Ævinlega spurning um hve langt eigi að ganga.

Að mörgu er að hyggja þegar gripið er til aðgerða gegn stefnu erlendra ríkja í einstökum málum. Skoða verður til dæmis vel í mannréttindamálum hve langt eigi að ganga, því að sé gengið of langt, kann það að skaða góðan málstað meira en gagnast honum. 

Ef það sést við nánari skoðun, að ráðlegast sé í ljósi nýrra upplýsinga og stöðumats að lagfæra aðgerðir, sem ákveðið hefur verið að grípa til, á að sjálfsögðu að gera það en láta samt skýrt í ljósi eftir sem áður hugsunina að baki aðgerðum svo að það liggi skýrt fyrir, að lagfæringin sé ekki gerð til að styðja mannréttindabrot. 

Nýjustu fréttir um að fjársterkir Gyðingar hyggist beita auði sínum til þess að draga til baka 15 milljarða fjárfestingu i lúxushóteli við Reykjavíkurhöfn eru vonandi ekki alls kostar réttar.

Það er erfitt að trúa því að gengið verði svo langt, því að fari málið á þann veg verður varla málstað Ísraelsmanna til framdráttar.

Fyrir liggur að í gildi er sérstök samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá 1967 varðandi ólöglegt hernám Ísraelsmanna og harkaleg framkvæmd hernámsins, sem hefur staðið í 48 ár og er skýrt brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Þótt skilgreiningu sniðgöngunnar sé breytt til samræmis við það sem aðrar þjóðir hafa gert, á það alls ekki að túlka sem breytingu á afstöðu gegn þjóðréttarlegum og mannréttindalegum brotum Ísraelsmanna.  


mbl.is Vilja að tillaga borgarstjórnar standi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurmat á eðli umbrota í Kötlu?

Skjálftahrinur í Kötlu hafa í áratugi valdið heilabrotum hjá vísindamönnum. 

Ég minnist hrinu 1999 þegar menn voru á tánum vegna hugsanlegs goss og gerðar voru ráðstafanir til að búa til viðbragðsáætlanir sem grípa mætti til. 

Síðan hafa svona hrinur komið af og til en aldrei kemur gosið, þótt nú sé liðin tæp öld frá síðasta Kötlugosi og því kominn tími á gos, ef miðað er við eldgosasögu svæðisins á sögulegum tíma. 

Uppi hafa verið kenningar um lítið eldgos undir jökli 1955 þegar hlaup kom í Múlakvísl. 

Upp á síðkastið hafa vísindindamenn verið að velta vöngum yfir því að endurmeta að hluta mat sitt á umbrotum eða jarðskjálftum í Kötlu og hlaupum undan honum niður Múlakvísl í ljósi minnkandi fargs jökulsins af völdum hlýnandi loftslags, en þetta minnkandi farg gæti útaf fyrir sig valdið jarðskjálftum og óróa. 

Þessar vangaveltur minna svolítið á þá nýstárlegu sýn á hlaup úr Grímsvötnum og Grímsvatnagos um miðja síðustu öld, að verið gæti að hlaup úr vötnunum kölluðu fram gos vegna minnkandi þrýstings á eldstöðina, þegar vatnið færi út úr Grímsvötnum, og að samspilið milli elds og íss gæti verið flóknara en áður var haldið.

Erfitt og flókið gæti verið að meta hvort kæmi fyrr, eggið eða hænan, eða öllu heldur, hvað skyldi skilgreina sem egg og hvað skyldi skilgreina sem hænu. 


mbl.is Skjálftahrina við Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa öll í níunda sæti.

Þótt flóttamannafjöldinn í Evrópu sé hinn mesti í 60 ár er álfan enn sem komið er í níunda sæti yfir þau lönd heims, sem flóttamenn hafa flust til. Efst trónir Tyrkland með tvær milljónir og Líbanon og nokkur önnur lönd utan Evrópu koma þar á eftir. 

Þessi lönd er margfalt fátækari en lönd Evrópu og má nærri geta hvað þessi mikli fjöldi flóttamanna reynir á þau þjóðfélög. 

Við lok Seinni heimsstyrjaldarinnar voru 14 milljónir manna ýmist fluttir nauðugir frá heimkynnum sínum eða flúðu af eigin hvötum. 

Ástæða þess að flóttafólkið nú veldur svona miklu umróti er sú, að um er að ræða fólk sem flytst á milli menningarheima, úr múslimsku umhverfi vanþróaðra ríkja yfir í kristið umhverfi vestrænna velferðarsamfélaga. 

Það veldur tortryggni og skapar vandamál varðandi aðlögun flóttamannanna að nýjum heimkynnum sem er vandasamari en aðlögun 14 milljóna flóttafólks fyrir 60 árum innan Evrópu.

Í þessu felst viðfangsefni sem samt verður varla komist hjá að leysa og á að vera hægt að leysa ef jákvæðni og nýting fyrri reynslu er höfð að leiðarljósi.

Tugir milljóna flóttafólks um allan heim er einfaldlega viðfangsefni 21. aldarinnar, þegar loftslagsbreytingar og gríðarlegar sviptingar vegna þverrandi auðlinda af ýmsu tagi eiga eftir að skekja heiminn.  

 


mbl.is Kynþáttahatrið sameinar þá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband