Frumkvæði Íslands ekki sjálfgefið.

Það var ekki sjálfgefið í baráttu Eystrasaltsríkjanna fyrir endurheimt sjálfstæðis síns 1990 að vestræn ríki viðurkenndu sjálfstæðisyfirlýsingar þeirra.

Leiðtogar NATO vildu stíga varlega til jarðar til að styggja ekki Michael Gorbatstjov, sem var um þessar mundir að feta Sovétríkin í gegnum lok Kalda stríðsins án þess að eiga á hættu að harðlínumenn í Moskvu vikju honum til hliðar.

En Gorbatsjov hafði ekki hugað að því, að þegar hann kom því til leiðar að griðasáttmáli Stalíns og Hitlers yrði lýstur ólögmætur, gaf það Eystrasaltsþjóðunum fótfestu til að krefjast þess að staða þeirra yrði færð aftur til daganna fyrir griðasáttmálann þegar þau voru öll sjálfstæð ríki, höfðu fengið sjálfstæði í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar á sama tíma og Íslendingar.

En Íslendingar áttu snjallan, hugsjónaríkan og hugrakkan utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem hafði bundist persónulegum vinaböndum við leiðtoga Eystrasaltsríkjanna, og hikaði ekki við að fara með engum fyrirvara til Lítháens þegar leiðtogi Litháa hafði samband við hann vegna yfirvofandi valdbeitingar Sovétmanna.

Jón Baldvin fór og sameinaðist sjálfstæðisbaráttufólkinu og beitti sér í framhaldinu fyrir því að Íslendingar viðurkenndu sjálfstæði Litháens, fyrstir þjóða.

Danir fylgdu fljótlega á eftir og og komið var skarð í kúgunarmúrinn sovéska, sem stækkaði hratt.

Og þrátt fyrir að Gorbatsjov sendi herlið til Litháens sem beitti grimmu valdi til að byrja með, var samstaða þjóðarinnar svo mikil, að Gorbi heyktist á að fara alla leið í valdbeitingunni, og í framhaldinu fengu þjóðirnar þrjár sjálfstæði.

Frumkvæði NATO-þjóðarinnar Íslendinga og Dana í kjölfarið í óþökk helstu ráðamanna NATO var ekki sjálfgefið.

Þess vegna er nafn Íslands og utanríkisráðherra okkar í hávegum haft í þessum löndum.   


mbl.is „Takk fyrir Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver getur komið í staðinn fyrir Sean Connery?

Mér finnst James Bond ekki almennilega hafa borið sitt barr síðan Sean Connery lagði grunninn að margslunginni týpunni svo að um munaði.  

Roger Moore hafði skilaði að vísu húmornum vel en var of mikill sætabrauðsdrengur.

Í meðförum Craig kom líkamlegt atgerfi ágætlega til skila og svolítið dýpri túlkun á brestum og erfiðleikum í karakter Bonds, en of mikið á kostnað húmorsins.

Nú bíður maður eftir því að fá einhvern sem fær mann til að gleyma söknuðinum eftir fráhvarf Connerys, helst það ungan að hann geti leikið í jafnvel fleiri Bond-myndum en Connery.


mbl.is Tom Hiddleston næsti James Bond?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins sumarhöfn, því miður.

Nú eru liðin sex ár frá gosinu í Eyjafjallajökli, en framburður aurs í upphafi þess goss niður eftir farvegi Markarfljóts var notaður sem útskýring og eins konar afsökun á sandburðinum inn í Landeyjahöfn.

Sömuleiðis hafa "óvenjulega miklir umhleypingar" verið algeng útskýring á lokun hafnarinnar á veturna, þegar hið rétta er, að erfið vetrartíð er lögmál á Íslandi, af því að landið liggur á útmánuðum á þeim stað á jörðinni þar sem að jafnaði dýpsta lægð jarðar á sunnanverðu Grænlandshafi liggur upp að næst hæstu hæð jarðar yfir Grænlandi, en þar með er lagður grunnur að einum vindasamasta stað jarðarinnar.

Um allt land eru grjótgarðar notaðir til að safna að sér sandi þar sem aðgerða er þörf vegna landbrots, og er það til dæmis lausn, sem nota þarf við Vík í Mýrdal.

Þess vegna var það ofur fyrirsjáanlegt að garðarnir út úr Landeyjahöfn myndu gera það sama og garðar við Vík og fyrirsjáanlegt að Landeyjahöfn yrði aðeins nothæf á sumrin.

Við það missa Vestmannaeyingar því miður algerlega af ferðamannastraumnum, sem nú leikur í vaxandi mæli um Ísland að vetrarlagi og ekkert við því að gera, ekki frekar en að breyta lögmálum veðurfars og sandburðar við suðurströndina.

Það breytir ekki því að úr því sem komið er verður að reyna að nýta þessa höfn eins og mögulegt er ef gæta á jafnræðis með landsmönnum varðandi samgöngur og samgöngumannvirki.


mbl.is Dýpkun gengur hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband