"Þú átt að ganga, - ekki of hratt, og alls ekki í ....."

Já, nú segir Gunnar Bragi að málið sé skýrt og orðar það í einni setningu: Að Ísland sé ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki og muni smám saman hverfa af listum um umsóknarríki.

Þessi skýri skilningur utanríkisráðherrans vekur samt margar spurningar.

Hvernig er hægt að segja að Ísland sé ekki umsóknarríki þegar í sömu setningu er sagt, að það eigi eftir að taka Ísland "smám saman" af listum yfir umsóknarríki?

Ef ESB getur ráðið hraðanum varðandi það að taka okkur "smám saman" af listunum, hve hratt er þetta "smám saman"? Nokkrir dagar?  Nokkur ár?

Og ef ESB getur bara sisvona tekið okkur "smám saman" af listunum, gæti ESB þá á sama hátt sett okkur "smám saman" inn á listana? Og hvers hratt gæti það gerst?

Þetta minnir mig á það þegar ég fór í ristilspeglun og fékk í hendur skriflega lýsingu á því að taka inn laxerolíu og ganga síðan á eftir.

Mér fannst þetta ekki nógu nákvæm lýsing. Hve lengi átti ég að ganga og hve hratt? Og hvað svo?

Ég lagði því til við lækninn að þetta væri orðað nákvæmara, og gerði þessa vísu að tillögu minni ap lýsingu læknisins á því hvernig ætti að laxera svo að allt væri sagt skýrt og skilmerkilega sem segja þyrfti:

Laxeringin gengur glatt

ef gætir þú að orðum mínum:

Þú átt að ganga, ekki of hratt,

og alls ekki í hægðum þínum.

En rétt eins og hjá utanríkisráðherranum vakna fleiri spurningar en svör. Hvaða hægðir er verið að tala um?  Hversu hratt er "ekki of hratt"? Svona rétt eins og spurt er: Hversu hratt er "smám saman"?

 

 


mbl.is „Málinu lokið af hálfu ESB“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórlega vanmetið ferðamannasvæði.

Reykjanesskaginn er vanmetið ferðamanna- og útivistarsvæði í hlaðvarpa stærsta þéttbýlis landsins og aðal alþjóðaflugvallarins. 

Sum svæðin eru einhver best varðveittu leyndarmál landsins og það kemur sér vel fyrir þá sem ætla sér að kæfa þau í gufuaflsvirkjunum, svo sem Eldvörp, Trölladyngja, Krýsuvík, Ölkelduháls og Grændalur.

Ætlunin er að gera alla leiðina frá Reykjanestá til Þingvallavatns að niðurnjörvuðu svæði stöðvarhúsa, skiljuhúsa, gufuleiðslna, háspennulína og mannvirkjavega, - alls 12 virkjanir, en fjórar eru á því nú. 

Auðvelt er aka á venjulegum bílum að öllum fyrrnefndum stöðum, en engir nema hundkunnugir rata að Eldvörpum og Sogunum, gili við Trölladyngju, en fara verður austur á Landmannalaugasvæðið til að sjá hliðstæðu þess.

Við Eldvörp og Sogin hentar það vel fyrir virkjanafíklana að sem fæstir sjái þessar náttúruperlur, enda hart sótt að þeim til að virkja við Eldvörp, þótt aðeins sé ætlunin að tappa þar af sameiginlegu orkuhólfi þeirra og Svartsengis.

Og til lítils, vegna þess að gufuaflsvirkjanirnar gefa hvorki af sér hreina né endurnýjanlega orku, eins og glögglega er þegar að koma í ljós á Hellisheiði. 

 

Eldvörp er gígaröð, en slík fyrirbæri finnast aðeins á Íslandi og þarf að fara alla leið austur og upp á Suðurhálendið til að sjá hliðstæðu.

En mótbáran við því að kynna náttúruperlur Reykjanesskagans er sú, að þangað sé margfalt styttra að fara fyrir erlenda ferðamenn heldur en að fara til dæmis Gullna hringinn og þess vegna græðum við minna á slíkum ferðamönnum en þeim sem styttra fara.

Þetta rímar ekki við mína reynslu af ferðum um "Silfraða hringinn" á Reykjanesskaga sem ég hef farið með ferðamenn, sem hafa verið í tvo daga í Reykjavík á ráðstefnum og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn.

Þessi stutta ferð, sem hægt er að hafa misjafnlega langa, hefur nefnilega oftast kveikt í þeim löngun til að koma aftur til landsins og dvelja hér lengur og fara víðar. 

Gott er framtak Sigurðar Boga Sævarssonar sem þessi bloggpistill er tengdur við, og ber að þakka það.

Eins gott að fara svona ferð sem fyrst, því að til stendur  að endastöðin í Flóanum, Urriðafoss, verði þurrkaður upp með virkjun, sem kennd verður við hann.   


mbl.is Jörðin kraumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótur blettur á sögu okkar.

Spánarvígin svonefndu fyrir 400 árum eru einn ljótasti blettur á sögu okkar Íslendinga. Grimmdin sem sýnd var þegar Baskarnir voru hundeltir víða um Vestfirði og drepnir gaf lítið eftir grimmd vígamanna Íslamska ríkisins sem fordæmd er á okkar dögum. 

Hugsunarhátturinn að baki svona verknuðum, að leyfa ótakmörkuð dráp "ef brýn nauðsyn ber til" á sér hliðstæður nú á dögum, jafnvel ótrúlega nálægt okkur sjálfum. 

Vísa ég þar til bloggpistils í fyrradags um heræfingu NATO í júlí 1999 með samþykki eða jafnvel að frumkvæði íslenskra ráðamanna sem fólst í því að æfa það að F-15 þotur réðust á náttúruverndarfólk á hálendi Íslands og sölluðu það niður.

Vegna flugbanns á æfingasvæðinu lét ég hrekjast út fyrir það á meðan bannið var í gildi og upplifði því það að óttast þá lífsreynslu að horfa yfir dýrð viðerna Íslands framan í nakið ofurvald.  


mbl.is Baskar ekki réttdræpir á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framherjar íslenskrar menningar.

Magnús Ólafsson var einn af hinum ómetanlegu framherjum íslenskrar menningar og þjóðrækni í Vesturheimi. Hér uppi á Fróni, í 4000 kílómetra fjarlægð, eigum við þessum eldhugum mikið að þakka. 

Afl þessarar ræktarsemi við uppruna sinn og fjarlægt land má merkilegt heita 130 árum og fjórum kynslóðum eftir landnám Íslendinga vestra, þar sem ötulir framherjar á borð við Magnús héldu uppi merkinu af fádæma dugnaði og ræktarsemi og viðhéldu íslenskri tungu miklu lengur en búast mátti við svo löngu eftir brottför frumherjanna frá Íslandi og kynslóðaskiptin eftir það.

Á ferðum um Ameríku 1999 og síðar voru það einkum fjögur svæði, sem vöktu athygli fyrir þetta sterka menningarstarf, Manitoba, Norður-Dakota, Washington island í Michicanvatni og bærinn Spanish fork sunnan við Salt lake city í Utah.

Tveir síðastnefndu staðirnir hafa fallið svolítið í skuggann af Íslendingabyggðunum í hinum samliggjandi fylkjum Manitoba í Kanada og Norður-Dakota í Bandaríkjunum, en afl ræktarseminnar við Ísland og íslenska menningu er firnasterkt á Washington island og þó einkum í Spanish fork, þar sem sem Mormónatrúin beinlínis hvetur til þess að hyggja að forfeðrum og formæðrum og rækta uppruna sinn. 

Þar voru menn til dæmis fljótari að koma upp fullkominni skrá yfir Íslendinga eftir 1703 í tölvutæku og skipulegu formi samkvæmt nýjustu kröfum um slíkt heldur en hér á landi og minnismerkin þar um Íslendinga, sem gengu þúsundir kílómetra á leið til fyrirheitna landsins, eru kannski það ógleymanlegasta sem hægt er að upplifa á Íslendingaslóðum vestra.   


mbl.is Andlát: Magnus Olafson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband