Þarf sterk bein til að þola góða daga.

Í gærkvöldi átti ég leið um hringtorgið á mótum Njarðargötu og Sóleyjargötu. Á meðan ég kom að torginu eftir Njarðargötu, ók kringum torgið og hélt áfram norður Sóleyjargötu, áttu fjórar rútur, fullar ef erlendum ferðamönnum leið á sama tíma í kringum torgið, og voru rúturnar hver frá sínu rútufyrirtæki. 

Þetta hefði verið óhugsandi á þessum árstíma fyrir aðeins tveimur árum en er dæmi um ferðamannabylgjuna sem skellur nú á landinu allan ársins hring og fer svo hratt vaxandi, að það er farið að vekja ugg ekki síður en ánægju.

Sagt er að það þurfi sterk bein til að þola góða daga og hinn mikli hagvöxtur hér á landi, sem er fyrst og fremst tilkominn vegna ferðamannasprengjunnar, getur endað með bakslagi, samanber máltækið enska: "What goes up must come down." 

Á ýmsum svæðum í Bandaríkjunum, þar sem mikil ásókn er í ferðir um víðerni og viðkvæm náttúruverndarsvæði, hefur fyrir löngu verið sett á ítala, það er, aðeins er leyft að ákveðinn fjöldi ferðamanna sé á svæðinu á hverjum tíma. 

Biðlistarnir geta verið mismunandi langir, stundum jafnvel fjöldi ár. 

Með þessu vinnst fernt:  

1. Ferðafólkinu er tryggð upplifunin af friði og töfrum ósnortinnar náttúru.

2. Ferðafólkið verður meðvitað um verðmæti svæðanna þannig að eftirspurn myndast eftir því að fá að sjá þau.

3. Þessi eftirspurn er svo mikil, að fólki finnst tilvinnandi að bíða í tilhlökkun eftir því að komast að. 

4. Í stað þess að hrúga sem flestum óskipulega inn á svæðin er umferðinni dreift á lengri tíma og með því stuðlað að jafnari vexti, verndun svæðanna og minnkuð hættan á bakslagi.

Hér á landi er rík tilhneiging til þess að andæfa hugmyndum um "afskiptasemi" varðandi ferðamál.

Svo rík er krafan um að "...á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint.." að menn taka sér í munn orðin "auðmýking og niðurlæging" þegar rætt er um að við reynum að draga lærdóm af 140 ára reynslu annarra þjóða í þessu efni.     


mbl.is Ísland á lista yfir lönd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Las rétt í þjóðarsálina þótt hann fengi færri atkvæði?

Donald Trump yfirsteig fleiri hindranir á leið sinni í Hvíta húsið en dæmi eru um áður. 

Leiðin var vörðuð nokkrum áföngum á milli hindrana í forkosningaferli Republikana, sem nær allir töldu óyfirstíganlegar.

Það er hins vegar ofmælt hjá Vladimir Pútín að Trump hafi lesið hárrétt í þjóðarsál meirihluta Bandaríkjamanna, því að Hillary Clinton fékk næstum þremur milljónum fleiri atkvæði.

Hann las hins vegar hárrétt í stemninguna í ryðbeltisríkjunum svonefndu þar sem starfsfólk í fyrrum stórverksmiðjum Bandaríkjanna missti atvinnuna í stórum stíl vegna þess að framleiðslan var færð annað, oftast til annarra landa.

Um kosningu kjörmannanna í þessum mörgu og fjölmennu ríkjum munaði yfirleitt litlu á Clinton og Trump, en um fyrirkomulagið gilti lag ABBA: "The winner takes it all", sigurvegarinn fær allt, taparinn ekkert.  


mbl.is Aðeins Rússar trúðu á sigur Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er hægt líka að gera það.

Í nágrannalöndum okkar hefur víða komist á einskonar hefð fyrir því að þegar ekki tekst að mynda meirihlutastjórn, kemst á samkomulag um það að mynduð sé sú minnihlutastjórn sem kemur skást út með tilliti til úrslita kosninga og hlutfalla á þingi. 

Það getur að vísu stundum verið ókostur fyrir ríkisstjórn, sem vill koma pólítískum markmiðum sínum í framkvæmd, sem mörg hver horfa til framfara, að hafa ekki tryggan meirihluta á þingi, en þurfa í staðinn að stunda samræðu- og samningastjórnmál til að stjórna landinu.

En hrun trausts á Alþingi og stjórnmálamönnum hér á landi sýnir, að vilji kjósenda stendur til þess að koma á skaplegri vinnubrögðum á þingi en þar hafa verið um langa hríð.  

Þegar Ragnar sonur minn var við nám í Danmörku fyrir tuttugu árum, lýsti hann því fyrir mér, hve gerólík vinnubrögð væru viðhöfð þar í landi miðað við hin hefðbundnu átakastjórnmál, sem gegnsýrðu allt hjá okkur. 

Sagði hann að þetta væri eitt af því sem hefði komið sér mest á óvart við að kynnast Dönum, dönsku þjóðlífi og danskri menningu og aðlagast hinu erlenda samfélagi á þessum námsárum.

Líklegt er, að þegar frá líður verði ársins 2016 ekki aðeins  minnst sem ársins, þegar íþróttafólk okkar varpaði ljóma á land okkar og þjóð, heldur líka ársins, þegar alger umskipti urðu í vinnubrögðum í stjórnmálum í apríl, umskipti, sem entust út árið.  


mbl.is Fjárlög samþykkt af minnihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skipulagt brjálæði " 1914. Hvað nú?

Á nýjársdag 1914 líkti einn helsti ráðamaður Breta þáverandi vígbúðarkapphlaupi stórveldanna við skipulagt brjálæði. Sjö mánuðum síðar braust út heimsstyrjöld, sem stóð í meira en fjögur ár 1914-1918 og var síðan fram haldið í sex ár 1939-1945. 

Hafi vopnin 1914 verið vitfirringsleg er varla hægt að finna orð yfir vopnin nú, sem gereytt gætu mannkyni. 7000 kjarnorkuvopn eru í huga Trumps allt of lítið fyrir þau Bandaríki sem gera þurfi stórkostleg á ný.  

Trump sýnir nú á spil sín eitt af öðru með mannaráðningum og ummælum og meðal þeirra sem hann hefur ráðið er að ráða sem sérstakan ráðgjafa er maður, sem hefur hlotið frægð fyrir leggja fæð á Kínverja um langt árabil með ummælum, skrifum og verkum af ýmsu tagi og hvetja til undirbúnings kalds stríðs eða jafnvel beinna stríðsátaka við Kínverja. 

Alveg þveröfugt við þá stefnu sem Henry Kissinger, einhver frægasti ráðgjafi í sögu forseta Bandaríkjanna, hafði frumkvæði um að yrði fylgt.  

Kínverjar eru taldir eiga nokkur hundruð kjarnorkuvopn eða aðeins innan við tíundahluta af því sem Bandaríkjamenn eiga, en samt koma nú yfirlýsingar frá Trump um að Bandaríkin verði að taka frumkvæði í fjölgun þessara vopna. 

  


mbl.is Vill aukinn kjarnorkuvopnastyrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband