Annað Hrun, fyrr og öðruvísi en búast mátti við.

Ísland hlaut þá vafasömu frægð 2008 að hér varð banka- og efnahagshrunið meira en í öðrum löndum.

Í viðreisnarstarfinu eftir Hrunið höfum við að vísu skapað okkur nokkurn orðstír fyrir árangur, en æ víða hefur samt mátt sjá merki um svipuð fyrirbrigði og skópu Hrunið.

Þess vegna hefur þeim áhyggjum verið lýst hér á síðunni að annað hrun væri í vændum.

En eftir einhvern mesta bombuþátt, sem í minnumm má hafa í sjónvarpi hér á landi nú áðan, er ljóst að orðið hefur annað hrun, fyrr en búast mátti við og með annarri birtingarmynd, -  þeirri, að nú teljumst við fremstir meðal þjóða hvað varðar þá miklu spillingu sem fylgir erlendum aflandssvæðum, hröpum á áliti á alþjóða vettvangi og hljótum af því vafasama frægð.

Þjóðarleiðtogi okkar er í vafasömum félagsskap með Pútín og Poroshenko og hvergi hafa verið stofnuð fleiri aflandssfélög miðað við fólksfjölda en á Íslandi.

Varaformaður Framsóknar lét sér hvergi bregða og sagði að engar nýjar upplýsingar hefðu birst varðandi Wintris-málið og virðast forystumenn flokksins ekki sjá neitt athugavert við gerðir forsætisráðherra.

Langt er síðan manni hefur samt liðið jafn illa yfir atviki á skjánum og í aðdraganda þess að hann gekk á dyr úr viðtali og vanlíðan hans skein af honum.

Teikna hefði mátt Gosanef á marga aflandssvæðaíslendingana þegar þeir reyndu að bjarga sér með undanbrögðum. 


mbl.is Seldi hlutann degi fyrir breytingu á lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt bragð gagnvart fjölmiðlum.

Það er gamalkunnugt bragð þegar ráðamenn og fleiri vilja draga úr umfjöllun fjölmiðla um málefni,sem snertir þá, neita að koma í viðtöl.

Með því reyna þeir að þvinga viðkomandi fjölmiðla til að draga úr umfjölluninni eða jafnvel hætta henni, af því að annar aðili málsins vill ekki tjá sig og´þá er hætta á að fjömiðillinn guggni á þvi að halda umfjöllun áfram, vegna þess að þá verði hægt að saka hann um að tala alltaf við hinn aðila málsins.

Og þar með reynir sá, sem stundar viðtalabann, að gera fjölmiðilinn ábyrgan fyrir því hvernig málum er komið og snúa dæminu við.

Það eru margir áratugir síðan þetta bragð hætti að virka gagnvart fjölmiðlum og fjölmiðlafólki, sem hefur hafa bein í nefinu.

Í svona tilfellum er greint frá því að viðkomandi hafi ekki viljað koma í viðtal, jafnvel þótt upp komi skammir fyrir að vera "sífellt að tönnlast á því."

Það sem SDG segir í viðtali við mbl.is gæti hann verið búinn að segja fyrir löngu í viðtölum á RÚV ef hann nýtti sér boð um að koma þar í viðtöl.

Sjálfur sagði SDG í viðtalinu við sjálfan sig um síðustu helgi að ekkert væri siðferðilega athugavert við það að hann leyndi hagsmunatengslum sínum við kröfuhafa föllnu bankanna.

En síðan kvartar hann yfir því að talað sé við forstöðumann Siðfræðistofnunar Íslands um málið.

Kvörtunarefnin núna eru hin sömu að þessu leyti og í frægu viðtali við Gísla Martein í fyrra; að ekki sé talað við rétta menn.

En við hvern hefði freka átt að tala um siðfræðileg efni en forstöðumann Siðfræðistofnunar Háskólans? 


mbl.is Fremur verið að hanna atburðarás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaskapur og firring varðandi fjölmiðlun.

Nú má sjá áframhaldandi viðbrögð í stórum stíl við fréttaflutningi af aflandsfélagamálinu á netinu, meðal annars í athugasemd við frétt á mbl.is þar sem RUV er kallað DDRUV og ítrekuð krafan um að leggja Ríkisútvarpið niður.

Málið hófst reyndar ekki á RUV heldur með "fyrirbyggjandi" sókn á facebook-síðu konu forsætisráðherra þar sem talað var um Gróu á Leiti og reynt að gera lítið úr málinu.

Ráðherrann setti fréttastofu RUV þegar í viðtalabann og hafinn var upp mikill söngur um ósvífna og vítaverða "herferð" fréttastofu RUV á hendur honum, ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.

En setjum sem svo að RUV hefði hegðað sér í samræmi við kröfurnar um að þegja sem kyrfilegast um þessi mál alveg frá byrjun.

Þá væri RUV ekki með í samstarfi erlendra sjónvarpsstöðva og fréttamiðla klukkan 18:00 í dag þar sem farið verður samtímis í útsendingu frá mörgum löndum yfir stærsta gagnaleka þar sem skattaskjólaleikur háttsettra íslenskra ráðamanna yrði áberandi.

Til þess að andæfa þessu þyrfti að skrúfa fyrir möguleika landsmanna til að fylgjast með hinni erlendu umfjöllun á netinu, ekki hvað síst vegna þess að það myndi þykja fréttnæmt í þeirri umfjöllun, hvernig sjálfur ríkisfjölmiðillinn reyndi að aftra umfjöllun um málið hér heima.

Ef slíkt hefði orðið ofan á hefði það lýst firringu, sem virðist ríkja hjá þeim, sem hamast gegn eðlilegri umfjöllun fjölmiðla um svona stórt mál.

En firring getur ekki þrifist nema sem afleiðing af barnaskap varðandi nútíma fjölmiðlun og nútíma upplýsingamiðlun, sem þróast upp í áunna firringu.   

 

 

 

 


mbl.is „Óásættanleg hegðun forsætisráðherra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað í tíð Davíðs og Jóns Baldvins. Saga af því.

Þegar Davíð og Jón Baldvin voru nokkurs konar Tvíhöfði íslenskra stjórnmála á stjórnarárum þeirra 1991-95 fóru þeir á tímabili í fýlu við fréttastofu Stöðvar 2 vegna umfjöllunar hennar um tvö mál, sem tengdust meðferð þeirra á áfengi í mismunandi tilvikum.

Þeir tregðuðust við að koma í viðtöl um nokkurt skeið og settu á eins konar "viðtalabann og stóð það öllu lengur hjá Jóni Baldvini en Davíð.

Heitustu stuðningsmenn þeirra kyntu mjög undir gagnrýni á fréttastofuna, gagnrýndu til dæmis það að myndavél Stöðvar 2 hefði verið beitt mun grimmar gegn Davíð í fréttinni af svonefndri Bermúdaskál heldur en myndavél Sjónvarpsins.

Hið rétta var að kvikmyndatökumaður RUV stillti sinni myndavél upp á undan tökumanni Stöðvar 2 og fyrir bragðið lenti síðarnefnda myndavélin að lokum í beinna sjónarhorni við Davíð.

Fljótlega rjátlaðist þetta af þeim félögum og "bannið" lognaðist útaf.

Ágæta sögu af því þegar þessu létti endanlega kann ég að segja, en á þessum árum vann ég á Stöð 2.

Eitt sinn þurfti fréttastofan á því að halda að ná sambandi við Jón Baldvin, ekki aðeins vegna fréttanna, heldur ekki síður vegna þess, að það var mikilvægt fyrir hann að í hann næðist eða hann kæmi í viðtal sem allra fyrst.

Jón Baldvin var með leyninúmer, og af því að okkur hefur alltaf verið vel til vina, hafði hann sagt mér frá því í sérstökum trúnaði nokkrum árum fyrr.

Þegar öll sund virtust lokuð um að hægt væri að ná sambandi við Jón Baldvin, bauðst ég til að hringja í hann og heyra hvað hann segði.

Hér á eftir eru ummæli Jóns skáletruð. Hann var snöggur upp á lagið og sagði:

 

"Ég harðbannaði þér að skrifa númerið niður! Þú lofaðir því að gera það ekki! Og lofaði mér líka að leggja það ekki á minnið. "

"Já, það er rétt, og ég skrifaði það ekki niður.

"Hvernig veistu þá hvað númerið er?" spurði Jón Baldvin.

"Það er af því að fyrir unnendur sögu Alþýðuflokksins er engin leið að gleyma því og ég gat ekki gleymt því þótt ég reyndi."

"Bull og kjaftæði! Þú ert næsta ósvífinn að þykjast geta blandað sögu Alþýðuflokksins inn í þetta!"

"Nei, þetta er hreina satt. Þú veist ósköp vel sjálfur hvenær var stærsta stund Alþýðuflokksins, þegar hann fékk jafnmarga þingmenn og Alþýðubandalagið í kosningum."

"Hlusta ekki á svona þvælu."

"Jú leyfðu mér að útskýra. Öll þjóðin veit að þú býrð á Vesturgötunni og þú gast ekki krafist þess að ég gleymdi því."

"Jæja þá, En hvað kemur það málinu við?"

"Jú, þar með byrjar númerið á 552."

"Ókey, en hvað þá með ruglið um sögu Alþýðuflokksins?"

"Jú, númerið byrjar á 55 og svo koma 27816."

"Og hvað með það? Þetta tóm þvæla."

"Nei, hlustaðu á mig. 2-78-16. Það munaði 2 þingmönnum árið 78 að þið fengjuð 16 þingmenn."

"Æ, æ, ókey. Þú sleppur með þetta, en hvert var erindið?"

 

Ég greindi honum frá því, og Jón sá að þetta mál var svo brýnt fyrir hann, að samband náðist og þar með slaknaði á samskiptabanninu.  

 


mbl.is Egill líkir Íslandi við Rússland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnið "Vínland hið góða" segir allt.

Það er staðreynd að loftslag og veðurfar var nokkuð hlýtt fyrir og fyrst eftir árþúsundaskiptin 1000. Engu að síður hefur allan tímann, sem liðinn er frá því að rústir víkingabyggðar fundust á norðausturhorni Nýfundnalands, verið óliklegt að það svæði, sem í íslenskum heimildum er kallað Vínland hið góða, hafi verið þar.

Af sögunum sjálfum má raunar draga þá ályktun að víkingarnir hafi haldið mun sunnar, eða allt suður til ósa Hudson árinnar þar sem nú stendur borgin New York.

Myndin, sem birst hefur af minjum um víkingaþorp á suðvesturodda Nýfundnalands sýnir alveg ótrúlega stórt þorp, mikla byggð.

Það bendur til þess að landnámið hafi verið umfangsmeira en hingað til hefur verið hægt að fullyrða um.

Þar með hlýtur nafnið Vínland hið góða ágætt hlutskipti sem marktæk heimild um stórmerkilegt landnám Íslendinga í Ameríku og jafnvel ekki óhugsandi að ummerki um landnám enn sunnar kunni að finnast. .


mbl.is Svona leit víkingaþorpið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband