Skilnaður er jafn mikið mannréttindamál og gifting.

Tíðni skilnaða er það mikil hér á landi að það hlaut að koma að því að úr því að hjónaband samkynhneigðra var leyft, að eitthvert parið vildi óska eftir skilnaði.

En svo er að sjá sem löggjafinn hafi verið alveg blindur á þetta og þess vegna er raunin sú að samkynhneigðir eru sviptir þeim mannréttindum sem gagnkynhneigðir hafa, að fá að skilja ef sambúðin gengur ekki upp.

Sem sagt: Misrétti og það er erfitt að skilja í tvennum skilningi og skiljanlegt að hommunum tveimur finnist þetta illskiljanlegt.


mbl.is Neyðast til að vera giftir áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræður lokaður valdahópur för?

Raunveruleg ákvörðun og stefnumörkun um byggingu sjúkrahúss við Hringbraut var tekin fyrir tveimur áratugum og síðan þá er ekki hægt annað en að draga þá ályktun af gangi mála, að sá hópur manna, sem réði þessari ákvörðun, hafi stjórnað allri umræðu og upplýsingagjöf um málið.

2005 fór ég í tengslum við ferð til Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, og skoðaði og myndaði tvö sjúkrahús til að fjalla um þau í sjónvarpsfréttum, sjúkrahús í Osló, sem þá var talið hið besta í Evrópu og byggt frá grunni á auðri lóð, og hins vegar sjúkrahúsið í Þrándheimi, þar sem um svipaðan "bútasaum" var að ræða og stefnt er að við Hringbraut.

Í viðtölum kom fram sú skoðun lækna, að sjúkrahúsið í Osló væri til fyrirmyndar en bútasaumurinn í Þrándheimi "víti til varnaðar."

Í framhaldinu kom vel í ljós hvernig ráðandi valdahópur virðist hafa stjórnað málinu hér á landi allt fram á þennan dag.

Á fundi á vegum Læknafélags Íslands var fyrirlesari kona, sem hefur reynslu af "bútasaumi" í gerð sjúkrahúsa í Bandaríkjunum, og þegar Kastljós Sjónvarpsins fékk sérfræðing um ný sjúkrahús til að fræða um málið í þættinum, var þar kominn, - ja, hver haldið þið? - Jú, sérfræðingurinn sem sá um bútasauminn á sjúkrahúsinu í Þrándheimi!

Fyrir 20 árum  var nægt rými við Borgarspítalann í Fossvogi og aðeins eitt hús risið.

Reykjavíkurflugvöllur í aðeins 2ja kílómetra fjarlægð.

En síðan kom að því að allt þetta mikla rými var smám saman fyllt af íbúðablokkum.

Ég átti erindi í Landsspítalann við Hringbraut í gær og þar ríkir öngþveiti í bílastæðamálum og sprengingar og læti kveða við vegna þess að verið er að reisa fyrsta húsið í "bútasaumnum."

"Svona er Ísland í dag" orð Jóns Ársæls, koma upp í hugann.  

 


mbl.is Breyta þarf ákvörðuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningabaráttan hefst snemma.

Ef allt væri í eðlilegu fari á stjórnmálasviðinu væri lítið um að vera hjá stjórnmálaflokkunum. Rúmt ár til kosninga og kosningabaráttan ekki á dagskrá fyrr en eftir næstu áramót.

En gríðarlegt og stöðugt fylgi Pírata hefur riðlað fylgi flokkanna, sem Píratar taka fylgi sitt frá, og þeir sjálfir skynja, að það er ekkert sjálfgefið að þeim haldist á þessu mikla fylgi áfram í meira en heilt ár í viðbót.

Þess vegna eru flokkarnir nú þegar byrjaðir á undirbúningi fyrir næsta vetur.

Píratar hafa haldið uppi heilmiklu fundastarfi að undanförnu til að vígbúast með stefnumörkun á sem flestum sviðum og hyggjast beita hugmyndum sínum um netlýðræði og beint lýðræði innan flokksins.

Verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst og hvort þátttakan verður næg til þess að marka einhver spor.

Á ráðstefnu í Brussel fyrir tveimur árum um beint lýðræði og netlýðræði vöktu menn frá þeim mikla athygli fyrir færni á þeim sviðum en þarna er að mestu leyti enn um óplægðan akur að ræða.

Aberandi er hvað Framsóknarmenn, þingmenn og aðrir, eru þegar byrjaðir á því að reyna að marka sér sérstöðu gagnvart Sjálfstæðismönnum að svo miklu leyti sem rými er fyrir það í stjórnarsamstarfinu og þeir ætla sér greinilega ekki að verða of seinir í undirbúningnum fyrir kosningarnar 2017.

Það hefur stundum gefist illa að koma seint til skjalanna í kosningabaráttu.

Gott dæmi um það var þegar Sjálfstæðismenn voru í vandræðum með að bregðast við brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr borgarstjórn árið 1991.

Þrír borgarfulltrúar voru einkum nefndir til að taka við af Davíð, en á endanum var Markús Örn Antonsson fyrrum borgarfulltrúi og þáverandi útvarpsstjóri kallaður til.

Myndun R-listans gerbreytti vígstöðunni og þegar kosningarnar 1994 nálguðust kom í ljós, að betur hefði gengið fyrir Sjalla að höggva strax á hnútinn og velja einhvern hinna þriggja, Árna Sigfússon, Katrínu Fjeldsted eða Vilhjálm Vilhjálmsson strax til forystu.

Á síðustu stundu var Árni kallaður til, en það var allt of seint. Á endasprettinum fyrir kosningarnar jókst fylgi hans en tíminn var of skammur og Sjallar misstu borgina og hafa aðeins verið við stjórnvöl hennar í þrjú ár af þeim 22 árum, sem síðan eru liðin.

Aðalfundur Samfylkingar skömmu fyrir kosningar 2017 er greinilega allt of seint á ferðinni og viðbrögðin við þeirri stöðu lýsa sér í því að færa fundinn að öllu leyti, líka hvað snertir val forystu, til júní á þessu ári.

Sú ákvörðun er eðlileg ef menn á annað borð vilja halda raunverulegan aðalfund og koma vel undirbúnir til leiks 2017.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist sætta sig við það að vera áfram með fylgi um fjórðungs kjósenda bæði á landsvísu og í borginni, svo framarlega sem fylgið er stöðugt og flokksforystan traust í sessi.

Það er mikill munur frá því sem var frá 1929 til 2009-10 þegar flokkurinn var með meðalfylgi í kringum 40%.  

 

 


mbl.is Samfylkingin kýs nýja forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalausar og fáheyrðar sviptingar.

Ef fylgistölurnar í skoðanakönnun Gallup kæmu upp úr kjörkössum í borgarstjórnarkosningum nú myndu Píratar og Samfylking geta myndað meirihluta á grundvelli 50,7% fylgis, en þessir tveir núverandi samstarfsflokkar, hafa verið fjarri því að geta það hingað til.  

En í stað eins borgarfulltrúa nú myndu Píratar fá minnst fimm fulltrúa og leiða þennan meirihluta með verulega laskaðan borgarfulltrúahóp Samfylkingar í samstarfi.

Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn gætu myndað mun fjölmennari og sterkari meirihluta upp á 10-11 fulltrúa af 15.  

Hrun Bjartrar framtíðar er algert. Hún myndi ekki fá neinn fulltrúa, en þar er á ferðinni fólk, sem var í framboði fyrir Besta flokkinn 2010, sem þá fékk 36% atkvæða ef mig minnir það rétt og komst yfir 50% í skoðanakönnunum í aðdraganda þeirra kosninga!

Hrun fylgisins hjá þeim nemur 90% af því sem Besti flokkurinn fékk 2010!

Framsókn myndi heldur varla fá fulltrúa.

Píratar ná, þrátt fyrir 30,9%, ekki jafn miklu fylgi og Besti flokkurinn fékk á blómatíma sínum, þannig að Guð má vita hvaða fylgi Píratar myndu hafa árið 2018.

Það eina, sem virðist vera hægt að lesa út úr fáheyrðum fylgistölum og fylgissveiflum nú, er að kjósendur eru í dauðaleit að stjórnmálaafli sem gæti bætt upp almennt vantraust þeirra á stjórnmálamönnum og stjórnmálum.


mbl.is Fylgi Samfylkingar hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Umskiptingar"? Endastöð útsýnisskorts?

Fyrstu "crossover" bílarnir, sem framleiddir voru í miklu magni, voru Subaru, Lada Niva og AMC Eagle, sem komu fram á síðari hluta áttunda áratugsins. AMC Eagle´82 á Landmannaleið

Aðeins Lada Niva var hannaður algerlega frá grunni, en hinir voru upphækkaðir fólksbílar með fjórhjóladrifi.

Allir voru bílarnir með heilsoðna skel, en fram að því höfðu aldrifsbílar verið á sérstakri grind.

Á myndinni er AMC Eagle ´82, staddur á Landmannaleið, en Subaruinn er ´81 árgerð og af 2. kynslóð Subaru aldrifsbílanna.Subaru´81. FÞ 400

Allir bílarnir, einkum Lada Niva, voru meira en áratug á undan sinni samtíð og mætti kannski kalla þá "umskiptinga".

Fiat Panda 4x4 kom fram 1983 og var fyrsti bíllinn með vélina þversum frammi í sem var með fjórhjóladrif.

Allir fyrrnefndir bílar verða kandídatar á hugsanlegu "Naumhyggjubílasafni."

Toyota C-HR er "stjarnan" á bílasýningunni í Genf, líklegast vegna þess að lengra verður tæpast komist í að hanna bíl með jafn litlum gluggum og lélegu útsýni. Lada Niva ´96

Sú tískubylgja hlýtur að fara að nálgast endamörk, því að annars verður næsta skref að búa þessa bíla með sjónpípu eins og kafbáta.

I nýjustu handbók Auto motor und sport er skortur á útsýni talið meðal galla bílanna, enda er skortur á útsýni ekki aðeins óþægilegt fyrir ökumanninn, heldur beinlínis hættulegt. Ef farið er inn á fréttina á mbl.is sést þetta betur. Toyota consept 

870500B[1]Fiat Panda 4x4´91

AMC Eagle ´82 


mbl.is Stjarnan hjá Toyota var C-HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband