M.R. er og var á forræði ríkisins. Yfir til þín, Sigmundur!

Undanfarinn áratug hafa verið á sveimi hugmyndir um að fara út í framkvæmd á hugmyndum um breytingar á því svæði, sem er einstakt í menningarsögu þjóðarinnar og sögu Reykjavíkur.

Þetta er svæðið milli Lækjargötu, Antmannsstígs og Bókhlöðustígs og kennt við Menntaskólann í Reykjavík, M.R.

Á tímabili leit út fyrir að ráðist yrði gegn íþróttahúsi skólans, sem er fyrsta húsið á Íslandi sem reist var sérstaklega sem íþróttahús.

Þar var vagga handboltans á Íslandi og þar fengu kennslu margir af helstu afreksmönnum Íslands.

Þegar litið er á það sem á að gera við Casa Cristi er full ástæða að huga að ástandi íþróttahússins, því að hugmyndir voru um að breyta því í bókasafn og fjarlægja úr því innréttingarnar.

Húsið þekur ekki nema rúmlega 100 fermetra á svæði, sem er á bilinu 10-15.000 fermetrar og því auðvelt að leysa húsnæðisþörf M.R. án þess að snerta við þessu húsi á neinn hátt.

Góð grein í Fréttablaðinu sýnir vel gildi Casa Cristi eða KFUM-hússins eins og það hét áður en M.R. fékk það til afnota seint á sjötta áratugnum.

Húsið er stútfullt af stórmerkri sögu og þar að auki mikils vert hvað arkitektúr varðar.

Ég hef í meginatriðum verið sammála sjónarmiðum Sigmundar Daviðs Gunnlaugssonar varðandi útlit og byggingar í miðborg Reykjavíkur og undrast ef hann ætlar ekki að beita sér í máli sem er beint á forræði ríkisins.

M.R. er langelsti skóli ríkisins, beinn arftaki Bessastaðaskóla og Hólavallaskóla og hefur alltaf verið ríkisstofnun og því margfalt tilefni til þess að ríkisvaldið láti sig málefni skólans og bygginga hans varða.

Kennsla hefur farið fram á vegum M.R. í meira en hálfa öld í Casa Cristi og það á vel að vera hægt að gera húsið upp og halda áfram kennslu í því, ef vilji er fyrir því.

Húsinu var naumlega bjargað frá því að brenna í stórbruna 1947 og er klökkt ef það á nú að verða eyðileggingaröflum á vegum manna að bráð.


mbl.is „Húsið er friðað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marghöfða norrænn dreki. Rauðhærða íslenska konan.

Ævintýra- Öskubuskulið Dags Sigurðssonar á möguleika á að komast í úrslit á EM á sunnudaginn og sömuleiðis undralið Norðmanna.

Fari svo eru fimm áberandi aðilar í pottinum varðandi úrslitaleikinn:

Danskir dómarar. Íslenskur þjálfari. Þýska liðið. Norska liðið og þjálfari þess.

Norðurlandabúar geta, ef allt gengur upp, leikið hlutverk marghöfða dreka til enda á EM, þar sem nýr haus sprettur upp í hvert skipti sem einn er höggvinn af.

Rómantísk huggun fyrir Íslendinga. Og minnsta kosti einn norrænn haus verður eftir: Dönsku dómararnir.

Ég minnist þess á árum áður að í stærstu og dýrustu hnefaleikabardögunum var stundum kallað á lækni til að skera úr um það, hvort jafnokar Tysons og Holyfields væru bardagahæfir vegna meiðsla.

Þessi læknir réði á því augnabliki úrslitum um bardagann og milljarðana sem í húfi voru.

Þetta var rauðhærð kona af íslenskum ættum og þjóðarstoltið streymdi um okkur Bubba!    


mbl.is Danir í úrslitaleiknum á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því ósvífnari og meira ögrandi, því meira fylgi.

Því verður ekki neitað að Donald Trump kann þá list að ná athygli fjölmiðla og almennings.

Barack Obama gerði það í framboði sínu 2008 en þar með lýkur samlíkingunni, svo gerólíkir eru þessir menn og svo gerólíkum aðferðum og málflutningi beita þeir.

Trump virðist gera út á það að ganga fram af fólki og sýnast með því töff og skörulegur, auk þess að með því dregur hann meiri athygli að sér en öllum öðrum frambjóðendum flokkanna til samans.

Með endemis ummælunum, hverjum á fætur öðrum, vex fylgi hans, og jafnvel því meira sem þau eru ruddalegri og dónalegri, samanber ummæli hans í garð umræðustjórans, sem hann vill ekki samþykkja í kappræðunum í kvöld.

Trump lítur vafalítið þannig á, að með því að skera sig svona hressilega úr, muni fylgi hans aukast enn meira en fyrr.

Hann á sand af seðlum og virðist ekki lengur telja að hann þurfi á kappræðum að halda frekar en hann kýs til þess að auglýsa sig.

Og var ekki sagt einhvern tíma að neikvæð auglýsing eða jafnvel auglýsing að endemum væri betri en engin auglýsing?


mbl.is Kappræður í kvöld en enginn Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband