Í lagi að eiga fé í "skattaskjólum" ef skattar eru samt greiddir?

Í annað sinn á stuttum tíma heyrir maður að "fullir skattar hafi verið greiddir" af fjármunum í svonefndum "skattaskjólum".

Er þá væntanlega átt við það að skattarnir hafi runnið til Íslands.

Sé svo, spyr venjulegt fólk að því af hverju "skattaskjólin" eru kölluð því nafni.

Er það vegna þess að flestir, sem færðu fjármuni sína þangað, gerðu það til að komast hjá því að greiða skatta? Ja, það hefði maður ætlað.

En hvers vegna færðu þeir, sem komu fjármunum sínum þar fyrir, fé sitt þangað, fyrst þeir gátu fjárfest í ríkjum, sem ekki hafa verið kölluð skattaskjól og þannig komist hjá því að lenda í krónuhagkerfinu eins og allur almúginn?

  


mbl.is „Kemur okkur fullkomlega á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hrunið er ekki hér".

"Stalín er ekki hér" hét eftirminnilegt skáldverk eftir Véstein Lúðvíksson þar sem arfleifð Stalíns og áhrif hans að honum látnum voru undirliggjandi.

En rétt eins og Stalín kom og fór og var því líkamlega ekki hér en samt hægt að finna fyrir honum inni á rúmgafli hjá sumum, er stórt mál eins og Hrunið ekki ósvipað.

Alveg hugsanlegt að einhvern tíma skrifi einhver skáldverk með nafninu "Hrunið er ekki hér" á svipuðum nótum.

Því að átta árum eftir Hrunið dúkkar það upp aftur og aftur.

Fyrir Hrun voru nöfn svonefndra "skattaskjóla" almenningi hulin, já, og jafnvel einn útrásarvíkinganna svonefndu kannaðist ekki við það þegar hann var spurður um það í frægu sjónvarpsviðtali beint í kjölfar Hrunsins.

En úr því að heitið Tortóla var svona lítilfjörlegt og fjarlægt í hugum fólks fyrir haustið 2008, hvers vegna varð það allt í einu á hvers manns vörum það sama haust og síðan aftur núna?

Hvað veldur því að skattrannsóknarstjóri bíður lista blaðamannasamtakanna ICIJ yfir félög í "skattaskjólum" átta árum eftir Hrun ? 

Grundvallarsvarið er einfalt: Gagnsæi. Gagnsæi, þótt seint sé í rassinn gripið, nútímahugtak um nauðsynlega vitneskju um starfsemi stjórnvalda, stofnana og fyrirtækja sem hefur áhrif á almannahag.

Gagnsæi var eitt af meginatriðunum í rannsóknarskýrslu Alþingis og í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Gagnsæi er lífsnauðsyn fyrir heilbrigt lýðræði, því að það gerir kjósendum, almenningi, betur kleyft að átta sig á samhengi hlutanna og orsökum og afleiðingum þess.

Fyrir suma er það bara ágætt að gagnsæi sé sem mest en fyrir aðra er það verra.

Og þegar athugað er hverjum finnst gagnsæi slæmt getur það út af fyrir sig verið upplýsandi um samhengi hlutanna.    


mbl.is Blaðamannalistinn fer í rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innrás í daglegt líf veldur mestri ólgu.

Alda hryðjuverka í heiminum hófst fyrir tæpri hálfri öld. Í fyrstu beindust aðgerðir hryðjuverkamanna aðallega að því að ræna flugvélum og þegar litið er á tölur um fallna í hryðjuverkum, sést að þeir voru fleiri mörg árin á fyrstu áratugum þeirra en þeir eru nú. 

Undantekning er árið 2001 þegar um þrjú þúsund voru drepnir í árásinni á Bandaríkin. 

Þótt fleiri létust vegna hryðjuverka mörg árin á síðustu öld en á okkar tímum, er svo að sjá að hryðjuverk okkar tíma veki mun meiri ótta og ólgu en jafnvel mannskæðari hryðjuverk fyrri tíma. 

Ástæðan er líklega sú, að flugslys hafa fylgt farþegaflugi frá upphafi og orðið smám saman hluti af veruleika þessa afmarkaða sviðs nútíma lifnaðarhátta. 

Að fljúga með flugvél er mun afmarkaðra athafnasvið en daglegt líf á jörðu niðri og venjulegur farþegi sættir sig við þá áhættu sem fylgir því hverju sinni að fljúga með flugvél. 

En þegar hryðjuverkamenn fóru að sprengja sjálfa sig í loft upp innan um fólk í daglegu lífi var það ný ógn á vettvangi friðsæls og öruggs daglegs lífs.

Þetta var eins og að ráðast þannig inn í daglegt líf fólks, að það væri hvergi óhult og alltaf í hættu. 

Hryðjuverk nútímans fela í sér atlögu að öryggi, friði og farsæld og miða að því að skapa ótta, ólgu, tortryggni og hatur. 

Og því meiri upplausn og ólgu sem hryðjuverkamenn skapa, því meira verður þeim ágengt í þessari aðför að mannréttindum, friði og frelsi vestræns lýðræðis. 


mbl.is Egypskri farþegaþotu rænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband