"Hvernig var stemningin?" Viðeigandi spurning?

Íslenskt mál býr yfir fjölbreyttum blæ og orð og setningar, sem falla, hafa oft ákveðinn blæ sem gerir það að verkum, að orðfærið getur hljómað ankannalega þegar þau eru notuð við önnur tækifæri en oftast eða jafnvel alltaf eru tilefni orðaskipta.

Dæmi um þetta var í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þegar fréttamaður sem hafði verið í dómssal í manndrápsmáli, (morðmáli), sat í fréttasettinu.

Fréttaþulurinn sagði frá því að viðkomandi fréttamaður hefði verið í Héraðsdómi á Selfossi og spurði hann síðan:

"Hvernig var stemningin?"

Þetta er setning sem yfirleitt er notuð um samkomur, svo sem skemmtanir, fundi og íþróttaviðburði.

Og algengustu svörin eru t.d. "Það er rosa stemning." "Það er fín stemning". "Það er´hörkustemning."

Þess vegna sperrti ég eyrun þegar ég heyrði þessa setningu í kvöld og var jafnvel viðbúinn því að spurt yrði í framhaldinu: "Voru ekki allir í stuði?"


mbl.is Hótað morði eftir dauða Sigurðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð grein um gáttaflökt.

Gáttaflökt eða hjartaflökt var eitt af því sem Kári Stefánsson nefndi sem dæmi um óviðunandi ófremdarástand í heilbrigðiskerfinu.

Í Fréttablaðinu í dag er athyglisverð lýsing manns sem veiktist af gáttaflökti í Kverkfjöllum og framundan reyndist margra mánaða óvissutími vegna tafa og biðlista, þar sem hann var milli vonar og ótta um það að gáttaflöktið leiddi til heilablæðinga eða áfalls, sem gæti leitt hann til örkumla eða dauða.

Þessi greinarhöfundur var heppinn og slapp með skrekkinn.

En þannig er það ekki alltaf.

Einn vinur minn fékk alvarlega heilablæðingu á meðan hann beið eftir að það kæmi að honum á biðlistanum, var haldið sofandi í öndunarvél og síðar biðu hans margar vikur á Grensásdeild.

Beinn kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna þessa áfalls nemur áreiðanlega margföldum sparnaði, sem menn telja sér trú um að fáist með því að láta fólk bíða mánuðum saman eftir bráðnauðsynlegum aðgerðum.

Þá eru ótaldar þjáningar, vinnutap, örorka og annað sem fylgir alvarlegum veikindum og ótímabærum dauða.

 


mbl.is Kári segir munnhöggin mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitaði ábyrgð en harmaði að 4,5 milljónir Gyðingar skyldu sleppa.

Í áhrifamikilli heimildamynd um það hvernig Adolf Eichmann náðist í Argentínu og var fluttur til Ísraels var vitnað í ýmis ummæli Eichmanns, sem hann viðhafði við blaðamann, sem gómaði hann undir því yfirskini að vera að taka viðtal við hann. Hann heimsótti Eichmann nokkrum sinnum og varðveitti það sem hann sagði.  

Á einum stað í viðtalinu sagði Eichmann, að talið hefði verið í tímum Helfararinnar, að 10,5 milljónir manna af Gyðingaættum væru í heiminum, og að "því miður" hefi ekki tekist að koma þeim öllum fyrir kattarnef.

Vantaði sem sagt 4,5 milljónir upp á.

Þegar þessi ummæli eru skoðuð vekur furðu, að sami maður skuli hafa talið sig ábyrgðarlausan af því að hafa séð um framkvæmd fyrirmælanna um að útrýma Gyðingum.

Þegar ummæli Eichmanns eru skoðuð kemur í ljós að þau voru síður en svo einsdæmi. Í heimsókn til Páls Arasonar langferðabílstjóra þar sem hann bjó í bústað í Hörgárdal, sagði hann við mig að Adolf Hitler hefði aðeins gert ein mistök: Að drepa ekki alla Gyðinga.

Mér hefur sjaldan brugðið eins mikið og orðið jafn undrandi í senn. Að nokkur maður, hvað þá Íslendingur, gæti látið svona út úr sér.

Páll sagðist aldrei hafa gert flugu mein og það var líklega satt. Á þessum tíma voru engin lög sem gerðu svona ummæli refsiverð og hann hafði því ekkert til saka unnið, lagalega séð.

Enginn getur sannað hvort hann meinti þetta raunverulega eða hafði ánægju af því að ganga fram af fólki, spígspora um í nasistafrakka og hneyksla sem flesta.

En óhugnanlegt var þetta engu að síður og umhugsunarvert.    

 


mbl.is Firrti sig ábyrgð og baðst vægðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband