Nýr "tískusjúkdómur" í staðinn fyrir aðra.

Í áranna rás blossa oft upp umræður um ýmsa sjúkdóma og persónuleikavandamála, sem ekki hafa farið hátt fram að því eða jafnvel verið að mestu óþekktir.

Það eru ekki mörg ár síðan almenningur þekkti ekki ADHD, streituröskun eða "mótþróaþrjósku..." eitthvað, ég man ekki síðasta orðlið þessa heitis.

Síðustu misseri hefur maður heyrt um sjúkdómseinkenni, sem voru afgreidd sem ýmis konar "vinsælir" kvillar, ef nota má það orð um "tískusjúkdóma."

Nú nýlega varð kona sem ég þekki fyrir barðinu á slíku og mátti hafa sig alla við til að komast hjá læknis- og lyfjameðferð vegna kolrangrar sjúkdómsgreiningar.

Í ljós kom að veikindi konunnar voru af völdum myglu, og mátti hún kannski þakka fyrir að þessi nýi tískusjúkdómur er kominn til skjalanna.


mbl.is Langir biðlistar í myglugreiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á mál Davíðs Schevings hér um árið.

Meðan bannað var að selja áfengan bjór á Íslandi nutu flugliðar og farmenn undanþágu og máttu koma með ákveðið magn inn í landið í gegnum tollinn á Keflavíkurflugvelli eða tollskoðun í höfnum.

Davíð Scheving Thorsteinsson var ósáttur við þetta fyrirkomulag, keypti áfengan bjór í Fríðhöfninni 1979, ætlaði í gegnum tollinn með hann og lét reyna á það að tollverðir stöðvuðu hann og gerðu bjórinn upptækan.

Tiltækið vakti ekki síst athygli vegna orðtaksins um "hvað Davíð keypti ölið."

Á tímum vaxandi ferðamannastraums til landsins var orðið æ erfiðara að standa fyrir bjórbanninu, sem stakk verulega í stúf við það sem tíðkaðist í öðrum löndum, og Sighvatur Björgvinsson, sem þá var ráðherra, gaf út reglugerð sem afnam einkaleyfi flugliða og farmanna til að fara með ákveðinn skammt inn í landið, svo að almennigi var það heimilt.

Að lokum var bjórinn lögleyfður 1. mars 1989 með svipuðum rökum og notuð voru þegar almennu vínbanni var aflétt hálfri öld fyrr með þeim rökum að þessi bönn hefðu reynst óframkvæmanleg bæði hér á landi og erlendis.

Þetta nýja Fríhafnarmál er sérkennilegt og verður fróðlegt að fá að vita hvort það hafi verið vilji löggjafans að svipta Fríhöfnina leyfi til áfengissölu eða hvort um einhvers konar gleymsku hefur verið að ræða.

Svipað álitamál gæti það verið, hvort það hafi verið vilji löggjafans á sínum tíma að nema úr gildi skyldu, sem var í fyrstu bifreiðalögunum 1914 um það að í hverjum bíl væri búnaður til að hægt væri að knýja bílinn afturábak, eða hvort um gleymsku hafi verið að ræða.

Fríhafnarmálið kemur upp á sama tíma og áfengisfrumvarpið svonefnda, um sölu áfengis í matvöruverslunum,  er fyrir Alþingi.

Hér er um ólíkar aðstæður að ræða. Fólk fer allt að því daglega í matvöruverslanir og það er niðurstaða rannsókna, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og fleiri hafa gert, að því aðgengilegra og meira áberandi áfengi er, því meiri verður neysla þess.

Vitað er og viðurkennt þegar fólk fer í áfengismeðferð að það verður að leggja sig fram um það að halda sig frá þeim stöðum og aðstæðum, þar sem neysla eða áfengi er í gangi.

Sama gildir um alla þá sem eru veikir fyrir áfenginu.

Áfengi í matvöruverslunum er því heilbrigðismál sem snertir heilsu og líf of margra til þess að hægt sé að líta fram hjá því.

Um það gildir ein af setningunum úr fræðum frjálshyggjunnar, að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar.


mbl.is Bannað að selja áfengi í Fríhöfninni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugt skömmtunarkerfi.

Ég man þá tíð þegar í gildi var skömmtun á mörgum nauðsynjum og naumt skammtað til almennings í formi skömmtunarmiða.

Stjórnvöld þess tíma töldu sig tilneydd á tímum gjaldeyrisskorts eftir stríðið að grípa til þessa úrræðis.

Á aldarafmæli Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins er litið til baka yfir heila öld, þar sem almennum launþegum hafa í kjaradeilum verið skömmtuð með valdi ofan frá, frá ráðamönnum fyrirtækja, laun allt niður í innan við 300 þúsund á mánuði.

Hækkanir launa, að ekki sé minnst á lífeyrisgreiðslur og örorkubætur, hafa verið skornar við nögl með slíku skömmtunarvaldi þeirra, sem hafa margföld laun á við venjulegt launafólk.

En skammtararnir nota líka aðstöðu sína og vald til að stunda öfuga skömmtun, skömmtun upp á við, þegar kemur að launum þeirra sjálfra.

Þá gilda önnur lögmál, þegar þeir skammta sjálfum sér tíföld til tuttugu sinnum hærri laun en hinna lægst launuðu, þannig að hækkunin ein og sér, viðbótin, nemur kannski tvöföldum mánaðarlaunum láglaunahópanna. 

Það glyttir æ víðar í 2007 fyrirbrigðin.   

 


mbl.is „Þessi tvískinnungur gengur ekki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband