Eftir 57 ára bið.

Þetta hefur verið löng bið, 57 ár ef ég tel þau rétt, sem maður hefur beðið eftir því að sjá íslenska landsliðið komast í úrslit á stórmóti. 

Þetta byrjaði ekki gæfulega þegar Frakkar rassskelltu okkur í fyrsta leiknum sem við lékum í undankeppni og við komumst niður á jörðina. 

Síðan hafa komið glætur hér og þar, svo sem þegar við unnum Austur-Þjóðverja 2:1 í undankeppni árið 1975 og þegar við stóðum uppi í hárinu á heimsmeisturum Frakka í lok síðustu aldar.

Það er síðan langt fram úr öllum vonum að Ísland skuli vera efst í sterkum riðli þegar aðeins tveir leikir eru eftir og komnir áfram, hvernig sem þeir tveir leikir fara.

Mörg met, svo sem mesta og háværasta stemningin á vellinum og nýtt met í þáttöku í þjóðsöngnum. 

Knattspyrna er vinsælasta íþróttagrein veraldar þegar allt er lagt saman, áhugi alþýðunnar, fjárhæðirnar sem eru í spilinu og iðkun í öllum heimsálfum.

Þess vegna er þessi árangur svo magnaður.

Og svo má ekki gleyma því að í fyrstu tveimur leikjum sínum á EM í körfubolta hefur íslenska landsliðið staðið upp í hárinu á tveimur af sterkustu körfuboltaþjóðum Evrópu og rekið af sér þær úrtöluraddir, að liðið ætti ekki erindi í það sterka mót.  


mbl.is Ísland á EM í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forðast að nefna aðalatriðin.

Þótt bílaframleiðendur hafi verið duglegir og óhræddir við að ryðja brautir fyrir mikilvægar tækninýjungar, hefur margt af því ekki komið til fyrir frumkvæði þeirra, heldur vegna krafna stjórnvalda um aukna sparneytni og minni mengun.

Í bílablöðum og bókum sem ég las fyrir 60 árum var tvígengis-bensínvélinni spáð sigri yfir fjórgengisvélum og dísilvélum.

Ástæðan var augljós: Tvígengisvél kveikir tvöfalt oftar í brunahólfinu miðað við snúning vélarinnar heldur en fjórgengisvél og þess vegna ættu afköstin að verða tvöfalt meiri miðað við rúmtak vélarinnar og þyngd.

Enn í dag halda örfáar litlar tvígengisvélar velli í allra léttustu vélhjólum og flygildum, en 1955 gleymdu menn því alveg, hve miklu meira tvígengisvélin mengar heldur en sambærileg fjórgengisvél og hve fjórgengisvél er endingarbetri, - einnig því, hve miklir meiri möguleikar voru á að framleiða hraðgengari, afkastameiri og endingarbetri fjórgengisvélar.

Um og eftir 1960 hurfu tvígengisvélar að mestu úr bílum, og síðustu árin einnig úr flestum léttustu vélhjólunum.

1965 bundu menn vonir við Wankel-vélina, sem náði allt að 24 þúsund snúninga hraða á mínútu, eða fimm sinnum meiri hraða en algengar fjórgengisvélar.

Í ljós komu vandamál varðandi þéttingar í brunahólfinu og endingu vélanna, auk þess sem erfitt var að minnka mengun frá þeim.  

Gríðarlegar framfarir urðu eftir 1980 í smíði dísilvéla þegar tókst með bættri forþjöpputækni og betri innspýtingu að auka afköstin lygilega, þannig að á boðstólum væru dísilvélar sem afköstuðu 100 hestöflum á hvern lítra rúmtaks.

Bæði bensín- og dísilvélar tóku miklum framförum við innreið fjögurra ventla tækni í stað tveggja ventla í hverju brunahólfi

Fyrir fáum árum var sigri dísilvélanna spáð, en þá komu Fiat með Twin Air og Ford með Ecoboost, þar sem innspýtingar- og forþjöpputæknin var stórbætt, þannig að fjórgengis-bensínvélin er enn á lífi.

Fulltrúi Benz á ráðstefnu Advania fór mikinn í því að spá byltingunni, sem í vændum væri þegar sjálfkeyrandi bílar ryddu sér til rúms og var engu líkara en hann héldi að með þeim yrði umferðartöfum og teppum útrýmt.

En sjálfkeyrandi bílar geta aldrei aukið rýmið á götum og bílastæðum, þótt þeir geti aukið hagkvæmnina í því hvernig umferðin gengur fyrir sig.

Bílar fara almennt enn stækkandi. Minnstu bílgerðirnar sem voru 3,40 x 1,50 fyrir nokkrum árumm, 5 fermetrar, eru orðnir 3,65 x 1,65, eða 6 fermetrar. Það er 20% stækkun.

Meðalstórir bílar, (Golf-flokkurinn í Evrópu) sem voru 4,00 x 1,60 fyrir 25 árum, 6,4 fermetrar, - eru orðnir 4,35 x 1,77 eða 7,7 fermetrar. Það er líka 20% stækkun.

Það er einkum lenging bílanna sem skapar umferðarvandamál, því að með henni þarf hver bíll lengra rými á malbikinu. 100 þúsund bílar aka um Miklubrautina á dag. Ef meðallengd þeirra minnkaði um hálfan metra, myndu 50 kílómetrar af malbiki verða auð á hverjum degi, sem annars eru þaktir bílum.

Flestir bílar í efri meðalstærð hafa breikkað úr 1,60 upp í 1,85. Það veldur vaxandi vandræðum í þröngum bílastæðum, sem helst þyrfti að breikka, en þar með að fækka þeim.

Bílar hafa ekki aðeins stækkað með árunum, þeir hafa þyngst um allt að 40% yfir línuna.

Golf var 750 kíló til 1980, en er nú að meðaltali 1150 kíló eða meira.

Þótt bílaframleiðendur hafi náð svo miklum árangri í sparneytnari bílvélum, að Golf 2015 eyði allt að 40% minna en Golf 1980, breytir það ekki því, að ef bílarnir væru 40% léttari myndu þeir eyða enn minna.

Benz, BMW, Audi, Toyota, Ford og GM hagnast því meira sem þeir geta fengið kaupendur til að kaupa dýrari og fleiri bíla.

Þess vegna hafa þeir engan áhuga á því að minnka bílana, enda enginn þrýstingur frá stjórnvöldum um að gera það í sama mæli og var og hefur erið varðandi sparneytni og mengun.

Þeir forðast því að nefna aðalatriðið, varðandi það sem ekki verður komist hjá að gera þegar óhjákvæmileg orkuskipti og vaxandi umferðartafir og teppur ganga í garð.   


mbl.is Benz verði ekki hestvagnaframleiðandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla Kaldastríðsmódelið í fullu gildi.

Í sextíu ár hefur ákveðið Kaldastríðsmódel verið í gildi í Miðausturlöndum. Í stríðum Arabaríkjanna við Ísraelsmenn 1956 og 1967 notuðu Ísraelsmenn franskar herþotur og í Yom Kippur stríðinu 1973 og átökum æ síðan, hafa Bandaríkjamenn sent Ísraelsmönnum herþotur og önnur hergögn. 

Þeir hafa veitt Sádi-Aröbum og fleiri mikilvægum olíuríkjum hæfilega hernaðaraðstoð, en allan tímann hafa Sýrlendingar verið á lista helstu og tryggstu stuðningsmanna Sovétríkjanna, "heimsveldis hins illa" eins og Reagan kallaði þau, og síðar Rússa.  

Arabaríkin hafa í sextíu ár fengið herþotur og herbúnað frá Sovétríkjunum og Rússar hafa stutt ráðamenn í Sýrlandi allan þennan tíma. 

Þegar "Arabíska vorið" hófst 2010 og breiddist út til Sýrlands, var gömlu risaveldunum um megn að breyta um hegðun. Bandaríkjamenn studdu uppreisnarmenn, að vísu með hangandi hendi, því að sumir ráðgjafar Obama vöruðu við því, að íslamískir öfgatrúarmenn myndu hagnast mest á því.

Rússar hafa verið staðfastir eins og ævinlega í stuðningi við Assad, þrátt fyrir harkalega einræðisstjórn hans og Alavi minnihlutans í landinu, því að hvort tveggja er, að þeir sjá ekki fyrir sér skárri kost og er einnig um megn að stíga út úr gamla Kaldastríðsmódelinu.

Á bakvið við þetta fastmúraða hernaðarástand er síðan hergagnaiðnaðurinn vestan hafs og austan sem græðir því meira, sem hernaðurinn er stöðugri og meiri.

Þannig hefur það verið allar götur síðan Eisenhower Bandaríkjaforseti lýsti því sem alvarlegri ógn, hvað hergagnaiðnaður Bandaríkjanna hefði orðið mikil tök á stjórnmálum þar í landi.  

 


mbl.is Óttast aðkomu Rússa í Sýrlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það óþægilegasta í rallkeppni erlendis.

Það var ákveðin ný lífsreynsla að keppa í erlendri rallkeppni 1981, nánar tiltekið í Sænska rallinu, sem er og hefur verið hluti af heimsmeistarakeppninni. 

Einkum var tvennt óþægilegt við þessar framandi aðstæður. 

Í fyrsta lagi sú mergð áhorfenda sem víða var alveg við ökuleiðina. Sænska rallið er vetrarrall og enda þótt leyfilegt sé að vera á miklu öflugri nöglum á sérhönnuðum, mjóum hjólbörðum, er skiljanlega það hált víða að aðgæslu sé þörf. 

Hér heima var tilhugsunin um að lenda útaf ekki nærri því eins óþægileg og þarna í hinu vinsæla sænska ralli, sem dregur að sér þúsundir áhorfenda meðfram keppnisleiðunum.

Nálægð áhorfenda við sérleiðir rallmóta erlendis hefur verið of mikil, þótt furðu lítil slys hafi orðið, miðað við hve gríðarlega mörg þessi mót eru og fjölsótt. 

Það hlaut að koma að því að stórslys yrði og eitthvað verður að gera í þessu máli. 

 

Í öðru lagi var óþægilegt að koma frá hinum skóglausu leiðum á Íslandi og aka á ofsahraða innan í þéttum skógum Varmalands þar sem trén voru alveg við leiðirnar og því ekki gæfulegt að lenda á einhverju þeirra ef illa færi.

Við bræðurnir vorum feður alls tíu barna og tilhugsunin um tólf manns í fjölskyldum okkar var sterk í nálægð hinna sterku trjáa.

Að vísu var hægt að "lesa" leiðina svolítið framundan með því að horfa upp fyrir sig á það hvernig lega trjátoppanna framundan var og bregðast við því.

Engu að síður lenti bíllinn einu sinni alveg útaf veginum, en tókst að koma honum aftur upp á veginn. Feginn var ég að ekkert tré stóð þar sem þetta gerðist.

Ári síðar varð eina banaslysið, sem hefur tekið líf íslensks ökumanns, þegar bíll Hafsteins Haukssonar lenti á tré í rallkeppni í Englandi. 

Þá vöknuðu óþægilegar minningar frá keppninni í Svíþjóð.  


mbl.is Sex rallí áhorfendur létust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband