Reka bankastjórann? Nei. Reka þjálfarann? Já.

Tvö töp hafa verið á dagskrá hjá íslensku þjóðinni. Annars vegar hátt í tveggja milljarða tap vegna rangs mats bankastjóra og bankastjórnar ríkisbanka og hins vegar eins marks tap íslenska handboltalandsliðsins fyrir Hvít-Rússum í handbolta, en þetta eina mark skipti sköpum um það hvort liðið kæmist áfram á EM. 

Áhöld eru um það hvaða þátt þjálfarinn eða liðið áttu í tapinu, sem var minnsti mögulegi munur, og hve mikinn þátt óheppni átti í þessum nauma ósigri, en engu að síður var niðurstaðan skýr: Þjálfarinn sagði starfi sínu lausu.

Ekkert slíkt er hins vegar að gerast varðandi þá sem klúðruðu stórfelldum fjármunum í eigu þjóðarinnar. Enginn segir upp störfum.

Niðurstaða:

 

Hvenær skal ábyrgð axla?

Slíkt er aðeins fyrir hugprúða jaxla,

sem verða af því menn að meiri,

þótt margir þeim ekki eiri.

 

Þegar málum er klúðrað ólíkt er

hvað úr því verður á landi hér.

Reka bankastjórann? Nei. Reka þjálfarann? Já,

þótt reyndar lítill munur sé mistökunum á.  

 


mbl.is Frakkar sitja eftir á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla 100 ára flokkaskiptingin gægist fram.

Hve margir nýir flokkar á Íslandi hafa ekki verið stofnaðir til að brjótast út úr farinu "hægri-vinstri", "fjálshyggja-félagshyggja."?

Eða til að brjóta upp "fjórflokkinn", sem hefur þótt spegla "úreltar vinstri-hægri áherslur."?

En fjórflokkurinn er ekki furðu lífseigur bara svona út í loftið.

Fyrir réttri öld voru stofnaðir tveir nýir flokkar sem hafa lifað alla tíð síðan, því að Samfylkingin ber nafnið Jafnaðarmannaflokkur Íslands og er því afkomandi Alþýðuflokksins.

Fram að því höfðu flokkslínur á Alþingi skipst eftir áherslum í sjálfstæðismálinu, en glöggir menn eins og Jónas Jónsson frá Hriflu, þóttust sjá, að kominn væri tími til þess á Íslandi eins og í öðrum löndum, að menn skipuðu sér í flokka eftir alþjóðlegum línum varðandi þjóðfélagsgerðina sjálfa.

Hugmynd Jónasar var að hafa þriggja flokka kerfi á Íslandi, hægri flokk, vinstri flokk (sósíalista) og miðflokk, sem ætti rætur í samvinnuhreyfingunni og hjá bændum.

Hann stóð því bæði að stofnun Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins og þóttist vita, að hægri menn myndu ekki komast hjá því að stofna eigin flokk.

Það gerðist síðan eftir stríðið, þegar Íslendingar fengu fullveldi.

Þegar kommúnistar klufu sig út úr Alþýðuflokknum 1930 og urðu síðan það öflugir með því að kljúfa Alþýðuflokkinn enn frekar 1938, að tveir vinstri flokkar voru komnir í flokkakerfið, breytti það ekki þríflokkakerfinu í raun, þótt einn þríflokkanna væri tvískiptur.

Eftir sem áður var flokkamódelið hægri-miðja-vinstri.

Á síðustu áratugum hafa þær raddir orðið háværar að módelið hægri-vinstri, fjálshyggja-félagshyggja, sé orðið úrelt og önnur atriði séu orðin sterkari í nútíma stjórnmálum.

En hvað eftir annað kemur það samt upp, að í flokkum, sem vilja ekki skilgreina sig eftir þessum tveggja alda gömlu línum, kemur upp ágreiningur milli frjálshyggju (hægri) fólks og félagshyggju(vinstra)fólks.

Nýjasta dæmið eru Píratar, og spurningin er hvort og hve lengi þeir geti haldið í sitt mikla 35 prósenta fylgi ef þessi klofningur verður áberandi og afgerandi.

 


mbl.is Vill frjálshyggjumenn úr Pírötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi mér áður brá?

Að minnsta spilling á jarðríki ríkti á Íslandi á græðgisbóluárunum í aðdraganda Hrunsins var náttúrulega einhver mesti brandari allra tíma.

Upphafi, eðli og umfangi græðgisbóluspillingarinnar er lýst í rannsóknarskýrslu Alþingis, en það var að vísu eftirá.

En öllum mátti vera ljós spillingin sem lítið kunningjasamfélag fóstraði.

Á tímabili í kringum síðustu aldamót ríkti fágætt alræði tveggja stjórnmálaforingja, sem höfðu bundist í fóstbræðralag og heiðurstitillinn "minnst spillta þjóðfélag heims" kom beint inn í lok þess tímabils þegar alþjóðleg matsfyrirtæki kórónuðu brandarann með því að gefa riðandi íslensku bankakerfi hæstu gæðaeinkunn rétt áður en stærsta bankahrun eins ríkis í sögunni varð að veruleika.


mbl.is Ísland spilltasta norræna ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannauðurinn; -mesti auðurinn, líka peningalega.

Það var ómetanlegt happ fyrir Íslendinga að eignast snilling eins og Friðrik Ólafsson.

Kornungur bar hann hróður landsins víða um heim og átti ómetanlegan þátt í því að "einvígi aldarinnar" milli Spasskís og Fishers var haldið í Reykjavík 1972.

Það fór ekki framhjá neinum, hvorki heima né erlendis, að Íslendingum tókst að vinna það afrek að halda þetta einvígi, þrátt fyrir öll þau illeysanlegu vandamál sem upp komu, bæði í aðdraganda þess og á meðan því stóð.

Rétt eins og baráttan á milli lýðræðis og einræðis þótti mætast í skurðpunkti í einvígi þeirra Joe Louis og Max Schmelings í hnefaleikum 1938,  þótti baráttan á milli risaveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkanna, speglast í einvígi Spasskís og Fishers.

1986 voru aðeins 14 ár liðin frá einvíginu, og Reykjavík því enn í minnum höfð hjá leiðtogum BNA og Sovétríkjanna.

Aftur unnu Íslendingar þrekvirki með því að halda svona vandasaman fund með svo stuttum undirbúningstíma, að rætt var um að Svisslendingar, sérfræðingar í funda- og ráðstefnuhaldi, hefðu varla treyst sér til þess.

Varla er sá pistill birtur hér á síðunni um afrek og ágóða af listum og skapandi greinum, að ekki komi athugasemdir um að þeir, sem skapa auð með hugviti og listrænni sköpun, séu afætur og ómagar á þjóðinni.

Skiptir þá engu þótt tölur sýni að afraksturinn nemi tugum milljarða árlega í þjóðarbúið.

Hið furðulega er, að sumir þeirra, sem harðastir eru í svona málflutningi og eru málsvarar markaðshyggju, skuli með þessu afneita viðurkenndum peningalegum þáttum í markaðsþjóðfélagi á borð við viðskiptavild, hróður og álit.

En það þarf ekki annað en að nefna örfá nöfn, Friðrik Ólafsson, Björk Guðmundsdóttur, Balthasar Kormák, Halldór Laxness, Ólaf Elíasson, Arnald Indriðason og Andra Snæ Magnason til að varpa ljósi á verðmæti skapandi lista- hugverkafólks á Íslandi.

 


mbl.is Einn verðmætasti Íslendingur 20. aldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband