Bragð í gangi í olíuframleiðslu?

Það er gamalt og nýtt braggð í viðskiptum hjá framleiðendum eða seljendum, sem hafa yfirburðastöðu á markaði sem nálgast það að um einokun sé að ræða, að lækka verðið svo mikið, að veikari keppinautar gefist upp.

Ein af skýringunum á því að Sádi-Arabar og önnur olíuframleiðslulönd, þar sem framleiðslukostnaðurinn er minnstur, minnka ekki framboðið til að hækka verðið, kann að vera sú að með því að stuðla að sem lægstu orkuverði drepa þeir af sér samkeppni þjóða, þar sem vinnslukostnaðurinn er hærri, eins og hjá Rússum og Norðmönnum, og koma í veg fyrir að nýir orkugjafar ryðji sér til rúms.

Svona bragð er byggt á skammtímasjónarmiði, því að olían er takmörkuð auðlind og klárast þá bara fyrr en ella. En það er eftir einhverja áratugi og skammtímahagsmunirnir eru svo miklir.

Áhugavert er að sjá á orkubloggi Ketils Sigurjónssonar að þrátt fyrir hið lága olíuverð eykst notkun endurnýjanlegra og hreinna orkugjafa jafnt og þétt.

En Norðmönnum og Rússum blæðir.

 

 


mbl.is Tveir þriðju olíusjóðsins þurrkast út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allir myndu elska mig..."

Í fyrsta skiptið sem sami flytjandi átti tvö efstu lögin á bandaríska listanum, - Frankie Laine 1949, - var flytjandinn sprelllifandi.

Lögin voru That Lucky old sun og Mule train.  

Engu er líkara en að David Bowie hafi þekkt stöku Andrésar Valbergs og haft hana í huga þegar hann framdi sinn síðasta gerning og komst með því í hóp þeirra sem hafa átt tvö lög samtímis á topp fimm.

Þessa sígildu stöku flutti Andrés ekki löngu fyrir andlát sitt og hún kemur enn einu sinni upp í hugann:

Veröldin er söm við sig.

Svíkur margan auður.

Allir myndu elska mig

ef ég væri dauður.


mbl.is Svanasöngur Bowie beint á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beinbrot eru "íþyngjandi".

Beinbrot og önnur veikindi, sem hafa í för með sér hreyfihömlun, eru sérlega varasöm fyrirbæri fyrir þá sem ekki vilja verða of þungir.

Skiptir þá litlu þótt þessi hreyfihömlun er langvinn eða varir aðeins í nokkrar vikur.

Hreyfingarleysið kallar á grimmilegt aðhald í mataræði.

2008 glímdi ég við lifrarbrest í þrjá mánuði sem varð til þess að ég missti 16 kíló.

Mér fannst æðislegt eftir veikindin að geta borðað hvaða sem var, en varaði mig ekki á því hvað ég þyngdist fljótt um þessi 16 kíló.

Lærdómur: Ekki að verðlauna sig!

Um þessa helgi held ég upp á sex vikna afmæli axlarbrots, vegna þess að sex vikur eru talinn meðaltíminn, sem þarf til að bein og svöðusár grói og slæmar tognanir jafni sig.

Gróandinn er hægari hjá gömlu fólki eins og mér, og þegar afleiðingar gamals hnjasks á hálslið bætist við áhrif axlarbrotsins, tekur til dæmis fleiri vikur en sex að ná upp úthaldi í hraðri vélritun.

Axlarbrotin eru verri en flest önnur. Þetta mæli ég af reynslu eftir 60 ára brotaferil, þar sem þrjú af fimm brotum og eitt slys í viðbót sem setti mig hækjur í hálfan mánuð gerðust á hættulegasta staðnum, leiksviði. Leiksviðin eru hættulegri en flug og kappakstur!

Þessi pistill er sá fyrsti í sex vikur þar sem meirihlutinn er skrifaður blindandi með báðum höndum og ég gat í fyrsta sinn í sex vikur hlaupið stigahlaupið mitt á undir 33 sekúndum.  Litlu verður Vöggur feginn!

Við beinbrotið 6. desember blasti við að hreyfingarleysið og hátíðarmaturinn um jól og nýár yrðu varasöm blanda.

Enda urðu viðbótarkílóin þrjú. Hefði samt getað orðið verra. 

Og nú er liggur fyrir að ráðast á þau. Engar afsakanir duga lengur.  

 

60 ÁRA BROTAFERILL

 

Ég eitt sinn braut viðbein, - í annað sinn hné,

þar áður tvö hálsbrot.  Samt er ég glaður,

þótt núna með alveg nýtt axlarbrot sé.

Ég er ekki lengur fábrotinn maður.

 

Sendi öllum brotaþolum og síbrotamönnum bestu kveðjur.

 

 

 

 


mbl.is Byrjaði að þyngjast eftir hálsbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband