Birta eftir svartnætti gærdagsins.

25 erlendar sjónvarpsstöðvar sýndu beint frá mótmælafundinum á Austurvelli í dag, hvernig metfjöldi, minnst 15 þúsund manns, eða álíka fjöldi, miðað við mannfjölda, og tæplega hálf milljón Svía hefðu sýnt hvernig hugarástand ríkir hjá þjóð, sem vill ekki að heiður hennar sé troðinn í svaðið, heldur vill reisa hann við. IMG_7630

Það var sama hvert litið var á Austurvelli um hálf sex í dag: Fólkið fyllti allan völlinn og flæddi út á næstu götur.

Myndirnar, sem teknar voru í fjórar áttir frá sama punkti, tala sínu máli.

En SDG sagði í firringu sinni og hroka að þetta væri ekki margt fólk.Austurvöllur 4.4.16

Það minnti á ummæli Hoeneckers leiðtoga Austur-Þýskalands þegar hann sagði upp í opið geðið á fjölmennum mótmælafundi í Dresden rétt fyrir fall Berlínarmúrsins: "Þið eruð ekki þjóðin."

Ég hitti bæði áberandi Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn á Austurvelli í dag sem voru í hópi mótmælenda.

Framsóknarmaðurinn sagði að það sem nú blasti við væri í hrópandi mótsögn við hugsjónir síns flokks.

Ég vil benda á góðan og athyglisverðan bloggpistil Jóns Magnússsonar, fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um þetta mál, en hann vill að bæði formaður og varaformaður flokksins axli ábyrgð éins og forsætisráðherrann. Austurvöllur 4.4.16 (2)

Forsætisráðherra Svíþjóðar sagði í sjónvarpsviðtali í kvöld að þar í landi yrði forsætisráðherra ekki sætt í stöðu sem væri sambærileg við stöðu Sigmundar Davíðs.

Þegar rætt var við tvo sjálfstæðisþingmenn í Kastljósi í kvöld vitnuðu þeir ekki aðeins í tilvist hins mikla fjölda á Austurvelli í dag heldur líka í simtöl og skilaboð sem þingmenn hafi fengið.

Meðal slíkra skilaboða var ályktun stjórnar Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna, og sjónvarpsviðtal við formanninn, sem var í hópi mótmælenda.

Síðan les maður hér á blogginu að hér sé aðeins um "hannaða atburðarás RUV" að ræða.

Mikill má máttur RÚV vera ef það stjórnar aðgerðum og fréttamati fjölmiðla um allan heim og ummælum sænsks forsætisráðherra í ofanálag.

Ég hélt fram á daginn í dag að í vændum væri jafnvel margra vikna andspyrna stjórnarmeirihlutans gegn því að horfast í augu við alvarleika málsins, sem er á forsíðum fjölmiðla um allan heim.

En loðin svör stjórnarþingmanna og hik Bjarna Benediktssonar og fleiri við að lýsa yfir stuðningi við forsætisráðherra, sýna að tvær grímur eru farnar að renna á þá.

Villum Þór orðaði það svo, að Kastljósþátturinn í gær, sem verjendur SDG segja að hafi ekki leitt neitt nýtt ljós varðandi málefni hans, hefði gerbreytt stöðu málsins.


mbl.is Stífluð miðborg, aldrei séð annað eins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússland, fyrirmynd varðandi ríkisfjölmiðla?

Verjendur forsætisráðherra, sem fara enn hamförum yfir "ofsóknum" RÚV á hendur honum, geta bent á góða fyrirmynd um skikkanlega hegðun ríkisfjölmiðla, Rússland.

Raunar er einn þessara verjenda búinn að sjá, að erfitt hefði verið að komast það langt hér á landi að RÚV yrði hinn eini þeirra hundraða fjölmiðla, sem hafa fjallað um Panamaskjölin, sem segði sig frá málinu og fjallaði sem allra, allra minnst um það.

Þessi mikli verjandi SDG er búinn að finna það út að orðið banani eigi ekki við lönd skattaskjólanna i hugtakinu "bananalýðveldi" heldur sé þessu öfugt farið, orðið banani passi fyrst og fremst við fjölmiðla heimsins í nýju heiti, "bananafjölmiðlar."

Mikið hlýtur nú að líða mikil sælutilfinning um þennan orðhaga uppfinningamann að vita af því að í Rússlandi leynist fyrirmynd fyrir fjölmiðla, sem andæfi gegn "ofsóknum" á hendur ráðamönnum og þegi þunnu hljóði um mál eins og Panamaskjölin.  


mbl.is Þegja þunnu hljóði um skjölin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur komið 2012?

"Mig dreymdi´að það væri komið árið 2012..." var sungið fyrir hálfri öld. 

Nú má kannski snúa þessu við og syngja:

"Mig dreymdi´að það væri komið aftur 2012...?.

Árið 2012 vísaði nefnilega forsetinn í það að óvissutímar ríktu og að þess vegna gæfi hann kost á sér til áframhaldandi setu í embætti, en eftir atvikum gæti sá tími orðið tvö ár í stað fjögurra. 

Nú er komin upp óvænt og fordæmalaus staða í íslenskum stjórnmálum. Nýr flokkur nýtur um og yfir 35% stöðugs fylgis í bráðum heilt ár og svipuð ólga skekur þjóðfélagið og 2008 hvað varðar hinn siðferðilega hluta Hrunsins. 

Dæmalaus fjöldi frambjóðenda er kominn fram vegna komandi forsetakosninga og galli núverandi fyrirkomulags eru umræddir. 

Hafi verið mikil ástæða fyrir Ólaf Ragnar að hans mati að bjóða sig fram 2012 gæti niðurstaða hans allt eins orðið sú að þessu sinni, að bæta tveimur árum eða fleirum við setu sína á Bessastöðum með því að bjóða sig fram á svipuðum forsendum og 2012. 

Framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en 21. maí, svo að hann hefur meira en mánuð til að velta málinu fyrir sér, og mánuður er langur tími í pólitík. 


mbl.is Forsetinn flýtir heimför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málið fjallar víst um uppgjör eða ekki uppgjör eftir Hrunið.

Afhjúpun og úrvinnsla úr Panamaskjölunum svonefndu eru rökrétt framhald uppgjörs Íslendinga og annarra þjóða við umhverfið, sem ól af sér efnahagshrunið 2008. 

Tilefni fundar við forsætisráðherra Íslands í Ráðherrabústaðnum var því rétt fram sett þótt nú megi sjá viðleitni til þess að væna Jóhannes Kr. Kristjánsson um að hafa tælt forsætisráðherra til þessa viðtal á fölskum forsendum. 

Íslenskir bankar komu sér upp hátimbraðri og flókinni spilaborg blekkinga og leyndarhjúps sem sprakk í loft upp haustið 2008. 

Þess vegna kom Hrunið 2008 flestum að óvörum og þess vegna var upptaka gagnsæis ein af forsendunum í rannsóknarskýrslu Alþingis fyrir því að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig. 

"Landsbankinn ráðlagði" voru lykilorð forsætisráðherrafrúarinnar í frásögn sinni af stofnun aflandsfélagins á Tortóla. 

Þótt spilaborgin mikla hryndi 2008 hélt starfsemin áfram af sama kappi og fyrr eins og ekkert hefði í skorist með lygilegu umfangi eins og glöggt kom fram í Kastljósþætti gærdagsis. 

Miðað við fólksfjölda voru Íslendingar afkastamestir allra þjóða í þessu efni og hafa nú öðlast heimsfrægð fyrir vikið, ekki minni en 2008. 

Að þessu leyti fór ekki fram neitt siðferðilegt uppgjör Íslendinga við aðfarirnar og aðferðirnar, sem bjuggu til Hrunið, heldur hefur komið í ljós að forsætisráðherrann var sjálfur flæktur í þessa starfsemi eftir að hann gerðist þingmaður og braust til forystu um það að vinda ofan af Hruninu.

Leyndi því fyrir þjóðinni sem treysti honum til þess verks að auka gagnsæi og hreinsa til.  

Uppgjörið svonefnda gerðist því bara á yfirborðinu á meðan undir niðri varð engin breyting á því fjármálasiðferði, ef siðferði skyldi kalla, sem hélt sínu striki undir merkjum erlendra "stjórnarformanna Íslands.". 


mbl.is Hápunktur tíu mánaða vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málið snýst það hvort SDG hafi leynt hlutdeild í aflandsfélagi.

Nú í kvöld hafa menn haldið því fram hér á blogginu að í Kastljósþætti RÚV hafi forsætisráðherra verið ásakaður um skattaundanskot og jafnvel sagt að The Guardian hafi sýknað hann af öllu óheiðarlegu. 

En málið snýst ekki um þetta að svo stöddu, heldur um það hvort SDG hafi leynt Alþingi og þar með þjóðinni hlutdeild sinni í félagi í skattaskjóli þegar hann átti að gefa upp þessa aðild og koma hreint fram. 

Ekkert liggur enn fyrir um undanskot frá skatti og því snýst málið ekki um það nema annað komi í ljós. 


mbl.is Viðtalið við Sigmund - orðrétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband