Það óþægilegasta í rallkeppni erlendis.

Það var ákveðin ný lífsreynsla að keppa í erlendri rallkeppni 1981, nánar tiltekið í Sænska rallinu, sem er og hefur verið hluti af heimsmeistarakeppninni. 

Einkum var tvennt óþægilegt við þessar framandi aðstæður. 

Í fyrsta lagi sú mergð áhorfenda sem víða var alveg við ökuleiðina. Sænska rallið er vetrarrall og enda þótt leyfilegt sé að vera á miklu öflugri nöglum á sérhönnuðum, mjóum hjólbörðum, er skiljanlega það hált víða að aðgæslu sé þörf. 

Hér heima var tilhugsunin um að lenda útaf ekki nærri því eins óþægileg og þarna í hinu vinsæla sænska ralli, sem dregur að sér þúsundir áhorfenda meðfram keppnisleiðunum.

Nálægð áhorfenda við sérleiðir rallmóta erlendis hefur verið of mikil, þótt furðu lítil slys hafi orðið, miðað við hve gríðarlega mörg þessi mót eru og fjölsótt. 

Það hlaut að koma að því að stórslys yrði og eitthvað verður að gera í þessu máli. 

 

Í öðru lagi var óþægilegt að koma frá hinum skóglausu leiðum á Íslandi og aka á ofsahraða innan í þéttum skógum Varmalands þar sem trén voru alveg við leiðirnar og því ekki gæfulegt að lenda á einhverju þeirra ef illa færi.

Við bræðurnir vorum feður alls tíu barna og tilhugsunin um tólf manns í fjölskyldum okkar var sterk í nálægð hinna sterku trjáa.

Að vísu var hægt að "lesa" leiðina svolítið framundan með því að horfa upp fyrir sig á það hvernig lega trjátoppanna framundan var og bregðast við því.

Engu að síður lenti bíllinn einu sinni alveg útaf veginum, en tókst að koma honum aftur upp á veginn. Feginn var ég að ekkert tré stóð þar sem þetta gerðist.

Ári síðar varð eina banaslysið, sem hefur tekið líf íslensks ökumanns, þegar bíll Hafsteins Haukssonar lenti á tré í rallkeppni í Englandi. 

Þá vöknuðu óþægilegar minningar frá keppninni í Svíþjóð.  


mbl.is Sex rallí áhorfendur létust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband