Þekktur suðupottur. Þarf að lengja um 150 metra.

Flugvallarstæðið á Ísafirði væri hugsanlega í hópi tíu glæfralegustu flugvallarstæða heims ef það væri þekkt erlendis. Eða í það minnsta í hópi 20 glæfralegustu flugvallarstæðanna.

Engin leið er að fljúga beint að flugbrautarendunum fyrr en nánast í lendingunni sjálfri og beygjuhringurinn í aðflugi og fráflugi af innri endanum er þröngur og liggur yfir öxl utan í fjallinu Kubba. Drepist á öðrum hreyflinum til dæmis þeim "verri", sem er hægra megin í þessu tilviki, þarf ítrustu færni flugmanna til þess að halda áfram og ekkert má vera að vindaðstæðum. 

Ef vindur stendur á einhvern hátt ofan af fjallinu, sem völlurinn stendur undir, getur myndast misvindi bæði í aðfluginu og á vellinum sjálfum.

Beint fyrir ofan flugstöðina er stór hvilft í fjallinu, svonefnd Naustahvilft, sem skapar oft hálfgerðan suðupott fyrir neðan sig ef vindur stendur á einhvern hátt niður hana eða á ská ofan í hana.

Mikil gæfa hefur fylgt þessum flugvelli.

Atvikið nú síðdegis er aldeilis furðulegt því að hvergi á veðurathugunarstöðvum á Vestfjörðum var að sjá meiri vind en 35 hnúta í hviðum Og þó. Í hviðum komst vindur upp í 50 hnúta í Æðey innar við Ísafjarðardjúpið og hafi slíkur vindsveipur skollið skyndilega á vélinni, og jafnvel komið hnútar af þeirri stærð úr fleiri áttum á Ísafjarðarflugvelli gæti slíkt hafa átt sér stað.   

Í lendingu út fjörðinn skapar misvindi oft erfiðleika sem geta valdið því að vélarnar lenda langt inni á braut. Í slíkum tilfellum gæti skipt sköpum að lengja ytri enda brautarinnar um 150 metra.

Sama lenging kæmi að góðum notum í flugtaki inn fjörðinn ef eitthvað ber út af í flugtaksbruninu eða í beygjunni yfir öxlinni á Kubbanum.

Þótt brautin sé nú 1500 metra löng eru aðstæður þarna þannig að það er þörf á því að lengja hana vegna þeirra óvæntu skilyrða sem oft koma upp. Getur varla verið svona óskaplega dýr, þessi lenging. 

Einu sinni sprakk hreyfill í flugtaki út fjörðinn en þá voru skilyrðin góð. 

 

Ég hef áður bent á þetta en ekkert gerist. Fyrr en eitthvað kemur kannski upp á og menn vakna upp við vondan draum.   


mbl.is Hviða feykti vélinni í hálfhring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmar fréttir næstu vikuna fyrir norðan.

Veðurgæðum verður ansi misskipt áfram á milli landsmanna. Í næstu viku verður að vísu hlýtt og bjart veður á Suðurlandi, en hálendið og norðan- og austanvert landið verða áfram í svölu loft. 

Sumarið á þess vegna eftir að láta bíða enn lengra eftir sér á þessum meirihluta landsins og þykir mörgum þar áreiðanlega nóg um. 

Kemur þá fyrir lítið þótt í þessum landshlutum hafi veðrið verið hlýrra en í meðallagi lengst af í vetur.

Suðvestlægar vindáttir í vetur gerðu það að verkum að á stóru svæði á hálendinu norðan Vatnajökuls er minni snjór en undanfarna vetur, þannig að það má búast við því að jörð þiðni og þorni fljótt ef það snýst yfir í hlýjan sunnan hnjúkaþey.  


mbl.is Bjartir dagar framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sundurlyndisfjandi" byggður á misskilningi.

Sundurlyndisfjandinn var ágætis orð sem notað var um deilurnar innbyrðis meðal Íslendinga á tímum sjálfstæðisbaráttunnnar. Hann lifir því miður góðu lífi enn varðandi togstreitu hópa, sem mynda tvo póla andstæðra skoðana á byggðamálum og sést á ferli í pistlum á netinu þessa daga. 

Hávær hópur hefur haldið því fram með köldum stærðfræðilegum rökum að helst þyrfti að sópa öllu fólki á Íslandi í háreista byggð sem næst gömlu miðborginni í Reykjavík. 

En svona köld og einstrengisleg stærðfræði varðandi það að Ísland verði að vera borgríki, samþjappað við sunnanverðan Faxaflóa, gengur ekki upp. Því að ef henni væri beitt til fulls, myndi vera hægt að reikna það út að það borgaði sig og ætti að vera keppikefli að flytja helst alla Íslendinga til London eða New York og gera Ísland að fámennri veiðistöð með stóriðjuívafi.

Hinn hópurinn heldur því fram að þau 65% þjóðarinnar sem búa á höfuðborgarsvæðinu séu afætur á kostnað 35% hennar. Þessi 35% "skaffi" á þann hátt að á landsbyggðinni sé öll stóriðjan, ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn.

Skilgreiningin "lattelepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík" hefur verið gert að skammaryrði. En samkvæmt hugsuninni að baki henni voru Jón Sigurðsson og Fjölnismenn öl-lepjandi bjórkráalýður í Kaupmannahöfn. 

Þessi rök halda heldur ekki vatni. Prófessor við Háskólann á Akureyri, á svæði sem flestir skilgreina sem landsbyggðardreifbýli, greindi í fróðlegum fyrirlestri frá alþjóðlegri skilgreiningu á virku borgarsamfélagi, VBS, eða FUA, Functional Urban Area á ensku:

VBS er samfélag með minnst 15 þúsund íbúa þar sem tekur 45 mínútur eða skemmri tíma að fara frá jaðri til miðju.

Þar með nær höfuðborgarsvæðið langleiðina í Borgarnes, austur að Þjórsá og suður á Suðurnes, og á því svæði búa 70% þjóðarinnar. Þetta svæði er í raun eitt atvinnusvæði. Á því svæði eru 60% af stóriðjunni og meira en helmngur af ferðaþjónustunni og sjávarútveginum.

Þess utan er annað VBS, borgarsamfélagið Eyjafjörður sem nær vestur á Öxnadalsheiði, langleiðina til Húsavíkur og norður og suður fjörðinn og dalinn sem bera nafn Eyjafjarðar.

Auk þess má segja að meðan Reykjavíkurflugvöllur er þar sem hann er, sé Akureyri innan VBS Reykjavíkur.

Það eru sem sé tvö virk borgarsamfélög á Íslandi og stærstur hluti VBS á Norðurlandi er innan VBS á Suðvesturlandi og því eru samanlagt um 75% landsmanna innan þessa stóra svæðis.

Sundurlyndisfjandinn, sem blásinn hefur verið upp, og einnig kjördæmaskipunin, byggjast á úreltu mati og misskilningi á báða bóga.    

Tilvera íslenskrar menningar og þeirrar sjálfsvitundar sem nauðsynleg er sjálfstæðri þjóð byggist á því að eyða þessum sundurlyndisfjanda og taka undir með framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Eyjum, að við séum öll á sama báti og gegnum öll jafn mikilvægu hlutverki í því að skapa samfélag á Íslandi, sem sé samkeppnisfært við það besta hjá öðrum þjóðum, - 

"...sendum út á sextugt djúp

 sundurlyndisfjandann." 

eins og það var orðað á sínum tíma. 


mbl.is Öll í báti sem heitir íslensk þjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta maður að meiri.

Stjórnmálamenn taka oft sterkt til orða eins og rakið er í næsta pistli á undan þessum. 

Skammarheitið mafía er stundum notað um hópa fólks eða fyrirtækja sem hafa innbyrðis leynileg tengsl í umdeilanlegum fjárhagslegum eða hagsmunalegum málum og hefur þungi orðsins minnkað miðað við ítölsku mafíuna þar sem manndrápum var beitt af engri miskunn. 

Ýmislegt misjafnt og umdeilanlegt hefur gerst í fjármálalífi í Reykjavík sem myndi ekki vera vel tekið af öllum Reykvíkingum að yrði hermt upp á Reykjavík og Reykvíkinga alla með því að segja að Reykjavík sé Sikiley Íslands, rétt eins og Skagfirðingum er ekki sama um það að sagt sé að Skagafjörður sé Sikiley Íslands. 

Nú hefur Birgitta Jónsdóttir viðurkennt að hafa tekið óheppilega til orða og beðið Skagfirðinga afsökunar á því.

Er hún maður að meiri fyrir það.

Því að það eru ekki allir sem fást til þess. Að minnsta kosti fékkst formaður Framsóknarflokksins ekki til þess hér um árið. 

 


mbl.is Skagafjörður: Fyrirgefðu!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband