Man enginn aldamótin þegar "málin voru svo viðkvæm"?

Fágætt er hve miklum tökum ótti við vald, sem enginn virtist þora að nefna, gat náð á mörgum um og eftir aldamótin siðustu.

Þegar ég gaf út bókina "Ljósið yfir landinu" rétt fyrir síðustu aldamót bjóst útgefandinn við því að ég myndi verða fenginn, eins og varðandi fyrri bækur mínar, til að lesa kafla úr henni hjá ýmsum stofnunum, svo sem sambýli eldri borgara.

En af því varð ekki í fyrsta sinn á rithöfundarferli mínum og viðkvæðið var svipað í öll skiptin.

 

"Er eitthvað þarna um hálendið?"

"Það er einn kafli um það þegar þrír Japanir drukknuðu í Rjúpnabrekkukvísl".

"Er hún á hálendinu?"

"Já."

"Þá viljum við ekki fá þig til að lesa." 

"Af hverju ekki?"

"Af því að þetta er svo viðkvæmt mál." 

 

Ef einhver leggur trúnað á að þetta hafi verið svona viðkvæmt mál, getur hann í dag lesið þessa bók og pælt í því, hver ósköpin það hafi verið.

Fjórum árum síðar leitaði ég að styrktaraðilum vegna myndarinnar "Á meðan land byggist" og fór á milli nokkurra fyrirtækja.

Svarið var alls staðar ákveðið: "Nei."

Eftir árangurslausar tilraunir kom að því að ég kom til forstjóra, sem sagði við mig:

"Ég ráðlegg þér að reyna ekki að fá styrk til þessarar kvikmyndagerðar. Þú ert að eyða tíma þínum til einskis."

Ég spurði hvers vegna hann segði þetta og hann svaraði:

"Það þorir enginn að koma nálægt því sem þú ert orðaður við. Eina leiðin fyrir þig væri að skipta um nafnspjald á töskunni sem þú ert með og setja eitthvert annað nafn. Skiptir ekki máli hvaða nafn, en þá rennur þetta í gegn. Sættu þig við það, að þú færð ekki að komast upp með að klára þessa mynd og ert að sóa tíma þínum til einskis. Persónulega væri ég til í að styðja þig, en ég kæmist aldrei upp með það."

Þegar ég kláraði samt myndina var listinn yfir styrktaraðila sá stysti sem um getur í sögu mynda, sem hafa skilað Edduverðlaunum:

Arngrímur Jóhannsson. (400 þús)

Toyotaumboðið. (200 þús)

Hjá Toyota var mér tjáð að þetta gengi í gegn vegna þess að það væri hvort eð er búið að refsa þeim harðlega fyrir að hafa lánað Græna hernum og Landvernd vistænan bíl til tímabundinna afnota, og að hér eftir hefðu þeir engu að tapa.

Þeir hefðu lagt umhverfismálum lið í samræmi við fyrirmæli verksmiðjanna um að sýna í verki stuðning við slík mál.

En fyrir bragðið væri búið að koma því svo fyrir að enginn Toyotabíll yrði notaður við Kárahnjúkavirkjun og eystra væri talað um það í fullri alvöru að útrýma Toyotabílum á Austfjörðum, ekki síst vegna þess að ég æki um á jöklajeppa af þeirri gerð.

En austur í Japan klóruðu eigendur Toyota sér í hausnum yfir því hvers vegna Ísland væri eina landið í heiminum þar sem Toyotaverksmiðjunum væri refsað til að leggja gott til umhverfismála.

 

 

 


mbl.is „Víðtækur ótti við ríkjandi öfl“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sú fórn, sem frumvarpið krefst, þess virði?

Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar sagði einn af frumkvöðlum frjálshyggju einu sinni og það á við um áfengisfrumvarpið svonefnda.

Nógu mörg sterk rök og umsagnir hníga að því að færsla áfenginssölu inn í matvörubúðir muni verða veiklunduðum skeinuhætt og kosta bæði þjáningar og mannslíf.

Astæðan er alþekkt í meðferð áfengissjúklinga og varðar það að þeir þurfi ekki að óþörfu að standa frammi fyrir því að áfengi sé otað þeim þegar þeir eru berskjaldaðir fyrir slíku eins og óhjákvæmilega verður með áfengið á jafn fjölförnum stöðum og matvöruverlsanir eru.

Í frelsisskilgreiningu Roosevelt Bandaríkjaforseta voru 2 af 4 þeirra skilgreind sem "frelsi frá...", frelsi frá skorti og frelsi frá ótta.

Í áfengisfrumvarpinu er vegið að "frelsi frá freistingu" sem er eitt af grundvallaratriðunum í björgun þúsunda áfengisfíkla frá böli sínu.

Að vega að hagsmunum þessa fólks er ekki verjandi fórn fyrir frelsi verslunareigenda til að græða á áfengissölu með því að dreifa þegar veittri þjónustu í áfengissölu út um allar koppagrundir.

Þegar viðurkennd lýðheilsurök eru fótum troðin er það sorglegt.


mbl.is Meirihlutinn styður áfengisfrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðferð "lagatækna".

Það er aðferð snjöllustu svonefndra "lagatækna" að lauma sakleysislegum orðum og orðalagsbreytingum inní lagatexta til þess að umbreyta honum svo mjög að hann verði annað hvort ónýtur til síns tilgangs eða að innihald hans gerbreytist.

Gott dæmi um þetta gerðist á síðasta kjörtímabili þegar liðin voru 13 ár síðan svonefndur Árósasamningur var gerður og Ísland var enn eina landið í Mið- og Norður-Evrópu sem ekki hafði lögtekið samninginn vegna harðvítugrar andstöðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins.

Að lokum varð að ráði að gera úrslitatilraun til að ná samkomulagi og eftir drjúga setu yfir málinu varð til lagatexti, sem komst í gegn án þess að beitt væri hinu þekkta málþófi.

Aðferðin, sem notuð er, er sú að taka ekki alþjóðasamninga á borð við þennan endilega hráa upp, heldur færa þá í búning íslensks frumvarps. Þannig er hægt að fela það að verið sé að í raun að afsala ríkisvaldi með þvi að samþykkja alþjóðasamninga eða gerast aðilar að alþjóðastofnunum.

Megintilgangur Áróssamningsins er að tryggja lögaðild samtaka umhverfis- og náttúruverndarfólks að framkvæmdum sem hafa umhverfisáhrif.

Þegar á þetta reyndi fyrir Hæstarétti vegna Gálgahraunsmálsins kom í ljós, að lagatæknar andstæðinga samningsins höfðu útvatnað hann nógu mikið til þess að Hæstiréttur gat með því að ey8ða í það ellefu blaðsíðum, úrskurðað að samtök hundraða og þúsunda umhverfisvernarfólks ættu ekki rétt til aðildar að málinu, þvert ofan í yfirlýstan tilgang samningsins!

Svipað er uppi á teningnum varðandi drög stjórnarskrárnefndar að tveimur stjórnarskrárgreinum um´náttúru og náttúruauðlindir Íslands.

 


mbl.is Tóku út skírskotun í nýjan spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmigert íslenskt klúður.

Röð af tilviljunum, allar í sömu átt?

Allir reyndu sitt besta en allt kom fyrir ekki?

Eða dæmigert íslenskt fjölþætt klúður þar sem hver getur bent á annan?


mbl.is Farið úr öskunni í eldinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug aðferð.

Sú aðferð sem Ketill Sigurjónsson segir Norðurál beita er gamalkunnug og ég þekki hana ágætlega frá árunum 1999-2003 þegar ætlunin var að "eyðileggja mig" svo að ég noti lýsingu Ketils.

Ég sagði frá þessu í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár", sem borinn var í Jöklugöngunni niður Laugaveg 26. september 2006.

Fram til 1999 hafði ég í fréttum og þáttum í sjónvarpinu reynt að gera það sama og Ketill Sigurjónsson, að leita eftir upplýsingum og mismunandi skoðunum um ákveðin mál og miðla þeim.

En árið 1999 kemur áhrifamaður að máli við konu mína í trúnaðarsamtali og segir henni frá því að hún eigi engra annarra kosta völ en að "stoppa mig" í því sem ég sé að gera.

Ef hún geri það, muni hún gera bæði henni sjálfri og mér mikinn greiða, því að þá geti ég einbeitt mér að því að gera það sem mér láti best, að fjalla um land og þjóð og mannlíf án þess að blanda virkjanamálum og hálendinu inn í það og skemma fyrir mér með því. Muni okkur báðum vel farnast ef hún geri þetta.

Hún svaraði því til að hún hefði sjálf farið með mér á eigin kostnað í margar þær ferðir sem væru svona umdeilanlegar og sæi enga ástæðu til þess að "stoppa mig".

"Athugaðu vel hvað þú ert að gera með því að stoppa hann ekki", var svarið, "því að ef þú stoppar hann ekki, verður hann stoppaður samt."

Sem sagt: Tilboð, sem ekki var hægt að hafna.

En hún hafnaði því og afleiðingarnar létu ekki á sér standa, bæði gagnvart mér og henni.

Hrint var af stað mikilli aðför með kröfu um að ég yrði rekinn frá Sjónvarpinu. Svo öflug var þessi aðför, að útvarpsráð lét fara fram ítarlega rannsókn á meintri hlutdrægni minni og "einokun" á fréttaflutningi af virkjanamálum og kom í ljós að ekkert var hæft í þessum ásökunum.

Þremur árum síðar, þegar ég vann að gerð myndarinnar "Á meðan land byggist" fóru mér að berast hótanir um aðför að mér þar sem ég yrði afgreiddur endanlega.

Þessar hótanir bárust ekki beint, heldur eftir krókaleiðum í formi orðróms um að hópur manna ynni að því að bera fram ásakanir á hendur mér, sem myndu eyðileggja feril minn og æru í eitt skipti fyrir öll. Leitt yrði í ljós, að útilokað væri að ég gæti gert þessa mynd öðruvísi en að fjársterk skuggaleg öfl mokuðu peningum í það og þar með yrði flett ofan af mér.

Þetta rímar vel við aðferðina, sem er notuð gegn Katli Sigurjónssyni.  

Góðir vinir mínir sögðu mér frá yfirvofandi aðför vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af þessu, en þannig var um hnúta búið að þeir gátu ekki rakið hvaðan sögusagnirnar komu.

Ég sagði við þá að þeir skyldu svara svona sögum á þann veg að ég væri alveg tilbúinn í þennan slag og jafnvel það að missa æruna. En hugsanlegur ærumissir yrði ekki nema um stundarsakir, því að ég væri með of gott tvöfalt og jafnvel þrefalt bókhald og upplýsingar um það hvernig þessi mynd væri gerð, svo sem með því að gera bíldruslur að farartækjum, vinnustað og gististöðum á hálendinu og með nákvæmu bókhaldi um viðveru, kílómetratölur og flugtíma.

Ég væri tilbúinn að missa æruna þá mánuði, sem þessi gögn yrðu skoðuð, en þar á eftir skyldu menn sjá, hverjir það yrðu, sem yrðu ærulausir.

Aldrei varð af þessari aðför, en tilhugsunin um ærulausu mánuðina var ekki skemmtileg.

Ketill Sigurjónsson getur verið stoltur af orkubloggi sínu og á miklar þakkir skildar fyrir það.

Það er mikill missir ef það hverfur nú, en ofangreinda sögu vil ég segja honum til uppörvunar.  

 


mbl.is Segir Norðurál í herferð gegn sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband