Einn stöðugur þverpólitískur meirihluti í 56 ár.

Einn stöðugur þverpólitískkur meirihluti hefur verið á Alþingi síðan í október 1959. Hann skipa þingmenn, sem geta setið í rólegheitum fyrir framan kosningasjónvarpið, fullvissir um að kosningarnar skipta þá sjálfa engu máli, - þeir eru í "öruggu sæti."

Þetta er vegna þess að val kjósenda á þingmönnum fer ekki beint fram í kjörklefanum, heldur hefur verið raðað niður á framboðslistana mörgum vikum fyrir kosningarnar í prófkjörum, á kjördæmisþingum og flokksfundum eða með uppstillingarnefndum.

Meðvitað eða ómeðvitað hefur þetta verið undirliggjandi ástæða fyrir tregðunni við því að breyta nokkru í kosningalögunum í lýðræðisátt.

Í fyrri kosningunum 1959 féll forsætisráðherrann í kjördæmi sínu og forseti Sameinaðs alþingi líka í sínu kjördæmi. 

Prófkjörin eru meingölluð og komin hefð fyrir þeirri siðlausu hegðan að "smala" í opnum prófkjörum utanflokksfólki inn á kjörskrár flokkanna og síðan hafa viðkomandi sagt sig úr flokkunum eftir prófkjörin.

Reglur um útstrikanir eru meingallaðar enda hagga þær yfirleitt engu um það, hverju komast á þing.

Þar að auki er aðferðin neikvæð, - það er verið að toga frambjóðendur niður.

Mun betra er að hafa jákvæða aðferð, - það er, að þeir verði efst á listum sem fá mestan stuðning.

Í ofanálag geta engir haft áhrif á röðina nema þeir sem kjósa listann í leynd kjörklefans.

Furðulegt er að sjá mótbárurnar gegn því að auka lýðræði á þennan hátt frá mönnum sem aðhyllast sem mest fulltrúalýðræði.

En það er hið fullkomna fulltrúalýðræði að kjósendur feli vald sitt beint til þeirra frambjóðenda sem þeir treysta best, - en það er eins og sumir geti með engu móti sætt sig við þetta.     


mbl.is Vilja persónukjör í kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær aldrei er minnst á hlut innflytjenda í atvinnulífinu.

Athyglisvert er að nær öll umræða um vandamálin, sem við er að glíma varðandi innflytjendur í norðanverðri Evrópu, snýst um það að þeir séu upp til hópa það, sem kallað er hyski á Íslensku, ómenntaðir, séu mun meiri baggi á velferðarkerfinu en norrænir innfæddir, - innflytjendurnir séu lágt launaðir, með hærra atvinnuleysi og meiri glæpatíðni, en hið norræna fólk, sem fyrir er í álfunni.

Það er líka athyglisvert að flest þessi atriði hafa áratugum saman verið notuð gegn blökkufólki í Ameríku og innflytjendum frá rómönsku Ameríku, og því bætt við að það sé illa hirt, skítugt og allt önnur og verri lykt sé af því en hvíta fólkinu.

Nær aldrei er minnst á það að ástæða þess hve lágt launað þetta fólk er er sú, að þegar það flytur inn í landið verður það að taka að sér störf sem hið eðalborna norræna fólk vill ekki vinna.

Þannig hafa innfluttir Tyrkir verið undirstaðan undir verksmiðjuframleiðslu og lágt launuðum þjónustustörfum í Þýskalandi og á ákveðnum landssvæðum og í ákveðnum störfum á Íslandi hefur það sama verið uppi á teningnum.

Ekki er heldur minnst á hlut vel menntaðra innflytjenda í menningu norrænu landanna, en mörg dæmi um slíkt má nefna hér á landi.

Það er svosem ekki nýtt fyrirbæri.  Á tónlistarsviðinu á Íslandi áttu erlendir innflytjendur stóran þátt í framförum á árunum 1930-1950, svo sem Viktor Urbancis, Fritz Weihappel, Róbert Abraham Ottóson, Jan Moravek, Carl Billich, Tage Möller, Franz Mixa, Jose M. Riba og Josef Felsmann, svo að einhverjir séu nefndir.     


mbl.is Vegabréf, takk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt herbragð.

Það er gamalkunnugt herbragð að þegar þing fjalla um nýja löggjöf um umbótamál, sem hrófla við sterkum afmörkuðum valdahagsmunum, bíði talsmenn þeirra eftir síðustu mánuðum, vikum eða dögum þingsins til þess að gera vel skipulagða atlögu að hinni nýju löggjöf til þess að fella hana.

Þegar ég kom til Kaliforníu í fyrsta sinn 1968 sást vart út úr augum fyrir bræluþoku (smog) sem varð til þess að maður hóstaði og súrnaði í augum.

Byrjað var að koma í ljós að þessu fylgdu heilsufarskvillar sem kostuðu milljarða bandaríkjadala. 

 

Ástæðan var "hinn ameríski lífsstíll" að bensín væri á gjafverði og allir ækju um á sem stærstum og mest mengandi bílum.

Á þessum árum gerðist Kaliforníuríki, sem eitt og sér er með eitt af stærstu hagkerfum jarðar, brautryðjandi í mengunaraðgerðum gegn hörðum viðbrögðum og andstöðu hinna afmörkuðu, en afar fjársterku valdahagsmuna.

Kaliforníuríki setti sér nýja löggjöf varðandi mengin frá útblæstri sem úrtölumenn hömuðust gegn með fullyrðingum um að hún myndi valda miklu meiri efnahagsþrengingum og minnkun hagvaxtar en sem næmi kostnaði vegna sjúkdóma af völdum hinnar fáránlegu loftmengunar.

En yfirvöld í Kaliforníu héldu sínu striki og hafa verið í forystu í umhverfismálum í Bandaríkjunum síðan. 

Og engar af hrakspánum hafa ræst. 

Nú hefur stórfyrirtækjum tekist að nýta sér úthugsað herbragð til að bregða fæti fyrir frumvarp á Kaliforníuþingi til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis með því að nýta sér fjárhagslegan mátt sinn til að efna til stórkostlegrar herferðar gegn því á síðustu dögum þingsins og setja málið með því í óviðráðanlega tímapressu. 

Máttur auglýsinga með gríðarlegu magni af "nýjum" upplýsingum um ófarnað, ef frumvarpið yrði samþykkt, dugði til að stöðva frumvarpið, sem tók samt á því óhjákvæmilega verkefni, að bregðast við því að jarðefnaeldsneyti mun þverra á þessari öld.

Hér heima var svipuð aðferð notuð gegn umbótum á stjórnarskrá. Málinu var seinkað æ ofan í æ, fyrst með Þjóðfundi, sem var hugmynd þingmanna Sjálfstæðismanna, en valdaöfl í flokknum snerust síðan gegn þegar niðurstöðurnar voru þeim ekki að skapi. 

Í hálft ár eftir afhendingu frumvarps stjórnlagaráðs voru lappirnar dregnar svo mjög í meðferð málsins, að ekkert gerðist í því í raun.

Ráðið bað um að fengin yrði umsögn Feneyjarnefndarinnar svonefndu en því var eindregið hafnað. 

 

Síðan var beðið færis og á síðustu mánuðum þingsins 2012-13 helltust síðan yfir mótbárur og og alls kyns tafir, og þá fyrst var fengið álit Feneyjarnefndarinnar.  

Í lokin var málið drepið á þinginu og sett í allt annað ferli en þjóðaratkvæðagreiðslan í október 2012 hafði kveðið á um. 

Nú hefur þetta nýja ferli staðið í tvö ár, og á lokastigi þess nú fyrir jól, kemur forsetinn fram af fullum þunga gegn nokkrum breytingum og forsætisráðherrann segir, að alls óvíst sé hvort málið komist í gegn. 

 

  


mbl.is Olíurisar stöðva loftslagsaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband