Þekktur suðupottur. Þarf að lengja um 150 metra.

Flugvallarstæðið á Ísafirði væri hugsanlega í hópi tíu glæfralegustu flugvallarstæða heims ef það væri þekkt erlendis. Eða í það minnsta í hópi 20 glæfralegustu flugvallarstæðanna.

Engin leið er að fljúga beint að flugbrautarendunum fyrr en nánast í lendingunni sjálfri og beygjuhringurinn í aðflugi og fráflugi af innri endanum er þröngur og liggur yfir öxl utan í fjallinu Kubba. Drepist á öðrum hreyflinum til dæmis þeim "verri", sem er hægra megin í þessu tilviki, þarf ítrustu færni flugmanna til þess að halda áfram og ekkert má vera að vindaðstæðum. 

Ef vindur stendur á einhvern hátt ofan af fjallinu, sem völlurinn stendur undir, getur myndast misvindi bæði í aðfluginu og á vellinum sjálfum.

Beint fyrir ofan flugstöðina er stór hvilft í fjallinu, svonefnd Naustahvilft, sem skapar oft hálfgerðan suðupott fyrir neðan sig ef vindur stendur á einhvern hátt niður hana eða á ská ofan í hana.

Mikil gæfa hefur fylgt þessum flugvelli.

Atvikið nú síðdegis er aldeilis furðulegt því að hvergi á veðurathugunarstöðvum á Vestfjörðum var að sjá meiri vind en 35 hnúta í hviðum Og þó. Í hviðum komst vindur upp í 50 hnúta í Æðey innar við Ísafjarðardjúpið og hafi slíkur vindsveipur skollið skyndilega á vélinni, og jafnvel komið hnútar af þeirri stærð úr fleiri áttum á Ísafjarðarflugvelli gæti slíkt hafa átt sér stað.   

Í lendingu út fjörðinn skapar misvindi oft erfiðleika sem geta valdið því að vélarnar lenda langt inni á braut. Í slíkum tilfellum gæti skipt sköpum að lengja ytri enda brautarinnar um 150 metra.

Sama lenging kæmi að góðum notum í flugtaki inn fjörðinn ef eitthvað ber út af í flugtaksbruninu eða í beygjunni yfir öxlinni á Kubbanum.

Þótt brautin sé nú 1500 metra löng eru aðstæður þarna þannig að það er þörf á því að lengja hana vegna þeirra óvæntu skilyrða sem oft koma upp. Getur varla verið svona óskaplega dýr, þessi lenging. 

Einu sinni sprakk hreyfill í flugtaki út fjörðinn en þá voru skilyrðin góð. 

 

Ég hef áður bent á þetta en ekkert gerist. Fyrr en eitthvað kemur kannski upp á og menn vakna upp við vondan draum.   


mbl.is Hviða feykti vélinni í hálfhring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óhapp vegna óvænts aukins vinds á vellinum 2011. Eitt af þessum sem hver sem er hefði getað lent í.

http://ww2.rnf.is/media/skyrslur/2011/M-01611-AIG-13,-flugslys-TF-SUE-a-Isafjardarflugvelli,-Rannsoknarskyrsla.pdf

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 31.5.2015 kl. 23:42

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Vindur fór í 22,3 m/s í hviðu á veðurstöðinni á Ísafirði milli kl. 14 og 15 í dag - og mesta hviða sólarhringins í Æðey var 33,1 m/s - að vísu síðastliðna nótt - en hviður eru mjög tilviljanakenndar. Á veðurstöðinni á Þverfjalli gekk yfir hrina með samfellt meira en 20 m/s milli kl. 16 og 17 - mesta hviða þar var 26,6 m/s.

Trausti Jónsson, 1.6.2015 kl. 00:49

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það gildir það sama með Ísafjarðarflugvöll og Reykjavíkurflugvöll. Báðum þarf að loka áður en stórslys verður. Þingeyrarflugvöllur er aðeins í 35 mínútna akstursfjarlægð frá Ísafirði og á sama hátt er Keflavíkurflugvöllur í 30-45 mínútna akstursfjarlögð frá Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Þingeyrarflugvelli er ekki haldið við vegna áhugaleysis heimamanna sem virðast skeyta lítt um öryggisþáttinn. Eftir að göngin opnuðu örugga leið vestur um, þá hélt ég að einsýnt væri að gera Þingeyrarflugvöll að aðalflugvelli og leggja Ísafjarðarflugvöll niður en það þarf því miður stórslys til að svo verði.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.6.2015 kl. 01:24

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Áhugaleysis heimamanna um öryggisþáttinn? Spilar ekki kostnaður þar máli og þar með áhugi stjórnenda í sýslunni. Alls ófróð um flug,sé ég ekki betur en þarna sé vítt til fjalla og ég hafði heyrt að í þessu sveitafélagi mínu,væri kjöraðstaða fyrir millilandaflug. Það er svo undir fjárveitingavaldinu komð hvort slíkur völlur verði lagður í náinni framtíð.

Helga Kristjánsdóttir, 1.6.2015 kl. 06:02

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

 Með heimamönnum á ég við sveitastjórnina sem situr á Ísafirði. Því þótt búið sé að sameina svæðið í eitt sveitarfélag þá virðast menn ekki líta á Þingeyri, Flateyri og Súgandafjörð sem jafngild Ísafirði þegar kemur að hagsmunagæslu gagnvart ríkinu. Dæmi: hnignun útgerðar. Flugið er svo hitt. Ef menn hefðu trú á Vestfjörðum og smá framsýni þá myndu menn byggja upp flugvöllinn á Þingeyri en ekki á Ísafirði. Með jarðgöngum sem tengja saman suðurfirðina og norður sýsluna þá verður Þingeyri miðsvæðis og þess vegna á flugvöllurinn að vera þar. Farþegum mun fjölga og alls kyns þjónusta fylgir svo í kjölfarið. Núna velja fleiri að keyra vestur frekar en fljúga á  Ísafjörð og það líka þótt flugfært sé og hvað segir það okkur?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.6.2015 kl. 10:44

6 identicon

Mig minnir að það hafi verið sumarið 1994 en þá starfaði ég sem flugmaður hjá Flugfélaginu Ernir á Ísafirði. Grímur Jónsson, loftskeytamaður, var í turninum þann dag. Suð-suð austan átt var þennan dag og þeir sem til þekkja að þá er ófært á Ísafirðiað öllu jöfnu þegar vindur stendur af þeirri áttinni. Logn var þennan dag og hreyfsust vindmælar ekki hjá Grími, en þeir voru 3 á þeim tíma. Þar sem ég sit við símann hjá Flugfélaginu Ernir verður mér litið upp fjallið Ernir, ofan flugstöðvarinnar. Sé ég þá rykbólstra mikinn koma niður hlíðina beint ofan flugstöðvarinnar. Skaust ég þá upp í turn til Gríms og rétt náði upp til hans áður en hviðan skall á flugstöðinni. Í turninum var síriti og minnir mig að hæðsta mæligildi hafi verið 70 hnútar. Hviðan fór yfir stöðina og yfir tjarnir á leið sinni út á Pollinn. Fór hún yfir vindmæli sem stóð í einni tjörninni (miðjumælin). Síritin fór úr 0 hnútum í botn þegar hviðan renndi sér yfir vindmælinn, stóð þar örlitla stund og svo aftur í 0 hnúta. Annað gerðist ekki þennan daginn á Ísafjarðarflugvelli, en ótrúlegt var á að horfa (og Grímur heitinn bölvaði mikið :) ).

Egill Ibsen (IP-tala skráð) 1.6.2015 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband