Björgunarafrekið mikla og gleymd nöfn Guðbrands og Inga Björns.

Gott er að björgunarafrekinu mikla í Vöðlavík 1993 hafi verið gerð skil í heimildamynd, svo magnaður og merkilegur sem þessi atburður var, og er vert að þakka þeim sem gerðu þessa mynd á meðan nógu margir voru enn á lífi til frásagnar.

Aðeins eitt fannst mér vanta í þessa þörfu mynd, - að nefna nöfn tveggja manna sem lögðu á sig mikla fyrirhöfn til að berjast fyrir því að Landhelgisgæslan eignaðist fullkomna björgunarþyrlu.

Þessi nöfn eru Guðbrandur Guðbrandsson og Ingi Björn Albertsson.

Guðbrandur kynntist frönsku Super Puma þyrlunnum þegar hann var þyrluflugmaður erlendis fyrir rúmum þremur áratugum og rann svo til rifja að sjómannaþjóðin íslenska ætti ekki slíka þyrlu, að honum tókst að koma því til leiðar að ein slík kæmi til Íslands svo að ráðamenn hér kynntust henni af eigin raun.

Fréttaflutningur af þessu þarfa framtaki kom talsvert í minn hlut, en ég minnist þess enn vel hvað fordómarnir hér á landi voru miklir í garð þessarar hugmyndar Guðbrands.

Þetta var á þeim árum sem það var lenska hér á landi að telja Bandaríkjamenn fremsta allra þjóða á öllum sviðum flugsins. Að sjálfsögðu voru þeir það á flestum sviðum flugsins en ekki öllum. Maður heyrði ummæli eins og "franskt drasl" þegar rætt var um Super Puma þyrlur.

Á meðan þyrlan var hér á landi strandaði bátur utarlega undir Stigahlíð, sem er yst við Ísafjarðardjúp á milli Skálavíkur og Bolungarvíkur.

Stigahlíð og Deild eru þverbrött fjöll og óhægt um vik að bjarga skipverjum í land.

Þyrlan var hins vegar tiltæk og fór þangað til að bjarga skipbrotsmönnum.

Guðbrandur var langt á undan samtíð sinni í þessum málum, svipað og Sverrir Runólfsson varðandi aðferðina "blöndun á staðnum" sem hæðst var að og talin ótæk. Mörgum árum síðar kom síðan að því að ryðja bættri og skyldri aðferð braut við að leggja vegi hér á landi.

Halda hefði mátt að björgunin milli Skálavíkur og Bolungarvíkur undir snarbrattri hlíð opnaði augu margra en þvert á móti hafði hún ekkert að segja. Guðbrandur og þyrluflugmennirnir voru af sumum bara sagðir hafa verið heppnir að þetta skyldi gerast einmitt á meðan þyrlan var hér!

Þegar Ingi Björn Albertsson sat á Alþingi 1987-1995 var honum þetta mál afar hugleikið og lagði hann sig svo mjög fram við að berjast árum saman fyrir kaupum á Super Puma þyrlu, að haft væri á orði í niðrandi tóni að hann "væri með þetta á heilanum."

Á síðara kjörtímabilinu sem Ingi Björn sat, eða til 1995, var flokkur hans þá, Sjálfstæðisflokkurinn, með stjórnarforystu og var "röfl" Inga Björns ekkert vel séð á þessum árum efnahagslegs samdráttar hér á landi og erlendis.

Ekki vantaði heldur fordómana hjá sumum gagnvart honum, sem byggðust á því að hann og faðir hans væru ekki marktækir í þessu máli, af því að Super Puma væri frönsk, og að þeir hefðu um langa hríð haft viðskipasambönd við Frakkland og væru aðdáendur þeirrar þjóðar.

Í myndinni í kvöld kom fram að björgunarafrekið í Vöðlavík varð til þess að loksins var gerð gangskör að því að kaupa öfluga þyrlu, Aerospatiale Super Puma sem markaði byltingu í björgunarmálum á Íslandi.  

En það hefði vel mátt nefna nöfn þeirra tveggja manna sem tóku upphaflega þetta mál upp á sína arma og börðust gegn sinnuleysi og fordómum, Guðbrandur Guðbrandsson og Ingi Björn Albertsson.

 


"Gamli-Ótryggur" eða "Gamli í dái"?

Allir goshverir heims bera alþjóðaheitið "Geysir". Það tekur oft langan tíma að fá útlendinga til þess að meðtaka þá staðreynd að um goshveri heims gildir svipað og um keisara heims, sem allir bera samheitið "Kesar" eða "Sesar".

Eftir að Evrópubúar enduruppgötvuðu Ameríku endanlega kom í ljós, að í Klettafjöllum var jafnoki Geysis í Haukadal, sem var svo reglusamur, að hann fékk heitið "Gamli-Tryggur" ("Old Faithful") og hefur ekki brugðist því trausti sem í nafninu felst síðan.

Fyrstu áratugi síðustu aldar gaus Geysir fyrir konunga og aðra gesti, sem til landsins komu, en með æ lengra millibili, þannig að frekar gefa honum mátt honum viðurnefnið "Gamli-Ótryggur".

Lengi vel var hægt að koma honum til með því að bera í hann sápu til að létta vatnsfargið, en áfram hrakaði heilsu hans.

Um og upp úr miðri síðustu öld var hann fallinn í dá, en með því að saga rauf í barm hans og bera í hann sápu og leyfa Hrafni Gunnlaugssyni að taka kvikmynd af Geysisgosi, var honum haldið um hríð í nokkurs konar öndunarvél hvað snerti það að hjálpa honum til að gjósa.

Upp úr miðjum tíunda áratugnum gaus hann nokkrum sinnum, en hefur nú verið í dái í tæplega tvo áratugi.

Það er aðeins til einn ósvikinn Geysir á jörðinni þótt aðrir goshverir beri nafn hans. 

Þess vegna er það eftirsóknarvert að sjá hann gjósa. En til að seðja hungur ferðamanna, sem koma á svæðið og verða hugsanlega yfir ein milljón á næsta ár, bjargar Strokkur málum, enda býður hann upp á miklu fleiri gos en Gamli-Tryggur í Yellostone. 

Á meðan þannig er komið málum verður fyrrum mikilfenglegasti og frægasti goshver heims að sætta sig við forna frægð eina saman, líkt og Schumacher kappakstursmeistari.  

 

 


mbl.is Geysir gaus af sjálfsdáðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband