Lifa í veruleika þróunarlandanna.

Stóriðjan passaði vel inn í efnahagslíf þeirra ríkja um miðja síðustu öld þar sem alþjóðleg stórfyrirtæki sóttust eftir að nýta ódýrar auðlindir og stefna verkalýðshreyfingar og jafnaðarmanna var að skapa sem flest störf fyrir fjölmenna stétt verkamanna og iðnaðarmanna í stóriðjuverum.

Ódýra orku var helst að finna í þróunarríkjum, og enda þótt Ísland væri öflugt matvælaútflutningsland, ágætar þjóðartekjur og hefði nokkuð þróaða innviði og menntunarstig, var gjaldeyrisbókhaldið einhæft, samgöngukerfið vanþróað og raforkuskortur.

Þess vegna var greið leið og í sátt við vilja meirihluta þjóðarinnar að virkja stórt í Þjórsá og selja helmning orkunnar til 33 þúsund tonna álvers í Straumsvík.

Nú eru allt aðrir tímar og á Vesturlöndum er forsenda fyrir velgengni þjóða vel menntaður mannauður, sem þiggur góð laun við skapandi störf sem byggjast á tækni, þekkingu og frumkvæði og getur byggt upp þjóðfélag í fremstu röð varðandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

En eigendur stærstu fjölþjóðlegu stóriðjufyrirtækjana lifa enn í hálfrar aldar gömlum veruleika og sækjast eftir að nýta sér fátækt þróunarríkjanna til að komast yfir auðlindir þeirra og vinna úr þeim með láglaunavinnuafli.

Þess vegna hefur stórum verksmiðjum og úrvinnslufyrirtækjum á borð við álver og olíuhreinsistöðvar fækkað á Vesturlöndum og til dæmis hefur engin olíuhreinsistöð verið reist á Vesturlöndum í 20 ár.

Eigendur Rio Tinto lifa í þeimm veruleika að geta deilt og drottnað í þeim fátæku löndum, sem þjóna best hagsmunum þeirra við að nýta auðlindir innfæddra fyrir spottpris og skammta starfsfólki skít úr hnefa í launum.

Þegar þeir gefa út allsherjar tilskipun um að lækka laun, eins og frysting launa þýðir í raun hér á landi, treysta þeir á að innlendir og áhrifamiklir áltrúarmenn veiti þeim stuðning, meðal annars með því að hvetja til að látið verði að vilja hins alþjóðlega stóriðjuauðvalds sem hótar því að loka álverum ef því býður svo við að horfa og flytja starfsemina til fátækra landa.    

Eigendur Rio Tinto treysta á það að Íslendingar hugsi eingöngu um þrönga skammtímahagsmuni og skjálfi á beinunum yfir hættunni á að nokkur hundruð manns missi vinnuna í bili.

En það eru til mörg smærri fyrirtæki, sem vilja borga hærra orkuverð en álverið í Straumsvík og geta komið í staðinn fyrir Rio Tinto í orkukaupum á örfáum árum, einmitt á þeim tíma sem skortur er á vinnuafli í uppsveiflunni sem ferðaþjónustan skapar og nemur þúsundum nýjum störfum á hverju ári.

Þegar vá þótti fyrir dyrum á Akureyri við fall Sovétríkjanna og hrun útflutnings á iðnaðarvörum þangað, var kveinað um það að aðeins álver í Eyjafirði gæti "bjargað Akureyri og Norðurlandi."

Álverið reis ekki og farið var inn á nýjar og ólíkar brautir í atvinnuuppbyggingu í staðinn.

Nú blómstrar Akureyri sem aldrei fyrr.

 


mbl.is Fyrirtækið að étast upp innan frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra bílastyrksmálið.

Stóra bílastyrksmálið sýnist, samkvæmt upplýsingum í frétt þar um, felast í því að presturinn í Njarðvíkurprestakalli hefði átt að greiða ferðakostnað vegna starfs síns að mestu leyti úr eigin vasa til að brjóta ekki reglur um það að sóknarnefndir megi ekki hlaupa undir bagga með ríkinu í þeim efnum.

Í áratugi hefur verið við lýði kerfi um akstur opinberra starfsmanna á eigin bílum í þágu ríkisins.

Sérstakar akstursbækur hafa verið gerðar fyrir þessa starfsemi, og í þeim þarf að fylla út blöð með fullnægjandi upplýsingum um aksturinn og verkefnin, dagsetningar, kílómetrastaða við upphaf og lok aksturs og ekin vegalengd.

Að sjálfsögðu þarf presturinn í Njarðvíkurprestakalli að hafa bókhald sitt samviskusamlega fært og á hreinu.

En hann sinnir 7400 manna allstóru prestakalli með þremur kirkjum og ef hann hefur sannnanlega ekið tilgreinda kílómetra vegna tilgreindra embættisverka fer Stóra bílastyrksmálið að snúast um réttlætingu þess að þessi opinberi starfsmaður þurfi að greiða stærstan hluta síns bílakostnaðar sjálfur á sama tíma sem aðrir opinberir starfsmenn eiga kost á að fá greiddan sannanlegan bílakostnað í þágu ríkisins.

Að vísu er þetta mismunandi, þannig að í öðrum tilfellum er greidd ákveðin föst árleg upphæð í bílastyrk, sem fylgir starfinu.

Telur viðkomandi starfsmaður þann styrk fram til skatts.  

Það fer að verða fróðlegt að fylgjast með þessu máli og hverjar verða lyktir þess, því að í heild er þetta kerfi aksturs opinberra starfsmanna býsna stórt og aðstæður fjölbreytilegar.

Þess má geta að opinber starfsmaður, sem aka myndi bíl sínum í þágu verkefnis á vegum ríkisins fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur, á rétt á að fá greitt hátt í 90 þúsund krónur vegna akstursins samkvæmt taxta fyrir aksturskostnað bíla í eigu opinberra starfsmanna.

Sérstök nefnd hefur í áratugi lagt mat á hver kostnaðurinn teljist vera og minnir mig að nýlega hafi hún lækkað taxtann niður undir 100 krónur á kílómetrann, væntanlega vegna lækkunar eldsneytisverðs.

Ef ekið er um malarvegi hækkar taxtinn um 15% og um heldur meira ef ekið er um torfærur, svo sem um hálendisvegi eða jökla.  


mbl.is Prestur fær milljónir í bílastyrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband