Að sjá tækifæri í krefjandi viðfangsefnum.

Ekki vantar mótbárur gegn því að brugðist sé við óhjákvæmilegum, stórfelldum og alvarlegum viðfangsefnum sem við blasa vegna afleiðinganna af skeytingarleysi og græðgi jarðarbúa.

Sagt er að slíkt sé of dýrt og muni leiða til hnignunar í efnahagslífi þjóðanna og að mannkynið hafi ekki efni á því að gera neitt, heldur eigi jafnvel að auka ásóknina í auðlindir, sem flestar eru takmarkaðar og munu þverra því hraðar sem meira er sótt í þær.

Þessar úrtöluraddir, sem byggja á því að stilla því upp sem vonlausu verkefni að grípa til neinna aðgerða, nærast á skammtímahagsmunum og þröngsýni, sem koma mun afkomendum okkar í koll. 

Það er í raun glæpur núlifandi jarðarbúa gagnvart margfalt fjölmennari afkomendum þeirra að haga sér þannig að viðfangsefnin verði þeim óviðráðanleg.

Í stað slíkrar óbyrgrar og niðurdrepandi hegðunar þarf að koma sá eldmóður og fullnægja, sem felst í því að takast óhrædd á við erfið og krefjandi viðfangsefni og sjá tækifæri í því að fást við þau.

Það er algengur misskilningur, sem haldið er á lofti, að í hópi umhverfis- og náttúruverndarfólks sé aðeins vinstri sinnað fólk.

Þetta er alrangt. Þannig var stærsti flokkspólitíski hópurinn, sem í skoðanakönnun var andvígur Kárahnjúkavirkjun, fólk sem var hlynnt Sjálfstæðisflokknum, og svipað kom aftur upp í skoðanakönnun um einn stóran þjóðgarð og friðað svæði á miðhálendi Íslands.

Erlendis eru margir hægri menn meðal helstu talsmanna umhverfis- og náttúruverndar og sjá í því tækifæri innan frjáls markaðar að takast á við risavaxin en gefandi viðfangsefni varðandi ástand lofthjúpsins og rányrkju auðlinda jarðar.   

      


mbl.is Hagvöxtur og loftslagsaðgerðir ekki andstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband