Nægur tími fyrir mann sem þarf bara þriggja tíma svefn.

Svefninn er talinn nauðsynlegur fyrir hverja manneskju, helst ekki minni svefn en 7-9 stundir.

Þó er þetta persónubundið og sagt var að Margareth Thatcher hefði ekki þurft nema um fimm stundir og sömuleiðis Albert Guðmundsson hér heima.

Albert var kominn niður á Kaffivagninn á Grandagarði klukkan sex á morgnana, mörgum stundum áður en sumir aðrir Alþingismenn voru að hefja vinnu.

Á Kaffivagninum tók Albert púlsinn á lífinu í borginni og fór síðan upp í ráðuneyti á eftir á þeim árum sem hann var ráðherra.

Nýjar rannsóknir þykja hafa sýnt að enda þótt fólk komist upp með stuttan svefn, hafi það áhrif á skaplyndi þess og hegðun á daginn, og ekki til bóta.

Nú er búið að upplýsa fyrir vestan haf að Donald Trump hafi hér um árið sagt frá því að hann svæfi yfirleitt ekki nema í þrjár stundir á næturnar.

Ef fyrrnefnd lýsing á afleiðingum svo stutts svefns er rétt, útskýrir það flest atriðin í hegðun Trumps, sem hafa vakið svo mikla athygli undanfarnar vikur.

Og ekki þarf að undra þótt hann teldi sig hafa nægan tíma til að eyða nótt með Díönu heitinni Bretaprinsessu.

Þess má geta að 2008 gekk ég í gegnum tímabil mismunandi langs svefns. Vegna ofsakláða af völdum lifrarbrests gat ég ekkert sofið í þrjá mánuði, og ástandið var þannig að það stefndi í algert óefni , en það var ólýsanlegur munur þegar í fyrsta sinn kom þriggja stunda svefn.

Nokkrum dögum síðar kom nótt með 2x3 stundum og það var jafnmikill munur og þegar svefninn fór úr 0 upp í þrjár stundir.

Viku síðar kom síðan fullur svefn, alls 10 klukkustundir, og enn var um að ræða stórkostlegt framfaraspor.

Sagt er að Albert Einstein hafi þurft 14 stunda svefn, og skal engan undra það.


mbl.is Ekki hikað við að sofa hjá Díönu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi fyrirsögn.

LED-ljós hafa rutt sér til rúms um allan heim, en samkvæmt fyrirsögn á tengdri frétt á mbl.is mætti ætla að ljós af þessari gerð séu almenn ólögleg hér á landi, sem jafnvel mætti ætla að yrði að aftengja eða fjarlægja þar sem þau eru.

Þegar fréttin er lesin kemur hins vegar smám saman fram að það er ekkert ólöglegt við það að bílar séu með svona ljós, heldur er ólöglegt að nota þau í stað ökuljósa í samræmi við skyldu um að ökuljós logi á öllum bílum í akstri.

Betri fyrirsögn hefði verið: LED-ljós ekki lögleg ökuljós (hér á landi)

Annars hefur ýmislegt skondið komið upp í gegnu tíðina hér á landi varðandi það, hvaða búnaður sé löglegur á Íslandi.

Þegar fyrstu bílarnir með viðvörunarljós ("hazard-") voru fluttir inn til landsins á miðjum sjöunda áratugnum, var ekki orð að finna um þau í þágildandi bifreiðalögum, og þar með urðu þau að mati Bifreiðaeftirlits ríksins ekki aðeins sjálfkrafa ólögleg í þeim bílum, sem voru búnir þeim, heldur var þess krafist að þessi mikilvægi öryggisbúnaður yrði rifinn úr bílnum!

Ég lenti í þessu með nýjan bíl, en vegna þess að skoðunarmaðurinn var vinur minn, hvíslaði hann að mér: "Ekki henda þeim, þegar þú ert búinn að rífa þau úr, heldur geymdu þau, því að það er líklegt að þau verði leyfð, vonandi jafnvel næsta ár."  


mbl.is LED-ljós ekki lögleg hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Já, ef..."

Í meginatriðum er hægt að velja um þrenns konar viðbrögð við því ef vafi leikur á um ákveðna háttsemi, sem þarfnast samþykkis einhvers, sem um það fjallar, til dæmis yfirvalds eða leyfisveitanda.

1. "Já." Án þess að hamlandi skilyrði séu sett.

2. "Nei."

3. "Já, ef..." Eftir vandaða skoðun og rannsóknir er gefið leyfi að uppfylltum nauðsynlegum skilyrðum.

Hins vegar er langauðveldast er fyrir þann sem fjallar um háttsemina, til dæmis löggjafa eða yfirvald að velja kost númer 2.

"Nei", og málið er dautt.

Þess vegna vill tilhneigingin oft verða sú að sá kostur verður fyrir valinu og séu þessi viðbrögð valin að jafnaði, sem er lang þægilegast og fljótlegast fyrir viðkomandi yfirvald, myndast oft röð geðþóttaákvarðana og sívaxandi múr hindrana.

Á þessum forsendum hefur oft myndast séríslensk tregða gegn því að leyfa ýmislegt, sem hefur þótt sjálfsagt í öðrum löndum, þar sem valinn kostur númer 3:  "Já, ef..."

Hér á landi liðu til dæmis tuttugu ár frá því að rallakstur var leyfður í öðrum löndum með ströngum skilyrðum þangað til leyfi fékkst til þess hér.

Þurfti oft að standa í þrefi við lögreglu nóttina fyrir keppni til að hún gæti byrjað.

Ég minnist þess að þegar júdó barst til landsins ríktu miklir fordómar í garð bardagaíþrótta, annarra en íslensku glímunnar.

Voru brögðin í íþróttinni talin stórhættuleg og iðkun íþróttarinnar vítavert atferli.

Þegar júdómenn úr Ármanni brugðust við þessu með því að sýna á samkomum þauæfð brögð, sem virtust tilsýndar vera stórhættuleg en voru það í raun ekki, ef rétt var að farið, slaknaði smám saman á þessum fordómum.

Ég minnist þess að allt fram yfir 1980 var erfitt eða illmögulegt fyrir einstaklinga að fá léð til einkanota á heimilum sínum myndefni úr safni Sjónvarpsins.

Auðveldasta og ódýrasta svarið við þessu var: "Nei." Talið óhjákvæmilegt.

Sjónvarpið var þá á mótunarskeiði, hafði úr litlu fjármagni að spila, og það markaði umgjörðina. Einstakir starfsmenn höfðu vegna annarra verkefna ekki tíma til að sinna þessu.

Síðan kom að því að menn sáu, að hvort eð er var ekki mögulegt að standa á þessu, enda Sjónvarpið þjónustustofnun í eigu almennings, og þá var tekið til bragðs að fela sérstökum starfsmanni að annast þetta og tekin sanngjörn og eðlileg greiðsla fyrir.

Með árunum hefur þetta smám saman orðið að þjónustu, sem ber sig fullkomlega, skapar Sjónvarpinu drjúgar tekjur, og efni úr safni Sjónvarpsins er góð söluvara á almennum markaði. 

Í Reynisfjöru og á hliðstæðum ferðamannastöðum, hér á landi og erlendis, sem draga að sér tugi og hundruð þúsunda ferðamanna og skapa tuga milljarða gjaldeyristekjur á það ekki að vera neitt stórfellt vandamál að koma skikki á hlutina án þess að segja bara blankt "nei."

Að lausn vandamálsins skuli stranda á því að borga tveimur eftirlitsmönnum laun er fáránlegt miðað við þann gróða sem sem svona staðir skapa fyrir þjóðarbúið.  


mbl.is Hunsaði ekki aðvaranir í fjörunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband