Vildi rjúfa þing fimm mánuðum fyrr en gert var!

Ef einhver skyldi vera búinn að gleyma því var ákveðið í samtölum þingmanna í apríl í vor að stytta kjörtímabilið um fimm mánuði og nota tímann til þess að klára nokkur mikilvæg mál áður. 

Þetta gekk eftir. 

Nú kallar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þetta "dómadagsvitleysu." 

En ef það var "dómadagsvitleysa" að kjósa fimm mánuðum áður en kjörtímabilið var búið, þarf heldur betur að finna sterkara orð yfir það, að sami Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór í sérstaka sneypuför til Bessastaða í apríl í vor til að fá heimild til að rjúfa þing ellefu mánuðum áður en kjörtímabilið var búið!

Í besta falli er hægt að segja að gullfiskaminnið ríði ekki oft við einteyming en varla er Sigmundur búinn að gleyma þingrofsferðinni frægu.

Áhersluorð í eftirfarandi stöku um þennan atburð eru skáletruð:  

 

Forseta Íslands féllust hendur, - 

frá honum enginn með undirskrift sendur. 

Enginn gat honum um fingur vafið, 

því enginn er betri en Sigmundur Davíð. 


mbl.is „Dómadagsvitleysa“ að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússland, land hinna "miklu" leiðtoga.

Það segir oft meira um viðkomandi land og þjóð að koma þangað í heimsókn til jaðarsvæðis frekar en að fara til höfuðborgarinnar. 

Tvær heimsóknir mínar til Rússlands, annars vegar síðsumars 1978 til Kolaskaga og Múrmansk, og hins vegar heimsókn til Demyansk, 5 þúsund manna bæjar í Valdai-hæðum um 250 kílómetra fyrir norðvestan Moskvu, í febrúar 2006. 

Í seinni ferðinni var Rússi, sem hafði dvalið í nokkur ár á Íslandi, hjálparmaður minn og hafði hann aldrei farið í slíka ferð út frá höfuðborginni fyrr, út í dreifbýlið í fjötrum rússneska vetrarins. 

Hann sagði mér að Moskva segði enga sögu um hið raunverulega Rússland með allar sínar víðáttur og firnindi.

Í Múrmansk mátti sjá sú ofuráhersla sem Rússar leggja á sögu sína, einkum "Föðurlandsstríðið mikla" 1941-1945.

Líklega á engin þjóð eins marga leiðtoga úr sögu sinni, sem hafa verið sveipaðir mikilleik í hástigi í sögubókum sínum. 

Leiðsögufólk nefndi Bresnéf eins um guðdómlega veru væri að ræða 1978 en þar áður höfðu Stalín og Lenín verið dýrkaðir. 

Úr fortíðinni segja nöfn eins og Pétur mikli og Katrín mikla sína sögu. 

Flestir voru þessir þjóðarleiðtogar ósparir á að beita kúgun, harðræði og glæpaverkum til þess að efla völd sín, en engu að síður eru nöfn þeirra letruð gullnu letri eða að minnsta kosti stóru letri í rússneskri sögu. 

Vladimir Pútin er á góðri leið með að skrá nafn sitt með stóru letri í rússneska sögu og nú þegar talinn valdamesti maður heims fjögur ár í röð.

Samt er Rússland fyrir neðan Spán í þjóðarauði og þjóðarframleiðslu og enn neðar á lista í flestu því sem notað er til að mæla velgengni borgara hinna ýmsu ríkja heims.

En Pútín hefur lag á að spila á þá staðreynd, að þjóðin ræður yfir öðru af tveimur langstærstu kjarnorkuvopnabúrum heims, og að Pútín eyðir frekar takmörkuðum fjármunum ríkisins frekar í herinn en í velferðarmál og innviði hins borgaralega samfélags.

Og Rússar voru þjóðin sem auðmýkti bæði Napóleon og Hitler þegar þeir kumpánar héldu að veldi sitt væri með sem mestum blóma.  

Meirihluti Rússa virðist láta sér veldi og ofríki Pútíns vel líka. Ekki ónýtt ef nafn Pútíns bætist við nöfn Stalíns, Lenins, Péturs mikla og Katrínar miklu.   

 


mbl.is Pútín sagður valdamesti maður heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþrifnaðurinn er með eindæmum.

Það er ekkert annað en óþrifnaður að hreinsa ekki ryk og tjörusalla mánuðum saman af götum Reykjavíkurborgar. 

Svona sleifarlag er ekki liðið erlendis. 

Auk uppsöfnunar svifryks af slitnum götum er ekkert gert til að hreinsa upp þar sem vinnubílar og jarðvegsflutningabílar vaða með drullu af vinnusvæðum inn á göturnar og útata þær í auri. 

Reynt er hér á blogginu að kenna öðru en slitinu á götunum um svifrykið, en tjöruausturinn aftan úr stórum bílum yfir bílana á eftir þeim, sem leggst á framrúður og ljós, þekkja allir, sem eru á ferðinni, og finna muninn á ástandinu til hins betra seint á hverju vori en til hins verra seint á haustin. 

 


mbl.is Sextánföld svifryksmengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blásið í blöðru vegna ástands vegar.

Jöklajeppar á stórum dekkjum geta verið erfiðir í stýri við vissar aðstæður. Í fyrravetur var ég eitt sinn á slíkum bíl á leið upp Ártúnsbrekkuna þegar vatn var í hjólförum og var því tæknilega ómögulegt að aka bílnum alveg þráðbeint áfram, ekki hvað síst vegna þess, að í ofanálag var hvass og byljóttur hliðarvindur.  

Lögreglubíll kom á eftir mér og var ég stöðvaður og beðinn um að blása í blöðru sem ég gerði með mikilli ánægju, maður sem aldrei hefur bragðað vín á 76 ára ævi. 

Það er svo skemmtilegt þegar þannig stendur á hjá viðkomandi að hann geti fært svona atvik til bókar. Ég lét reyndar útskýringar varðandi ástand götunnar, hliðarvindinn og eðli jöklajeppa fljóta með í samtali mínu við lögreglumennina, en talaði fyrir daufum eyrum, bíllinn nýskoðaður og í fínu standi og því eðlilegt hjá þeim að útiloka ölvun við akstur.Léttir%2c ská aftan frá (1)

Þegar ég fékk mér létt vespuhjól í sumar ákvað ég að nýta mér það, að ellibelgir eins og ég geta fengið frítt einkanúmer.

Mig grunar að það sé frá tíð Geirs H. Haarde sem fjármálaráðherra, en hann hafði einkar góðan skilning á mismunandi aðstæðum bíleigenda.

Ef lögreglumönnum sýnist það óeðlilegt að menn að nálgast áttrætt séu á vélhjólum, geta þeir séð tilsýndar í mínu tilfelli að ástæðan er ekki ölvun.

Auk þess er gott mál að auglýsa þarfa starfsemi og lifnaðarhætti á einkanúmerum, svo sem það að vera edrú og hlynntur starfsemi SÁÁ.  

 


mbl.is Síðast malbikað árið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öruggasta heilbrigðisaðgerðin: Að hætta mælingum?

Á grundvelli mælinga og rannsókna eru að koma í ljós vísbendingar um heilbrigðisvandamál af nýjum toga á næstu áratugum, sem muni kosta þjóðir og mannkyn gríðarlegar fjárhæðir.

Nú er svo að sjá af umræðunnni um mælingar og rannsóknir varðandi loftslagsvísindin, að einfaldasta leiðin til þess að leysa þessi heilbrigðismál og flest önnur svipuð mál yrði sennilega að "taka Trump á þau".

Skera stórlega niður eða leggja jafnvel niður allar mælingar á fólki, svo sem að mæla þyngd, blóðþrýsting, púls, samsetningu blóðs og þvags o. s. frv.

Margt myndi vinnast með þessu:

Stórfelldur sparnaður í heilbrigðiskerfinu þar sem hægt væri spara milljarða með því að segja upp því fólki sem stundar mælingarnar.

Þegar mælingarnar hverfa hverfa verða líka öll gögn í sama fari og þau voru áður en tekinn var Trump á þau, og engin ný gögn munu tákna að ekkert verður að neinum.

Hitinn verður til dæmis aldrei neitt vandamál eftir að búið er að henda hitamælinum og heldur ekki önnur heilsufarsatriði þegar búið er að leggja af notkun og rekstur og viðhald hvers kyns mæla og rándýrra og mannfrekra skoðunartækja.

Í Bandaríkjunum verður kjörorðið "make America great again!" víkkað út í "make Americans great again!"

Og miðað við þá staðhæfingu Trumps að enginn viti hvort loftslag sé að hlýna verður hægt að segja að enginn viti hvort nokkuð sé að heilsu nokkurs manns og þar með sé ekki hægt að afsanna að þjóðin sé og verði sú heilsuhraustasta í sögu mannkynsins.

Íslendingar sönnuðu þetta með tímamótaaðferð um síðustu aldamót þegar þeir "tóku Trump á ástand umhverfismála hér á landi og skiluðu í skýrslu til Sameinuðu þjóðirnar um "ástand jarðvegs og gróðurs á Íslandi":  N/A.

Sem hafði þau áhrif á skýrsluna að með því að leyna skussaniðurstöðunni, sem íslenskur umhverfisverðlaunahafi Norðurlandsráðs hafði komist að skömmu áður, komst Ísland í röð efstu þjóða í umhverfismálum!   


mbl.is Afrita loftslagsgögn af ótta við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband