Ekki lengur "Gróa á Leiti" og ofsóknir?

Upphaf þess máls sem nú hefur verið daglegt fréttaefni, var að eiginkona forsætisráðherra birti langa facebookfærslu, sem hún sagði nauðsynlega vegna þess að sögur í stíl Gróu á Leiti væru á kreiki.

Svo sem kunnugt er notaði Jón Thoroddsen þessa persónu í sögu sinni Pilti og stúlku sem tákn slúður- og slefbera sem dreifa alls kyns söguburði sem oftast er að miklu leyti ósannur eða stórlega ýktur.

Þar með voru ótilteknir slúðurberar kallaðir til ábyrgðar um þá umræðu, sem síðan hefur verið um eignir stjórnmálamanna í skattaskjólum og hagsmunatengsl, sem af slíku getur sprottið.

Verjandur meintra fórnarlamba slúðurs bættu um betur og hafa haldið uppi stanslausri ádeilu á hendur fréttastofu RUV, sem hafi ofsótt forsætisráðherra að ósekju.

Sömu verjendur héldu uppi svipuðum málflutningi þegar mál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur var í hámæli og umfjöllun fjölmiðla um það var kallaður "ljótur pólitískur leikur."  

Nú er umræðan í Tortólumálin búin að standa í tvær vikur og hefur aldrei verið meiri en einmitt nú, þegar allir þingflokkarnir, líka stjórnarflokkanna, eru á kafi í að vinna í þessum málum, - ekki vegna ofsókna fjölmiðla, heldur vegna þess að aflandsfélagamálin eru þess virði að þeim sé sinnt.

Þingflokkur Framsóknarmanna er meira að segja með tilbúið frumvarp um að varpa hulunni af málum, sem búið var að hamra á dögum saman að væri tilhæfulaust slúður og óhróður.

Þetta mál er nefninlega einn af prósteinunum á hvort við höfum lært nokkuð af Hruninu.   

 

 


mbl.is Tillaga um þingrof og kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprengjubelti ! "Eru margir Arabar á Íslandi?"

Þegar rússnesk farþegaþota sprakk á flugi yfir Sínaískaga í fyrra varð talsverð umræða um slakt eftirlit Egypta með farþegum og farangri.

Þeir báru það allt af sér, en nú er svo að sjá að farþegi hafi komist um borð í flugvél Egypt Air með heilt sprengjubelti um sig miðjan og nýtt sér það til að setja allt á annan endann um borð.

Mörgum finnst ströng öryggisleit í flugstöðvum óþægileg, en mér finnst gott til þess að vita að hún sé ítarleg svo að hægt sé að treysta því að flugöryggi sé eins mikið og framast er unnt.

Þótt ég sé kominn á eftirlaun hefur það ekki breytt því að ég tel mig sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðar- og fréttamann og tók til dæmis myndir fyrir myndbandið "Let it be done!" í Þýskalandi og Austurríki í nóvember sl.

Ég hef því jafnan í bakpoka mínum allra nauðsynlegasta myndatökubúnað þótt ýmsum finnist það kannski broslegt.

Á ferð til Brussel fyrir páska kom það sér hins vegar vel að geta hlaupið undir bagga fyrirvaralaust við að sinna fréttaflutningi þaðan.

Þetta innhald bakpokans kostaði hins vegar afar nákvæma leit á leiðinni heim á Shipholflugvelli þar sem ég sjálfur og hver einasti hlutur í fórum mínum voru þaulkönnuð.

Í Brusselferðinni reyndi ég að ræða við sem flesta á förnum vegi og það var lærdómsrík, bæði vegna þess hve almennt viðmælendurnir voru ákveðnir í að láta hryðjuverkamenn ekki eyðileggja frið, frelsi og mannréttindi vestræns samfélags en líka hvernig ný hugsun og ummæli virtust hafa síast ómeðvitað inn í huga margra.

"Eru margir Arabar hjá ykkur á Íslandi?" spurðu sumir þegar þeir heyrðu nafn mitt.

Svona spurningu hef ég aldrei heyrt áður á ferðum mínum.  

Ég svaraði neitandi en varð að játa, að líklega er hvergi utan Arabaheimsins að finna hlutfallslega fleiri með þessu nafni en á Íslandi eins og þjóðskráin og símaskráin bera með sér.

Ég minnti hins vegar viðmælendur mína á það að bandaríski hershöfðinginn Omar Bradley hefði verið virtur og þekktur á stríðsárunum og sömuleiðis hefðu þeir Omar Khayyám og Omar Sharif verið vel heimsþekktir.

Og á Shipholflugvelli flaug mér í huga hvort þetta nafn mitt í vegabréfinu virkaði hvetjandi fyrir öryggisverði á flugvöllum til þess að leita jafn ítarlega á mér og oft er gert.

Meðvitaðir eða ómeðvitaðir fordómar? Hver veit? 

Millinafn Bandaríkjaforseta, Hussein, hefur nefnilega ekki hljómað ýkja traustvekjandi í eyrum sumra og hann jafnvel grunaður um græsku eins og sjá má þegar farið er inn á vefinn.

 


mbl.is Tók mynd með flugræningjanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin eyðsla á Volkswagen á páskadag.

Volkswagen-hneykslið svonefnda var þess eðlis, að síðan upplýst var um það, koma upp efasemdir sem áður komu ekki upp varðandi þessa annars góðu bíla, þegar eitthvað passar ekki í tölfræðinni í notkun þeirra.

Vegna lokunar Brussel-flugvallar reyndist það vera fyrsta tækifærið og eina leiðin til að komast til Íslands á farmiðanum, sem búið var að kaupa heim hjá Icelandair, að nýta sér það að tvö sæti losnuðu í flugi frá Amsterdam fimm dögum eftir að flugið frá Brussel féll niður.

Við ókum á Volkswagen Polo bílaleigubíl frá Brussel til Amsterdam, fengum bílinn fullan af bensíni í Brussel og skiluðum honum fullum á Shiphol.

Uppgefin eyðsla á Polo er rúmir 5 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri og eyðslan á að vera um einum lítra minni á þjóðvegi.

En þrátt fyrir að aksturshraðinn á rennisléttri leiðinni væri um 110 km/klst að jafnaði og eyðslan hefði átt að vera eitthvað meiri, reyndist hún næstum þrefalt meiri, eða um 12 lítrar á hundraðið!

Þess má geta til samanburðar að í löngum akstri um Klettafjöllin fyrir 15 árum á miklu þyngri og stærri Buick bíl með þrefalt stærri vél að rúmtaki, og enda þótt þá þyrfti að gefa rösklega í upp brekkur á háum fjallvegum var meðaleyðslan þar aðeins 8,5 á hundraðið.

Á tímabili í vetur ók ég sjálfskiptum Opel Corsa árgerð 2002 um hríð, sem ég fékk að láni vegna afleiðinga axlarbrots (hann var ætlaður fötluðum og með sérstakri snúningskúlu á stýrinu fyrir vinstri hendina) og ég náði eyðslunni niður í um 8 lítra á hundraðið í vetrarfærðinni.

Ef ekkert Volkswagen-hneyksli hefði orðið í fyrra er óvíst að það fyrsta sem hvarflaði að mér við þessa uppákomu á Pólónum hefði verið: Það gat nú verið að Volkswagen gæfi upp kolrangar eyðslutölur!

Alla leiðina sýndi eyðslumælirinn að bíllinn eyddi aðeins um 6 lítrum á hundraðið.

En munurinn á uppgefinni eyðslu og raunverulegri í þessum akstri var mun meiri en svo að hægt væri að útskýra hann með því að minna hefði verið í tanknum þegar ég fékk bílinn en eftir að ég fyllti hann.

Í bæði skiptin sýndi bensínmælirinn fullan tank.

Nú er það staðreynd að nánast aldrei er að marka eyðslutölur bílaframleiðenda, sem mældar eru við eins góðar aðstæður og hugsast getur og oft möndlað með framkvæmdina ef marka má uppljóstanir bílablaðamanna.

En vegna Volkswagenhneykslisins hefur almennt traust á upplýsingum þess framleiðanda minnkað.

Það er synd, því að uppgangur Volkswagen lengst af byggðist á einstakri vöruvöndun, gæðum, endingu og lítilli bilanatíðni.    

 


mbl.is Kæra Volkswagen vegna blekkinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband