"You ain´t seen nothing yet" - aftur ?

Ofangreind setning íslensk ráðamanns sem hann mælti í hóp erlendra áhugamanna, varð fleyg í uppsveiflunni í aðdraganda Hrunsins.

Nú er verið að segja á ný það sama, - bara með öðrum orðum: "Íslenska hagkerfið virðist á tímamótum eftir fjögurra ára hóflegan vöxt."

Og í framhaldinu er því lýst, að tímamótin felist í því að hagvöxturinn verði ekki lengur hóflegur, heldur taki hressilega á sprett.

Sagt er að hagtölurnar núna líkist hagtölunum 2007, þegar auglýst var "traust efnahagsstjórn" - "áfram, ekkert stopp",en nú fari hagvöxturinn að aukast stórlega, - með öðrum orðum, "you ain´t seen nothing yet!"

Gefið er í skyn að í þetta sinn verði þessi komandi þensla góð en ekki vond, af því að hún muni ekki byggjast á lántökum eins og 2007.

Trúin á ofurþensluna, ofurhagvöxtinn, sem geti enst til eilífðar, efnahagslegt fyllerí án hættu á timburmönnum, virðist vera að eflast og styrkjast.

Enn er gullkálfurinn kominn inn á gólfið og það verður slegið upp balli með dansi í kringum hann í vímu, sem menn trúa að aldrei muni slá á né nokkur fráhvarfseinkenni eða timburmenn fylgja.     


mbl.is Uppsveiflan rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þið eruð kynslóðin sem byrjar að þrífa upp..."

"Þið eruð kynslóðin, sem byrjar að þrífa upp jörðina eftir okkur! 

Þið eruð kynslóðin sem lætur nýja sýn fæðast!"

 

Þetta, eitthvað þessu líkt, kemur upp í hugann þegar horft er yfir hina glæsilegu ungu kynslóð, sem er að vaxa upp, - litið á lista yfir tíu framúrskarandi unga Íslendinga og þeim sendar hamingjuóskir.  

Þessar tvær ofangreindu setningar eru mjög lausleg íslensk þýðing á upphafi ensks texta við lag, sem ég hef lokið við að semja.

Hann er fyrsti heili lagatextinn á ensku, sem ég geri, af því að honum og laginu er ætlað að birtast á netinu, ef það verður mögulegt, og verða hluti af aðgerðinni "Orkuskipti-koma svo!"  

Kveikjan að honum voru þær tæplega þrjár mínútur þegar brunað var á 90 kílómetra hraða á reiðhjóli niður Botnastaðabrekkuna í átt að Bólstaðarhlíð, eftir að hafa átt í mesta basli klukkustundum saman við að silast langar og brattar brekkur upp á tvo fjallvegi á leiðinni frá Akureyri.

Einnig að fylgjast með fólkinu í hjólreiðakeppninni miklu umhverfis landið, sem fram fór fyrr í sumar, ákafa þess, eldmóði og sálar- og líkamsþreki. 

Textinn er með reiðhjól sem einfalt miðlægt tákn, sem síðar breiðist út, og tileinkaður þeim þremur kynslóðum fólks, sem nú byggja jörðina og við blasa tröllaukin viðfangsefni.

Upphaf hans "á frummálinu" er svona: 

 

"We are the generations that start cleaning up the earth ! 

We are the generations that shall give new vision birth

by spurting over obstacles up every slope and hill

with endurance and ever growing faith and strength and will ! 

 

Jibbíæó! Come on, let´s have fun !  Jibbíæei! Daughter and son !

Bicycles on the run !"

 

  

 


mbl.is Tíu framúrskarandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hliðstæða stórra fiskvinnslufyrirtækja.

Ferðaþjónustan er margslunginn atvinnuvegur sem Íslendingar eru í raun að kynnast til hlítar í fyrsta sinn. 

Þarfirnar eru misjafnar. Einstæð náttúra á víðernum landsins krefst friðunar og varðveislu ósnortins umhverfis með sem mestri kyrrð og friði. 

Á hinn bóginn er þörf fyrir góð og stór hótel og aðra aðstöðu og þæginda fyrir ferðamenn utan marka þjóðgarða og friðaðra svæða og sú þörf kemur nú í ljós þegar ferðamönnum hefur fjölgað jafn mikið og raun ber vitni. 

Muninum á góðum hótelum í byggð og einföldum fjallakofum og skálum í óbyggð má líkja við muninn á fullkomnum og stórum fiskvinnslustöðvum í grennd við myndarleg hafnarmannvirki annars vegar og einföldum og litlum mannvirkjum við smábátahafnir hins vegar.

Fara þarf að með mikilli gát í mannvirkjagerð, staðsetja þau í réttu og viðeigandi umhverfi og verður það vonandi gert á Brunasandi. 

Ferðaþjónustan er nú orðin stærsti atvinnuvegur landsins. Svo er að sjá sem sumir grípi þessa staðreynd alls ekki. Þannig nefndi formaður atvinnuveganefndar Alþingis aðeins sjávarútveginn og orkuiðnaðinn sem helstu auðlindir landsins í viðtali nýlega, rétt eins og ferðaþjónustan væri ekki til. 


mbl.is Risahótel á Brunasandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband