Norrænt módel í gangi á þingi?

Ástandið í stjórnmálum landsins á sér enga beina hliðstæðu hvað varðar þá samvinnu og gagnkvæmt tillit sem þingflokkarnir viðhafa við gerð fjárlaga. 

Að vísu hafa áður setið minnihlutastjórnir á svipuðum árstíma 1949 og 1979, en það er nýlunda að samráð um gerð fjárlaga og önnur forgangsmál sé eins víðtækt og núna.

Þetta minnir dálítið á þau vinnubrögð sem hafa tíðkast áratugum saman í sumum nágrannalöndum okkar.

Má jafnvel tala um norrænt módel í þessu efni, sem hefur stungið talsvert í stúf við átakastjórnmálin, sem hafa gegnsýrt störfin á Alþingi hér á landi lengur en elstu menn muna. 

 


mbl.is „Við erum að horfa á tímasprengju“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar jörðin þiðnar..."

Rússneska máltækið "þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp" sannast enn og aftur á svonefndum samfélagsmiðlum.

Þegar netið og netmiðlarnir komu til sögunnar, auk möguleikans til að senda smáskilaboð, varð til dásamlegur og þarfur vettvangur fyrir aukin ættar-, vina- og fjölskyldutengsl.

En því miður fann þar einnig farveg fólk, sem nærist á alveg sérstaklega illskeyttum svívirðingum og árásum úr launsátri, nær alltaf undir nafnleynd. 

Þetta er nýr veruleiki, sem við verðum að horfast í augu við og takast á við.  

Sem betur fer vega kostir netsins og miðlanna enn sem komið er þyngra en gallarnir.  


mbl.is Hvattur til að fyrirfara sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra alltof seint en aldrei?

Með opnun vegar yfir Dynjandisheiði milli botns Arnarfjarðar og Vatnsfjarðar fyrir rúmri hálfri öld var brotið blað í samgöngum á Vestfjörðum þegar loks varð akfært alla leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

En reyndar aðeins að sumarlagi.

Þá hefði átt að halda áfram við að bæta leiðina fyrir Breiðafjörð en illu heilli var ákveðið að tengja Vestfirði með heilsársvegi við aðra landshluti 15 árum síðar með því að gera veg yfir Steingrímsfjarðarheiði og fara um Strandir í staðinn.

Eitt af því sem gert var til að réttlæta þetta var gerð svonefndrar Inndjúpsáætlunar þar sem stórkostleg uppbygging byggðar og atvinnustarfsemi í Ísafjarðardjúpi átti að fylgja í kjölfar þessarar vegagerðar.

Í dag er lestur þessarar áætlunar grátbroslegur, Dúpið að mestu orðið að eyðibyggð.

Þau rök að höfuðáherslu þyrfti að leggja á að tengja Hólmavík og Strandir við Ísafjörð stóðust ekki, enda ér álíka langt frá Hólmavík til Ísafjarðar og frá Hólmavík til Reykjavíkur

Ekki þarf annað en líta snöggt á landakort til að sjá hve gríðarlangur krókur fólst í því að fara um Strandir í stað þess að fara um Dalasýslu. Stysta flugleið milli Reykjavíkur og Ísafjarðar liggur um miðjan Breiðafjörð. 

Enn í dag eru samgöngur við Vestfirði sér á parti á Íslandi. Þetta er eini landshlutinn sem ekki hefur möguleika á flugi í myrkri og landleiðin um Barðastrandasýslu er í grundvallaratriðum sú sama og var fyrir hálfri öld. 

Áður en vegur kom um Þröskulda var styttra að aka frá Reykjavík um Þorskafjarðarheiði og þaðan nánast til baka yfir í Steingrímsfjörð til Hólmavíkur en að fara þáverandi Strandaleið.

Vegur um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar styttir vesturleiðina mjög mikið og með vegabótum á Dynjandisheiði, sem hljóta að verða að koma í framhaldinu, er verið að framkvæma samgöngubætur sem hefðu átt að vera búið að gera fyrir að minnsta kosti tuttugu árum.  

En svo að endað sé á jákvæðum nótum þegar jólin eru að koma og sól fer að hækka á lofti, má kannski segja að betra sé alltof seint en aldrei.  


mbl.is Snýr málinu við fyrir Vestfirðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband