Þá hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að fá ca 350 milljónir.

Það þykir frétt að Flokkur fólksins kunni að fá 40 milljónir króna styrk á næsta kjörtímabili, ef það verður fjögur ár. 

Það þykir hins vegar engin frétt þótt Sjálfstæðisflokkurinn muni þá væntanlega fá eitthvað í kringum 350 milljónir króna á sama árabili, því að framlög úr ríkissjóði miðast við atkvæðafjölda í kosningum. 

Raunar er svo að sjá að þessi framlög séu með svipaða krónutölu og var í kosningunum 2007, þannig að þau hafa lækkað í raungildi síðan þá um marga tugi prósenta. 


mbl.is 40 milljónir til Flokks fólksins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenju hreinskiptið svar hjá Sigurði Inga.

Í sjónvarpinu í hádeginu í dag svaraði Sigurður Ingi Jóhannsson spurningu um stöðu Framsóknar á óvenju hreinskiptinn hátt með því að nefna tvö atriði sem voru og eru Framsóknarflokknum fjötur um fót, svo að hann hefur misst meira en helminginn af því fylgi sem hann hafði í síðustu kosningum.  

Annars vegar sé um að ræða fólk, sem hafði kosið Framsóknarflokkinn áður en Panamahneykslið kom upp, en gat ekki hugsað sér að kjósa flokk, sem væri áfram með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í forystusveit. 

Þetta hefðu sumir látið sér nægja að segja, en Sigurður Ingi bætti því við, að sumir hefðu ekki kosið flokkinn vegna þess hvernig hlutirnir gengu á flokksþinginu.

Það er óvenjulegt að heyra stjórnmálamann segja eitthvað þessu líkt, sem snertir hannn sjálfan.

En með þessu er Sigurður Ingi að ræða um hluta af því ástandi innan flokksins, að það er eftir að græða sárin sem atburðir síðustu mánaða skilja eftir.

Svo er að sjá af viðbrögðum margra forystumanna annarra flokka en Sjalla og Framsóknar að þeir geti ekki hugsað sér að fara í stjórn þar sem þessir tveir flokkar eru saman innanborð, því að það liti út eins og að verið sé að framlengja líf núverandi stjórnar.

Og með svari sínu í hádeginu kemur Siguruður Ingi inn á ákveðinnn vanda varðandi hugsanlega stjórnarsetu Framsóknarflokksins, án Sjálfstæðisflokksins, sem felst í því að flokkurinn er í raun klofinn og að það er eftir að ganga frá óuppgerðum málum innan hans.

Af því leiðir að kannski sé enda þótt stefnumörkunin fyrir þessar kosningar hafi haft á sér talsvert félagshyggjusvip, sé flokkurinn illa stjórntækur og þurfi tíma til að vera í stjórnarandstöðu og ná sér eftir það áfall, sem hann varð fyrir.  


mbl.is Segir Framsókn hafa unnið varnarsigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraðak á miðjunni, Samfylkingin treðst undir. Söngvakeppniheilkenni?

Úrslit kosninganna þýða að hægra megin í þingi verður Sjálfstæðisflokkurinn en Vinstri grænir verða vinstra megin. Í kosningabaráttunni fikruðu Vinstri grænir sig inn á grátt svæði vinstra meginn á miðjunni, hjuggu með því í fyrra fylgi Samfylkingarinnar og gera sig líklega til að verða stjórntækir í krafti mikils persónufylgis Katrínar Jakobsdóttur. 

Píratar sótt líka stóran hluta síns fylgis í fyrrum fylgi Samfylkingar. 

Hægra megin frá sótti Viðreisn hluta síns fylgis til þess miðjufylgis, sem Árni Páll Árnason stakk í blaðaviðtali upp á að Samfylkingin reyndi að fanga.

Úr því varð ekki, og þar myndaðist tómarúm sem Viðreisn sótti inn í.  

Oddný Harðardóttir talaði fyrir því að fólk ætti að treysta jafnaðarmannaflokki Íslands best fyrir því að framkvæma hina göfugu jafnaðarmannastefnu, hinu norræna sósíaldemókratamódeli. 

Það mistókst að sannfæra kjósendur um það og nú er fylgi Samfylkingar innan við einn fimmti af því sem það var í kosningunum 2007. 

Það vildu nefnilega fleiri en Samfylkingin þá Lilju kveða í kosningabaráttunni, sem felst í kjörorðinu "frelsi-jafnrétti-bræðralag" eins og að ofan er rakið, Björt framtíð og Framsóknarflokkurinn líka.

Þessi framboð sóttu í það stóra hægri-miðju-vinstra fylgi, sem þar er á sveimi og það má líkja afhroði Samfylkingar við það að hún hafi troðist undir í samkeppninni um þennan stóra hóp íslenskra kjósenda. 

Það má líka líkja við það að eitt lag sé valið til flutnings í keppni um besta lag síðustu 100 ára og margir flytjendur keppi um að fá að flytja það. 

Niðurstaðan verði sú að sá, sem samdi lagið og hefur sungið það í 100 ár verði ekki valinn til þess heldur annar og yngri flytjandi, sem fólki sýnist álitlegri. 

Oddný talar um það að vera ekkert að velta fyrir sér ástæðu hruns flokksins, heldur byggja upp frá grunni. 

En í þessu felst varasöm afneitun. Það er nauðsynlegt að reyna að greina orsakir ófara til þess að geta snúið vörn í sókn. Það hlýtur að vera fyrsta skrefið. Næsta skref er að læra af niðurstöðu greiningarinnar til þess að geta búið til raunhæfan grundvöll til að sækja fram. 

Á 100 ára afmæli tveggja af gömlu fjórflokkunum er athyglisvert að báðir bíða versta ósigurinn í sögu sinni og báðir fá innan við helming af því fylgi sem þeir höfðu 2013.

P. S.  Í hverfinu, sem ég bý í, hefur verið bullandi óánægja með núverandi borgarstjórnarmeirihluta, og hún bitnar auðvitað á forystuflokknum í borgarstjórn, Samfylkingunni. Vonir forystumanna Samfylkingarinnar um að Reykjavík norður yrði áfram traust vígi flokksins urðu að engu og fylgið í Reykjavík sem heild hrundi svo gersamlega, að álitlegur frambjóðandi í Norðausturkjördæmi, Logi Már Geirsson, bjargaði því sem bjargað varð og Samfylkingin varð allt í einu einna veikust í Reykjavík.  


mbl.is Lokatölur: Píratar bæta við manni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn gleyma 5 flokka stjórn Steingríms og 7 flokka Alþingi 1987-91.

Sí og æ, nú síðast í samræðum formanna flokkanna í sjónvarpi, var fullyrt að stjórnir, sem myndaðir væru með fleiri en tveimur flokkum, gætu ekki setið út kjörtímabilið. 

Þar af leiðandi væri fimm flokka stjórn glapræði. 

Ævinlega gleymist að 1988 myndaði Steingrímur Hermannsson fjögurra flokka stjórn og bætti rúmu ári síðar fimmta flokknum við. 

Sú fimm flokka stjórn sat út kjörtímabilið og sjö flokkar áttu þingmenn á Alþingi 1987-1991. 

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 27% atkvæða 1987 og Borgaraflokkurinn, sem var að mestu klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, rétt eins og Viðreisn er nú, fékk rúm 10% atkvæða.

Og meirihlutastjórn Sjalla og Framsóknar missti meirihlutann í kosningunum, rétt eins og nú.

Samt láta margir eins og úrslit kosninganna nú séu algert einsdæmi.  


mbl.is „Viðreisn í algerri lykilstöðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband