Dauðagildrur. Af hverju ekki nothæf skilti á Íslandi?

Einbreiðar brýr eru ekkert séríslenskt fyrirbæri. Slíkar brýr er að finna í mörgum löndum og öllum heimsálfum. Í hinum ríka Noregi voru meira að segja einbreiðar brýr á þjóðleiðinni milli Osló og Björgvinar, stærstu borga Noregs fyrir aðeins áratug.IMG_7226

Eftir akstur um endilangan Noreg, Svíþjóð, Finnland og á þjóðvegum í norðvestanverðu Rússlandi, sést vel að íslenskir þjóðvegir eiga sér samsvörun víða. Og í fyrstu slíkri ferð okkar Helgu, í hópi norrænna bílablaðamanna árið 1978 á nýjum Volvobílum frá Rovaniemi í Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk, sáum við víða skilti við einbreiðar brýr, sem sjá má í yfirlitum yfir viðurkennd vegaskilti í Evrópu.IMG_7225

Efri myndin hér á síðunni er tekin upp úr íslenskri minnisbók 2016 og þar sést vinstra megin í miðröðinni á myndinni, svona skilti, kringlótt með tveimur örvum.  .

Ég tók af einu svona skilta á Kolaskaga meðfylgjandi svarthvíta mynd, sem ég hef litað eftirá með rauðleitum lit þar sem það er rautt. Bíll kemur á móti á malarvegi, og í baksýn er einbreið brú.

Á skiltinu eru tvær örvar, önnur svört en hin rauð. Svarta örin vinstra megin táknar bílinn, sem kemur á móti, en rauða örin, sem vísar upp hægra megin, táknar bílinn sem við erum í.

Hún táknar, að ef við mætum bíl á brúnni framundan, hefur umferðin á móti forgang, þannig að verði árekstur, er hann okkur að kenna. Í íslensku minnisbókinni stendur: "Skylt að veita umferð, sem kemur á móti, forgang".

Í Íslandi eru hins vegar ekki svona skilti, sem ég minnist að hafa séð, heldur á sá bíll forgang sem fyrr kemur inn á brúna og það hefur valdið mörgum árekstrum, örkumlum og jafnvel mannskæðum slysum, til dæmis þegar báðir bílstjórarnir hafa farið í nokkurs konar kappakstur til þess að verða á undan hinum inn á brúna.

Á vegi með 90 kílómetra hámarkshraða, þar sem tveir bílar mætast, minnkar bilið á milli þeirra með hraða, sem samsvarar því að annar sé kyrrstæður en hinn á 180 kílómetra hraða.

Ég hef komið að árekstri á einbreiðri brú þar sem annar ökumaðurinn hélt að hann yrði örugglega á undan inn á brúna en hinn var á aflmiklum Benz og jók ferðina svo mikið að hann komst inn á brúna en henti hinum bílnum í stórárekstri til baka út af brúnni!

Bílstjórinn á Benzinum taldi samt að hann hefði átt "réttinn", átt forgang, af því að þegar bílarnir stöðvuðust stöðvaðist hans bíll langt inni á brúnni og hinn virtist ekki hafa komist inn á hana. 

Bílstjórinn á bílnum, sem hent var afturábak í hinum harða árekstri, sagði hins vegar, að fyrir hann hefði verið ómögulegt að sjá fyrir hinar breyttu aðstæður sem breyttu stöðu hans úr því að verða á undan inn á brúna í það að báðir bílarnir kæmust inn á brúna.

Bílstjórinn á Benzanum hélt að það sæist vel að hann hefði verið á undan af því að hinn bíllinn var handan við brúna þegar bílarnir stöðvuðust. Hann gætti hins vegar ekki að því að glerbrotin úr bílunum báðum voru á þeim enda brúarinnar sem hann kom inn á og sýndu hvar bílarnir skullu saman. 

Þegar merki blasa fyrirfram við báðum bílstjórum, þar sem sýnt er hvor á forgang og framundan er þrenging vegar, er hins vegar enginn vafi: Sá sem ekur inn á brúna og er táknaður á skiltinu með rauðri ör, ber ábyrgðina ef árekstur verður.

Ég spurði Rússana hvernig þetta hefði reynst og þeir töldu þetta hafa reynst mjög vel og voru hissa á að svona merki væru ekki notuð á Íslandi.

Þegar ég sagði frá þessu hér heima og sýndi myndina af merkinu í Rússlandi létu menn sér fátt um finnast og maður fékk nokkuð fyrirséð viðbrögð: "Við höfum ekkert með einhver rússnesk merki að gera, heldur höfum þetta í samræmi við "séríslenskar aðstæður".

Eftir tvö ár verða 40 ár síðan ég bar þetta mál upp og mér vitanlega hefur ekkert gerst.

Eina skiltið af þessu tagi sem ég hef séð er við mjóa innkeyrslu niður á bílaplan hjá Heklu við Laugaveg.

Ekki er mér kunnugt um hvort einhverjir hafa á þessum 38 árum kynnt sér notkun þessara skilta erlendis.

Útlendingar geta engan veginn vitað hvað íslensku skiltin um einbreiðu brýrnar þýða. Þeir skilja ekki orðin "einbreið brú", og í yfirlitinu í minnisbók minni um umferðarmerki eru þessi íslensku merki ekki sýnd, enda finnast þau hvergi erlendis nema í Bretlandi, og þegar gúglað er um þau finnast þau sem jólaskraut!

Með öðrum orðum: Í núverandi ástandi merkinga við einbreiðar brýr á Íslandi eru tifandi tímasprengjur fyrir útlendinga. 

Ekki þarf annað en að setja upp viðurkennd og skiljanleg alþjóðleg skilti um að þrenging sé framundan á veginum þar sem bílar nálgast einbreiðar brýr, lækka leyfilegan hraða ofan í 70 km/klst í tæka tið og hugsanlega setja líka upp forgangsskilti til þess að gerbreyta aðstæðunum, sem hafa þegar kostað tvo harða árekstra með stuttu millibili, örkuml og banaslys. 

Tæki kannski 2-3 vikur að gera það. 

Það eina sem virðist hafa gerst varðandi banaslys eystra er að annar bílstjórinn, sem lenti í öðru slysinu, útlendingur, var settur í gæsluvarðhald og er enn í farbanni, maður sem kom að stað, þar sem nauðsynleg, alþjóðlega viðurkennd og skýr skilti vantaði.  

Fyrir 38 árum var sagt að skilti sem útlendingar notuðu og skildu hvaða merkingu hefðu við einbreiðar brýr ættu ekki við á Íslandi.

Á þessu ári munu fimm sinnum fleiri útlendingar koma til Íslands en nemur fjölda okkar sjáfra. Ef þeir aka hringveginn bíða þeirra 40 einbreiðar brýr sem eru dauðagildrur fyrir þá. 

Sömu svörin heyrast nú og 1978 um gagnsleysi fyrrnefndra skilta, þrengingarskiltis og forgangsskiltis sem útlendingar þekkja og mega eiga von á við einbreiðar brýr í öðrum löndum, - að þau eigi ekki við hér á landi. 

Hefur gagn og gildi þessara skilta í öðrum löndum verið kannað af íslenskum yfirvöldum?

Og jafnvel þótt hér væru engir útlendingar, af hverju eiga þau ekki við eins og á Kolaskaga 1978, þegar þar voru nánast engir útlendingar á ferð? Af hverju hefur gagnsemi þeirra í svo einsleitri umferð ekki verið könnuð?

Það kæmi mér ekki á óvart að það hafi ekki verið gert, - ekki frekar en fyrir tæpum fjórum áratugum.  

 


mbl.is Kostar 13,2 milljarða að útrýma einbreiðum brúm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir lögðu kollhúfur 2007.

Fyrstu vísbendingar um erlendan áhuga á að reisa gagnaver birtust á fundi, sem ég sat í ársbyrjun 2007.

Þá blasti við, að þarna voru komin fyrirtæki, sem vildu borga hærra orkuverð, hærri laun, menga margfalt minna og nota miklu minni raforku en álverin, sem á þessum tíma stóðu á hátindi áltrúnaðarins sem höfðu verið nokkurs konar trúarbrögð hér á landi síðan 1965.

Allir lögðu kollhúfur 2007, líka sumir meðal andstæðinga stóriðjustefnunnar.

Raunar voru lagðar kollhúfur varðandi allt sem ekki var stóriðja, sem þó bauð upp á lang mestan kostnað á bak við hvert stofnað starf og gat aldrei boðið upp á frambúðarstörf fyrir meira en 4% af vinnuafli þjóðarinnar.

Möguleikar ferðaþjónustu voru afgreiddir með tali um fjallagrös.

Gagnaverin voru talin falla undir hinn vonlausa hæðnisstimpil "eitthvað annað" og voru talin einskis verð hugmynd. Einungis sex risaálver gætu "bjargað þjóðinni".

Gagnaverin eru að sjálfsögðu ekki gallalaus frekar en álverin, en engu að síður miklu skárri kostur af ofangreindum ástæðum.

Nú eru þau að koma með alla kostina fram yfir álverin, en samt stendur enn óhögguð einróma stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá fyrstu valdadögunum 2013 um að risaálver skuli rísa í Helguvík.  

 


mbl.is Gagnaverin komin til að vera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki að undra vegna kostakjara.

Á orkubloggi Ketils Sigurjónssonar að undanförnu hefur sést vel hve vel Alcoa og Norðurál eru einstaklega vel sett varðandi lágt orkuverð og tengingu þess við álverð þannig að Landsvirkjun er skuldbundin til að lækka orkuverðið með því að tengja það við verð á áli en ekki við notkun til annars.

Þar að auki eru sérstök ákvæði hjá Alcoa varðandi það að ekkert þak er á því hvað skuldsetja má álverið með bókhaldsbrellum þannig að vaxtagreiðslur þess verði jafnmiklar og tekjurnar. '

Þetta undanskot frá tekjuskatti gildir í margra áratuga samningstíma og kemur í veg fyrir að hér á landi sé hægt að setja reglur eins og gert hefur verið erlendis varðandi það að setja þak á vaxtagreiðslur, sem frádráttarbærar eru frá skatti.

Þessi vildarkjör hljóta að spyrjast út meðal erlendra orkukaupenda sem að sjálfsögðu leita til Íslands um orkukaup á þessum nótum.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt, að þessari sölustefnu fyrirtækisins verði breytt og er vonandi að honum takist það.


mbl.is Landsvirkjun annar ekki eftirspurn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búvörusamninga verður að skoða í stóru samhengi.

Eðlilega eru skiptar skoðanir um búvörusamningana og reynt er  í rökræðum um þá að setja þá í samhengi og samanburð við annað.

En þegar slíkt er gert verður samanburðurinn að vera raunhæfur, og málið skoðað með víða yfirsýn í huga, en þannig er það ekki alltaf.

Þannig hefur heildarupphæð búvörusamninga hvað eftir annað verið borin saman við upphæð fyrri Icesavesamningsins, sem þjóðin felldi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú síðast var þessi samanburður hjá fréttamanni hjá 365 miðlum.

Þetta er ekki sanngjarn samanburður. Í Icesave-samningnum var um það að ræða að Íslendingar borguðu ákveðna upphæð, sem rynni úr landi til annarra þjóða en í búvörusamningunum er um að ræða tilfærslu á fé innanlands.  

Til eru þeir sem telja að ekki sé rétt að styðja innlenda búvöruframleiðslu og reikna saman þjóðhagslegan ávinning sem renna myndi til neytenda ef stuðningnum yrði hætt.

Deila má um heildarupphæð búvörusamninga og hvort stuðningur við íslenskan landbúnað sé of mikill.

Hitt er nauðsynlegt að setja þann stuðning í samhengi við raunveruleikann í landbúnaðarmálum á Vesturlöndum og spyrja, hvort það sé sanngjarnt gagnvart íslenskum landbúnaði að honum sé skapað ósamkeppnishæft umhverfi samanborið við ríkisstyrktan landbúnað í samkeppnislöndunum.

Og síðan verður að reikna út þau áhrif, sem niðurskurður stuðnings hér á landi hefði á byggðamynstur og það þjóðlíf, sem meðal annars er atriði í þeirri upplifum sem sívaxandi fjöldi erlendra ferðamanna sækist eftir hér á landi.

Í Noregi er það talið stórt atriði í því að erlendir ferðamann upplifi umhverfi tónlistar Grieg og bóka Björnssons og Hamsuns, að ákveðið byggðamynstri sé viðhaldið sem tákni um norska menningu, og að þetta menningarumhverfi sé styrkt að því sé viðhaldið.

Það er að mörgu að hyggja varðandi styrktan landbúnað. Í heild eru ríkisstyrkir við hann á Vesturlöndum í ósamræmi við þá hugsjón í orði kveðnu að markaðslögmál eigi að gilda í framleiðslu þjóða og sölu á vörum.

Þessi stuðningur bitnar nefnilega á löndum utan Evrópu og Norður-Ameríku, - er í reynd eitthvert mesta óréttlæti í efnahagsumhverfi heimsins.

En á meðan við Íslendingar erum innan þessa kerfis Vesturlanda fáum við lítið að gert, einir og sér, til að þessu verði breytt.


mbl.is Þetta er frágengið mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband