Ási: "Óboðlegt fyrir Eyjamenn með mökum í tíu manna klefa".

Fyrirsögnin er tekin beint upp úr ræðu Ásmundar Friðrikssonar á þingi, sem vitnað er í í tengdri frétt á mbl.is. Kjarni málsins felst í eftirfarandi stöku: 

 

Ási bendir á það hér,

að undir mörgum hitni

ef sofið hjá til Eyja er

með átta manns sem vitni.


mbl.is Ríkisstjórnin með mökum í sama klefa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Krónan tók á sig höggið". Jahá? Ekki almenningur?

"Krónan tók á sig höggið.." "Krónan lagði grunn að nýjum stöðugleika." Svona orða þeir hlutina sem telja að við eigum að falla fram og tilbiðja þau öfl í þjóðfélaginu sem nú er hamast við að fría sig allri ábyrgð á því, af hverju "krónan tók á sig höggið." 

Það er talað um verðgildi krónunnar eins og eitthvað sem komi almenningi ekki við. 

En það er nú öðru nær. Stórfelldasta gengishrun í rúm 40 ár bitnaði samstundis á almenningi og var hrein kjaraskerðing af áður óþekktri stærð. Það var almenningur sem tók á sig höggið ef einhver skyldi hafa gleymt því eða vilja leyna því. 

Síðan segja sömu ritarar nýrrar sögu af Hruninu, að verðbólguna, sem fylgdi, megi skrifa á reikning þeirra sem tóku við strandaðri þjóðarskútu, komu henni af skerinu út úr skerjagarðinum og gerðu við hana svo að hún gæti siglt á ný.

Öflin, sem sigldu okkur í strand, eru sýknuð af allri ábyrgð, mærð að nýju og þeim þakkað "lengsta stöðugleikaskeiðið."

Þegar litið er á línuritin sést að þetta stöðugleikaskeið hófst reyndar áður en gömlu Hrunöflin tóku við stjórninni. Og auðvitað er þagað um það, að meginorsök þess að verðbólga hefur haldist lág er sú, að við fengum að gjöf erlendis frá stærstu og varanlegustu verðlækkun á olíu á síðustu árum.   


mbl.is Lengsta stöðugleikaskeiðið lengist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifir enn góðu lífi.

Sá hugsunarháttur, sem lýst er í nýrri könnun um "forsendur" fyrir lántökum, sem "ekki var neitt vit í" í aðdraganda Hrunsins, lifir enn góðu lífi á ýmsum sviðum.

Í þessari nýju könnun kemur það í ljós sem raunar var alkunna, að í ótrúlega mörgum tilfellum töldu lántakendur það næga forsendu fyrir glórulausum lántökum sínum, að nær takmarkalaust lánsfé var í boði.

Var það eitt talin næg forsenda fyrir lántökunum, þótt auðvelt hefði átt að vera að sjá strax þá að þessi "forsenda" fyrir þeim var glórulaus, enda gengi krónunnar og hlutabréfa á þann veg að það gat ekki verið annað en tímabundin bóla.

Og fyrr en varði kom hið sanna í ljós.

En eftir á var málum snúið þannig að hinn skefjalausi aðgangur að lánsfé hefði verið gild forsenda fyrir "lántökum sem ekkert vit var í" og þess vegna yrði að bæta viðkomandi upp "forsendubrest", sama hvernig hann var til kominn.  

Með svipuðu hugarfari er því haldið fram nú sem góðum rökum fyrir því að fara á svig við eðlileg vinnubrögð verkefnastjórnar rammaáætlunar við flokkun virkjanakosta, að mikið framboð sé á viðskiptavinum á sviði orkufreks iðnaðar ( les: orkubruðlsiðnaðar ) og þjóðarnauðsyn sé að selja þeim eins mikla og ódýra orku og mögulegt sé og afgreiða "biðröðina" hratt. 

Þetta kom strax fram 2008 þegar þeir sem höfðu eitthvað við það að athuga að setja niður tvær risavaxnar olíuhreinistöðvar á Vestfjörðum voru stimplaðir sem "óvinir Vestfjarða." 

Samt blasti við að hvergi á Vesturlöndum vildi neinn fá slíkan óhroða til sín, enda hefur ný olíuhreinsistöð ekki risið þar í meira en aldarfjórðung.

 

Fortíð umsækjenda um orkuna virðist litlu máli skipta, hvort sem það eru skúffufyrirtæki í eigu óþekktra rússneskrar oligarka eða fyrirtæki kennitöluflakkara með ljótan feril að baki á Vesturlöndum.

Því síður er tekið mark á eindreginni andstöðu ferðaþjónustunnar, öflugasta atvinnuvegs þjóðarinnar gegn því að mesta verðmæti landsins, einstæð náttúra, verði útleikin eins og stóriðjufíklarnir sækjast skefjalaust eftir.

Nei, "orkufrekur iðnaður" er mærður sem undirstaða velmegunnar þjóðarinnar og "forsenda fyrir atvinnusköpun" þótt innan við 1% af vinnuafli landsmanna starfi við hann, en hins vegar 14% starfi beint við ferðaþjónustuna sem þar að auki gefur meira en tvöfalt meiri virðisauka inn í samfélagið en stóriðjan.  


mbl.is Sögðu ekki „neitt vit“ í lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband