýnist hallast.

Eitt af því sem gerir Hallgrímskirkju skrýtna og óvenjulega er það, að frá tveimur sjónarhornum sýnist turninn hallast. 

Ástæðan er sú að á hornum turnsins liggja hinar sérkennilegu eftirlíkingar af berggöngum úr stuðlabergi lóðréttar utan á honum.

Fyrirferð þessa óvenjulega fyrirbrigðis í arkitektúr og stærð og umfang turnsins sjálfs eru einnig í ósamræmi við stærð kirkjuskipsins sjálfs sem sýnist fyrir bragðið mun minna en það raunverulega er.

Kirkjan var afar umdeild á sínum tíma og efni í hatrammar deilur, samanber ljóð Steins Steinarrs með sinni miklu háðsádeilu.

Þetta hefur átt við fleiri fræg fyrirbæri, sem Eiffelturninn, sem þótti bera borgina ofurliði og til stóð að rífa í fyrstu.

Nú held ég að enginn vilji í burtu tvö helstu kennileiti Reykjavíkur, Perluna og Hallgrímskirkju, enda báðar byggingarnar afar sérstæðar. Einkum er Perlan tákn um sömu sérstöðuna og fels í nafni Reykjavíkur, það er hverahitans.

Harpan á eftir sanna sig og er í harðri samkeppni við svipuð hús erlendis, þar sem óperuhúsið í Sidney er sennilega enn á toppnum. 

 

 


mbl.is Hallgrímskirkja meðal skrýtnustu húsa heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingur með íslenska afsökun: "Hvort eða er.."

Hingað til höfum við Íslendingar að mestu verið einfærir um  að sækja að íslenskri náttúru með mestum mögulegum óafturkræfum neikvæðum áhrifum, svo sem með Kárahnjúkavirkjun. 

Helsta og klassískasta afsökun okkar hefur verið og er "hvort eð er..." afsökunin, sú að íslensk náttúra sé sífellt að breyta landinu og að við, sem hluti af náttúrunni, eigum að vera stórtæk á því sviði, enda muni náttúran sjálf "hvort eð er" breyta öllu mest á endanum. 

Nú heyrum við rök útlendings sem eru í takt við "hvort eð er.." kenninguna. Orð hans um að hvort eð er muni aska frá eldgosum setjast í hverina á Geysissvæðinu er samt einhver sú allra langsóttasta. 

Sem dæmi um "hvort eð er.." kenninguna má nefna, að í góðu lagi sé að reisa hvaða mannvirki sem vera skal á Torfajökulsvæðinu og öllum öðrum hliðstæðum náttúruperlum landsins og umturna þeim, því að "hvort eð er" muni verða þar stórgos einhvern tíma á næstu öldum. 

Í lagi væri að gera stíflu við suðurenda Þingvallavatns og stækka Steingrímsstöð, þótt Þingvellir myndu sökkva við þetta, því að "hvort eð er..." muni land síga við norðanvert vatnið í framtíðinni og vellirnir sökkva. 

Afsökunin er algild: Okkur er heimilt að fara með land okkar og náttúru þess eins og okkur sýnist. Gildir þá einu þótt draumsýnin feli í sér stórfellt brot gegn frelsi komandi kynslóða, milljónum Íslendinga framtíðarinnar, sem við tökum ráðin af með þessu framferði. 

Við höfum heimild til þess að hrifsa allt það til okkar sem okkur er mögulegt. 

"Hvort eð er..." kenningin er náskyld "túrbínutrixinu" sem varð til árið 1970 þess efnis að hvort eð væri væri búið að kaupa svo stórar túrbínur í nýja stórvirkjun að ekki yrði aftur snúið. 

Nú er "hvort eð er" búið að byrja á að reisa kerskála álvers í Helguvík og þess vegna verður samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ekki aftur snúið með það að umturna náttúru landsins með virkjunum allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslur og yfir hálendið.

Daginn sem andófsfólk var handtekið í Gálgahrauni var stærstu jarðýtu landsins beitt til þess að fara hamförum eftir öllu vegarstæðinu til þess að kvöldi væri hægt að segja að hvort eð væri væri búið að leggja hraunið í veglínunni í rúst.

Þessi stærsti skriðdreki landsins sem beitt var þennan eina dag var til að sýna mátt og megin "hvort eð er.." kenningarinnar.

Svipuð hugsun lá að baki því í júlí 1999 þegar ég var flæmdur í burtu fljúgandi yfir miðhálendinu af F-15 orrustu- og sprengjuþotum, stórvirkustu drápstækjum öflugasta herveldis heims sem íslenskir ráðamenn báðu NATO um að æfa sig á gegn hryðjuverkaógn Íslands, náttúruverndarfólki, sem heræfingin byggðist á að væru þarna á ferð og þyrfti vera búið að æfa hvernig ætti að murka niður.

Það þurfti hvort eð er að æfa sig á að nota drápstólin og þá var náttúruverndarfólk nærtækast.  


mbl.is Ætlar ekki að greiða sektina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband