Enn eitt dæmið um ráðaleysið.

Lokun leiðarinnar að skrokki Douglas Dakota flugvélarinnar á Sólheimasandi er enn eitt dæmið um ráðaleysið varðandi vinsæla ferðamannastaði hér á landi.

Flakið er að sönnu ekki hluti af íslenskri náttúru, en tilvist þess býður upp á tilbreytingu og góðan stað til óvenjulegrar myndatöku.

Í því sjálfu eru ekki fólgin nein óafturkræf náttúruspjöll heldur eingöngu vegna spjallanna af stjórnlausum akstri að því.

Það er aðeins þrjá kílómetra frá upphækkuðum og malbikuðum hringveginum um Sólheimasand og því að minnsta kosti athugandi að leggja malbikaðan vegarspotta þangað með möguleika á spjallalausri ferð, þar sem enginn hvati sé til utanvegaaksturs, heldur hnykkt á almennu banni um slíkan akstur.  

Þegar góð fjallasýn er, eru Suðurjöklar flott baksýn fyrir myndir, sem teknar eru á þessum stað.

Er leitun að viðlíku mótívi fyrir myndir og flugvélarskrokkurinn eitthvað svo einstaklega umkomulaus í auðninni.  


mbl.is Loka leiðinni að flugvélarflaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta gerðist á hans vakt.

Þetta gerðist á hans eða hennar vakt er stundum sagt um það þegar einhver segir af sér embætti.

Meira að segja á Indlandi gerðist það fyrir nokkrum árum að háttsettur embættismaður sagði af sér þótt hann ætti sjálfur enga aðild að miklum mistökum undirmanna hans.

Með afsögn sinni var hann ekki endilega að taka á sig sök á óförunum heldur einfaldlega að þjóna hagsmunum stofnunar sinnar, svo að yfirmaður hennar væri óumdeilanlega með hreint borð og að tjónið af óförunum yrði sem minnst.

Að sjálfsögðu ætti bankastjóri Landsbankans þegar að hafa sagt af sér, enda of mikið tengdur Borgunarklúðrinu til að geta firrt sig ábyrgð og það yrði best fyrir hagsmuni bankans, sem hann ætti að hafa helst í hávegum.

En hér á landi virðumst við ekki einu sinni kominn á svipað stig og Indverjar, eða hvað?    


mbl.is Afsögn eini kosturinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve langt mun þetta ganga?

Fyrir 90 árum höfðu Þjóðverjar tekið í gildi eina af frjálslyndustu stjórnarskrám þess tíma í Evrópu, en mikill órói var í landinu, milljónir manna höfðu farið afar illa út úr efnahagshruninu í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinna og misst allar eigur sínar í dæmalausri óðaverðbólgu.

Þjóðin hafði verið dæmd fyrir að bera ein ábyrgð á styrjöldinni og öllum þeim hörmungum sem henni fylgdu og var að sligast undan fáránlega háum stríðsskaðabótum.  

Með svokölluðum Locarno-sammingum virtist ætla að rofa til og gríðarlegur efnahagsuppgangur í Bandríkjunum smitaði út frá sér í gegnum efnahagskerfi heimsins.

En svo kom Hrunið 2929 með sinni geysilegu kreppu og atvinnuleysi og þeir stjórnmálaflokkar þýskir, sem höfðu nærst á óánægju og vaxandi þjóðerniskennd fóru að láta til sín taka.

Í samanburði við öflugt ríkisvald fasískra flokka virkaði Weimar-lýðveldið og stjórnarskrá þess sem ónýtt fyrirkomulag og framhaldið þekkja allir.

Eftir Hrunadans Seinni heimsstyrjaldarinnar var á ný sett frjálslynd stjórnarskrá í Þýskalandi, sem hefur verið einn af grundvöllum endurreisnar og velmegunar.

Nú er að sönnu annað og stórkostlegra betra ástand en fyrir 90 árum, en engu að síður kraumar óánægja nú sem þá, vegna aðstæðna, sem engan óraði fyrir fyrir aðeins tveimur árum.

Kjósendur nú bera ástandið aðeins saman við það sem það var fyrir síðasta fjármálahrun en ekki við ókunnar aðstæður fyrir 90 árum.

Óánægjuflokkarnir sækja því fram og ef spádómur fyrrum seðlabankastjóra um nýtt, óhjákvæmilegt og stærra fjármálahrun rætist, verða horfurnar ekki bjartar.

Spurningin er ekki lengur hver þróunin er heldur um það hve langt vaxandi óánægja muni leiða Þýskaland og álfuna alla.


mbl.is "Hryllingsdagur" fyrir Merkel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðavaktin í bílageymslunni "leikrit"?

Að undanförnu hafa hálkuslys og slæm flensa skapað örtröð á spítalanum í Fossvogi. Þetta get ég borið vitni um vegna alls sautján ferða þangað í eftirlit og sjúkraþjálfun vegna slæms axlarbrots.

Bílastæðið er sprungið við spítalann og menn aka bílum sínum út fyrir það og upp á skafla til að leggja þeim.

Í ljósi fullyrðinga annars þátttakendanna í umræðu um Landsspítalanna þess efnis að sjúkrarúm í bílakjallaranum hafi verið "sviðsett leikrit" leyfi ég mér að spyrja, hvort örtröð á bílastæðunum alla daga, sem maður kemur þarna, sé "sviðsett leikrit."

Þegar ég kom í fyrsta eftilit eftir slysið fór lunginn af deginum í að bíða í troðfullri deildinni. "Sviðsett leikrit"?

En í umræðuþættinum Eyjunni voru sett fram tvenn alvarleg ummæli, líka hinum megin við borðið.

Annars vegar var stjórn spítalans sökuð um að hafa "sett upp leikrit" til þess að knýja á um auknar framkvæmdir á lóð Landsspítalans við Hringbraut.

Nú væri búið að flytja rúmin úr bílageymslunni og það sannaði að þetta hefði verið plat af verstu gerð. Svona rétt eins og að minni örtröð daginn eftir að ég kom í eftirlit á bráðadeildinni sannaði að öngþveitið daginn áður hefði verið "sviðsett leikrit".

Þetta voru alvarlegar ásakanir því að þegar svona lagað er sett fram, verður að krefjast gagna, en ekkert slíkt var gert.

Önnur fráleit fullyrðing var borin fram í þættinum varðandi það að alls staðar erlendis hefði gefist illa að hanna sjúkrahús frá grunni á auðri lóð.

Ég hef áður sagt frá ferð minni til að skoða sjúkrahús í Noregi 2005, og segja frá og sýna myndir af sjúkrahúsinu í Osló, sem var flottasta og besta sjúkrahús Evrópu þegar ég skoðaði það 2005, hannað frá grunni á auðri lóð, og hins vegar sjúkrahúsið í Þrándheimi, sem ég tók líka myndir af, og var sagt í Noregi á þeim tíma að það sjúkrahús væri "víti til varnaðar" vegna þess hve mislukkaður bútasaumurinn væri.

Það er alvörumál þegar maður, sem á að vera sérfræðingur í stórmáli, sem hægt á að vera að treysta, setur svona lagað blákalt fram.

Og leiðinlegt fyrir hann líka, því að þegar svona augljós rangfærsla er viðhöfð í grundvallaratriði málsins, varpar það rýrð á aðrar fullyrðingar þessa manns, sem hann segir byggðar á vönduðum vinnubrögðum og staðreyndum.


mbl.is Ferðamaður slasaðist við Víti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband