Enginn samsinnti forsetanum, flestir þögðu en Birgitta andmælti.

Enginn ræðumaður í umræðum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra samsinnti þvi´sem kom fram í ræðu forseta Íslands í dag. Þeir þingmenn, sem minntust á stjórnarskrármálið, töluðu um að stefnt væri að frumvarpi um það sem lagt yrði fyrir þjóðina samhliða forsetakosningum næsta sumar.

Flestir minntust ekki á málið, en það fór eins og talið var líklegt í bloggpistli hér á síðunni fyrr í dag að Píratar yrðu ekki hljóðir um málið, - Birgitta Jónsdóttir andmælti forsetanum ákveðið.

Þess má geta, að stjórnarskrármálið hefur verið í sérstakri vinnslu í fimm ár samfleytt allt frá því sérstök sérfræðinganefnd vann að málinu í marga mánuði og skilaði 800 blaðsíðna skýrslu með ýmsum valmöguleikum til stjórnlagaráðs í apríl 2011.

Ráðið skilaði síðan af sér frumvarpi að stjórnarskrá í júlílok 2011 og Alþingi hafði það til meðferðar í næstum tvö ár eftir það.

Sérstök stjórnarskrárnefnd hefur unnið að málinu í átt á annað ár og aðeins einbeitt sér að litlum hluta hennar, - og alls ekki að ákvæðum um Alþingi, ríkisstjórn eða forseta Íslands.

Þess má geta að það var Framsóknarflokkurinn sem gerði stjórnarskrármálið ekki aðeins að aðal kosningamáli sínu 2009, heldur gerði framgang þess að skilyrði fyrir að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti.

Og þingmenn Sjálfstæðisflokksins áttu hugmyndina að Þjóðfundi um málið. 

Þar að auki er það algengur misskilningur að í frumvarpi stjórnlagaráðs sé afnuminn málskotsréttur forsetans. Þvert á móti er hann staðfesur þar og sett inn í nauðsynleg ákvæði um framkvæmd hans, sem vantað hefur til þess að koma í veg fyrir ágreining um túlkun á greininni eins og var uppi allt frá 1996 til 2004.

Erlendis eru dæmi um að kosið sé um einstök málefni samhliða fulltrúakosningum, jafnvel fjölmörg málefni í einu eins og í Bandaríkjunum og Sviss. Stærsti kostur þess er meiri þátttaka en ella og ætti slíkt að auka lýðræðið frekar en að veikja það.  


mbl.is Gagnrýndi Ólaf Ragnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjá tækifæri í krefjandi viðfangsefnum.

Ekki vantar mótbárur gegn því að brugðist sé við óhjákvæmilegum, stórfelldum og alvarlegum viðfangsefnum sem við blasa vegna afleiðinganna af skeytingarleysi og græðgi jarðarbúa.

Sagt er að slíkt sé of dýrt og muni leiða til hnignunar í efnahagslífi þjóðanna og að mannkynið hafi ekki efni á því að gera neitt, heldur eigi jafnvel að auka ásóknina í auðlindir, sem flestar eru takmarkaðar og munu þverra því hraðar sem meira er sótt í þær.

Þessar úrtöluraddir, sem byggja á því að stilla því upp sem vonlausu verkefni að grípa til neinna aðgerða, nærast á skammtímahagsmunum og þröngsýni, sem koma mun afkomendum okkar í koll. 

Það er í raun glæpur núlifandi jarðarbúa gagnvart margfalt fjölmennari afkomendum þeirra að haga sér þannig að viðfangsefnin verði þeim óviðráðanleg.

Í stað slíkrar óbyrgrar og niðurdrepandi hegðunar þarf að koma sá eldmóður og fullnægja, sem felst í því að takast óhrædd á við erfið og krefjandi viðfangsefni og sjá tækifæri í því að fást við þau.

Það er algengur misskilningur, sem haldið er á lofti, að í hópi umhverfis- og náttúruverndarfólks sé aðeins vinstri sinnað fólk.

Þetta er alrangt. Þannig var stærsti flokkspólitíski hópurinn, sem í skoðanakönnun var andvígur Kárahnjúkavirkjun, fólk sem var hlynnt Sjálfstæðisflokknum, og svipað kom aftur upp í skoðanakönnun um einn stóran þjóðgarð og friðað svæði á miðhálendi Íslands.

Erlendis eru margir hægri menn meðal helstu talsmanna umhverfis- og náttúruverndar og sjá í því tækifæri innan frjáls markaðar að takast á við risavaxin en gefandi viðfangsefni varðandi ástand lofthjúpsins og rányrkju auðlinda jarðar.   

      


mbl.is Hagvöxtur og loftslagsaðgerðir ekki andstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn og aftur hrækt á flóttafólk frá Asíu og Afríku.

Fróðlegt getur verið að skoða söguna og fortíðina þegar horft er á atburði nútímans. 

Það er ekki nýtt að hrækt sé á flóttafólk og þess krafist að það verði fjarlægt á einn eða annan hátt. 

Á árunum 1933 til 1945 var hrækt á trúarhóp einn í Evrópu, sem leit á sig sem sérstakan þjóðflokk, og hefði tvívegis í sögu sinni hrakist frá heimkynnum sínum.

Fyrst hrakist frá landi í norðaustanverðri Afríku til lands vestast í Asíu, og síðan vegna hernaðaraðgerða þaðan yfir Miðjarðarhaf til Evrópu.

Talsmenn "öryggis í Evrópu" höfðu varað við þeirri ógn, sem kristnum evrópskum samfélögunum stafaði að þessum flóttakynstofni, og varað við því vaxandi vandamáli sem það skapaði.

Þegar þessir talsmenn "hreins yfirburðakynþáttar" komust til valda hófst stigmögnun andúðar við flóttakynstofninn, fyrst með hrækingum og ókvæðisorðum en síðar með æ harðari aðgerðum, sviptingu réttinda, og árásum á fyrirtæki þeirra úr því að annað dugði ekki. 

Flóttakynstofninn var skilgreindur sem líkastur meindýrum eða rottum sem þyrfti að fjarlægja og leysa þar með "vandamálið" sem fælist í tilvist hans í eitt skipti fyrir öll. 

"Vandamálslausnin" fannst og var hrint í framkvæmd, en ekki tókst að fjarlægja fyrir fullt og allt nema 6 milljónir af þeim 10,5 milljónum sem talið var að yrði að uppræta til þess að frelsa álfuna frá þessum meinta vágesti. 

Er hugsanlegt að einhverja lærdóma megi draga af þessari sögu? 


mbl.is Hrækti á flóttafólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti forsetinn sem tekur þetta sérstaklega fram.

Allir fyrrverandi forsetar Íslands hafa staðið í þeim sporum að setja Alþingi í síðasta sinn "samkvæmt núverandi umboði" sínu. 

Sveinn Björnsson stóð í hliðstæðum sporum haustin 1947 og 1951, Ásgeir Ásgeirsson haustin 1955, 1959, 1963 og 1967, - Kristján Eldjárn haustin 1971, 1975 og 1979, - Vigdís Finnbogadóttir haustin 1983, 1987, 1991 og 1995.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur staðið í sömu sporum og núna haustin 1999, 2003, 2007 og 2011 án þess að minnast sérstaklega á það í setningarræðu. 

Ásgeir, Kristján, Vigdís og Ólafur Ragnar greindu frá fyrirætlunum sínum varðandi forsetakjör í áramótaávörpum á nýjársdag kosningaársins. 

Í ávarpi sínu nú andmælir forsetinnn mjög sterklega fyrirætlunum um að láta kjósa um afmarkaðar stjórnarskrárbreytingar samhliða komandi forsetakosningum.

Stjórnarskrárbreytingar hafa verið sérstakt aðal stefnumál Pírata og spyrja má, hvort Píratar og fylgismenn þeirra telji forsetann hafa sett sig sérstaklega upp á móti stefnu þeirra. 

Andófsmenn gegn beinu lýðræðis hafa ævinlega borið því fyrir sig hve kosningar séu dýrar í andstöðu sinni gegn þjóðaratkvæðagreiðslum. Slík andmæli eru hlaðin þröngsýni, því að lýðræðið er einfaldlaga dýrt eins og fleiri nauðsynleg fyrirbæri og er hægt að taka undir ummæli forsetans í því efni út af fyrir sig. 

En eins og mál standa nú, stendur ekki til að kjósa næsta sumar um neinar breytingar á stöðu forsetans, og er því skrýtið af hverju hann ber upp þessa skoðun sína nú. 

Og þá er að skoða, hvaða atburðarás ræða forsetans getur hrint af stað. Þar vakna spurningar. 

Mun ræðan stuðla að því að ekkert verði úr atkvæðagreiðslu um afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni?  Mun hún verða til þess að efla Pírata eða ekki?  Mun hún hvetja til svipaðrar hreyfingar og spratt fram í ársbyrjun 2012 þegar skorað var á forsetann að bjóða sig fram til að draga úr óvissu í landsmálum? 

 


mbl.is Varar við breytingum á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki hér eins og í Danmörku?

Fjórar hugmyndir um beint lýðræði voru einkum ræddar í stjórnlagaráði. 1. Málskotsréttur ákveðins hluta kjósenda.  2. Réttur kjósenda til að leggja fram lagafrumvörp á Alþingi. 3. Málskotsréttur forseta Íslands. 4. Málskotsréttur þriðjungs Alþingismanna. 

Nefna má 5 möguleikann, sem er í núverandi stjórnarskrá en hefur aldrei verið beitt, enda deila fræðimenn um hann: Að forseti Íslands leggi sjálfur fram frumvarp á Alþingi. 

Stjórnlagaráð stefndi að því að ná samstöðu um tillögu að nýrri stjórnarskrá. Skoðanir voru skiptar um það hve langt skyldi ganga í ákvæðum um beint lýðræði. 

Ekki var samstaða um að ganga alla leið í þessu efni og taka upp allar fyrrnefndar leiðir, og á endanum féll niður hugmyndin um að þriðjungur þingmanna mætti fá málskotsrétt. 

Kannski hafði það áhrif að þingið nýtur sérstaklega lítils trausts meðal kjósenda og að hætta væri á því að þingmenn í stjórnarandstöðu hverju sinni notuðu þennan rétt sinn í tíma og ótíma. 

Þannig hefur það hins vegar ekki verið í Danmörku. Hvers vegna? 

Kannski er ástæðan sú svipuð og tregðan á Alþingi við að forseti þingsins beiti 71. grein þingskapa sem gefur honum rétt til að binda enda á málþóf. 

Þetta kom til umræðu í lok þingsins á útmánuðum 2013 en meirihlutinn þorði ekki að láta forseta beita þessu valdi vegna þess að ef það fordæmi var gefið, gat nýr meirihluti eftir kosningar, (þáverandi minnihluti) líka freistast til að beita því. 

Svipað gæti gerst ef þriðjungur þingmanna hefði málskotsrétt. Menn myndu hugsa sig um tvisvar ef þeir færu að beita honum, vegna tilhugsunarinnar um að nýr meirihluti myndi líka fara að gera það í tíma og ótíma eftir kosningar. 

Í Danmörku hefur niðurstaðan orðið sú að minnihlutinn hikar við að beita réttinum og smám saman hefur myndast hefð fyrir því að semja um hlutina í stað þess að efna til átakastjórnmála, sem erfitt er að sjá fyrir um hvert muni leiða.  


mbl.is Málskotsréttur sé hjá alþingismönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Orkuskipti - koma svo!"

Ævinlega hafa verið mótbárur gegn helstu framförum í tækni. Nýting jarðaefnaeldsneytis í bulluhreyflum skóp einhverja mestu byltingu sögunnar þegar henni var beitt til að knýja vagna á níunda áratug nítjándu aldar í stað þess að nota hesta til að draga þá. 

"Við viljum ekki sjá bilaða eða eldsneytislausa vagna valda umferðarteppum" var meðal þess sem sagt var. 

Í athugasemd við pistli hér á síðunni um rafbíla kom fram svipað sjónarmið: "Það verður að koma i veg fyrir að rafbílar verði svo margir að rafmagnslausir og bilaðir rafbílar valdi umferðarteppum", var sagt. 

Þetta er fullyrt án þess að færa nokkur rök fyrir því að þessi hrakspá myndi rætast, - aðeins giskað á að svona gæti þetta orðið. 

Rökin gegn bensínknúna vagninum voru þó miklu sterkari 1886 þegar Karl Benz krækti sér í einkaleyfi á bensínknúnum vagni, sem hafði aðeins komist aðeins nokkur hundruð metra og bilað í fyrstu ferð sinni. Það þótti ekki gæfulegt. 

Það þótti heldur ekki gæfulegt, fyrsta vélknúna flugið 1903, aðeins 37 metra vegalengd í 3ja metra hæð frá jörðu.

Þeir sem streitast gegn því að skipta út orkugjöfum eru að berjast vonlausri baráttu, því að öll gögn um jarðefnaeldsneytisbirgðir jarðar hníga að því að þær muni þrjóta á þessari öld og að því meira og hraðar,sem þeim er pumpað upp úr jörðinni til þess eins að viðhalda tímabundnu lágu verði á þeim, því harkalegri og hraðari verði niðursveiflan, þegar hagkvæmustu olíu- og gaslindunum hefur verð sóað. 

Kolefnisjöfnun, "Carbon recycling", er aðeins eitt þeirra ráða, sem kanna þarf og þróa betur til þess að bregðast við hinu óhjákvæmilega.

Enn beinna liggur við að skipta beint yfir í endurnýjanlega orkugjafa sem ekki valda stórfelldum og skaðlegum breytingum á efnasamsetningu lofthjúpsins.  

"Orkuskipti, - koma svo!" Þar getum við Íslendingar lagt hönd á plóginn.  

 


mbl.is Vinna eldsneyti úr loftinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipuð spurning og eftir EM í frjálsum 1950.

Svíar voru stórveldi í frjálsum íþróttum og knattspyrnu um miðbik síðustu aldar. Þótt Gunnar Huseby yrði Evrópumeistari í kúluvarpi 1946 var það dropi í hafið miðað við þessa sterku frændþjóð okkar. 

En á næstu árum varð til svo einstakt gullaldarlið í frjálsum íþróttum á Íslandi, að nágrannaþjóðir okkar máttu vara sig. 

Kornungir hlauparar röðuðu sér í efstu sæti á Norðurlandamótum, sem þá voru haldin. 

17 ára varð Haukur Clausen Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi, Huseby í kúluvarpi og tvíburabróðir Hauks, Örn, Norðurlandameistari 1949 með einn af þremur bestu afrekum heims í tugþraut. 

Í þrjú ár var Örn númer 2-3 á heimsafrekalistanum í tugþraut. 

Finnbjörn Þorvaldsson var sprettharðastur í 100 metrum á Norðurlöndum 1949. 

1949 til 1950 áttu Íslendingar sex spretthlaupara, sem voru í hópi fremstu hlaupara í Evrópu, Hauk Clausen, Hörð Haraldsson, Finnbjörn Þorvaldsson, Örn Clausen, Ásmund Bjarnason og Guðmund Lárusson.

Fyrir EM 1950 áttu Íslendingar möguleika á níu verðlaunum á mótinu, en keppni í stangarstökki og langstökki fór fram á sama tíma svo að Torfi Bryngeirsson varð aðeins Evrópumeistari í langstökki en ekki í aðalgrein sinni, stangarstökkinu.

Huseby varð Evrópumeistari í kúluvarpi og kastaði einum og hálfum metra lengra en næsti maður.

Hinar greinarnar, þar sem verðlaun gátu fallið til Íslendinganna, voru hástökk, 100m, 200m, 400m, 4x100m boðhlaup og 110 m grindahlaup. 

Örn Clausen átti möguleika á fernum verðlaunum, í tugþraut, langstökki, 110 metra grindahlaupi og 4x100 metra boðhlaupi en tugþrautin varð að nægja. Hefði orðið Evrópumeistari í henni ef ný stigatafla Alþjóða frjálsíþróttasambandsins hefði verið notuð, en Frakkar fengu því framgengt að gamla taflan var notuð svo að þeirra maður vann Örn naumlega.

Haukur Clausen fékk ekki að keppa í aðalgrein sinni, 200 metra hlaupinu, en setti Íslands- og Norðurlandamet í Eskilstuna eftir mótið, sem stóð sem Norðurlandamet í sjö ár og miklu lengur sem Íslandsmet og var besti árangur í 200 metra hlaupi í Evrópu árið 1950.

Skúli Guðmundsson stökk hærra í hástökki þetta sumar en sigurvegarinn á EM, en Skúli var í námi í Danmörku og komst ekki á EM.

Íslendingar voru meðal þeirra þjóða sem fengu flest stig á þessu móti og Íslendingar fengu fleiri meistara en Svíar.

29. júní 1951 vann íslenska landsliðið bæði Dani og Norðmenn í þriggja landa landskeppni og Svía sama dag í landsleik í knattspyrnu.

Á þessum árum var spurt í alvöru hvort Íslendingar væru mesta íþróttaþjóð heims, og það var mikils virði fyrir þjóð svo skömmu eftir lýðveldisstofnunina 1944.   

 

 

 


mbl.is Ísland mesta íþróttaþjóð heims?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband